Ráðgjafanefnd um erfðabreytingar á lífverum

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 14:26:17 (4344)

1997-03-12 14:26:17# 121. lþ. 88.4 fundur 395. mál: #A ráðgjafanefnd um erfðabreytingar á lífverum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur

[14:26]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Það er líka rétt sem fram kemur hjá hv. fyrirspyrjanda að þetta er mikið reglugerðarverk. Það er mikið verk að setja þá reglugerð sem hér er spurt um og sérstaklega var vitnað til. Þó er fleira sem fylgir og mikið starf sem bíður bæði nefndarinnar og eins auðvitað Hollustuverndar ríkisins sem stofnunarinnar sem fer með málið. Það er rétt að minna á að það var, eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, sérstaklega getið í sambandi við fjárveitingar til stofnunarinnar, að þær voru auknar vegna þessarar nýju löggjafar og gert ráð fyrir því að það mundi auka umfang stofnunarinnar. Að öðru leyti var fjárhagur stofnunarinnar líka leiðréttur nokkuð þar í viðbót. En mér eins og auðvitað hv. þm. öllum er ljóst að það hafa hlaðist á þessa stofnun mikil verkefni að undanförnu og hún hefur átt í rekstrarerfiðleikum en við höfum reynt að bregðast við því bæði á seinasta ári og í fjárlögum þessa árs og reyndar er enn í umræðu hvernig frekar megi styrkja þessa starfsemi.

Hv. þm. spurði hvenær nefndin hefði verið skipuð. Ég hef nú því miður ekki dagsetninguna á því en það eru aðeins örfáir dagar síðan þannig að ég hygg að ég geti fullyrt að nefndin hafi ekki enn komið til fyrsta fundar. Ég gef mér það því það eru ekki nema örfáir dagar síðan gengið var frá skipunarbréfunum. Þau voru til eða svo til frágengin fyrir nokkru síðan en þá brá ráðherra sér utan og var erlendis í nokkra daga en gekk frá þessu núna strax og hann kom heim þannig að það eru bara tveir til þrír dagar síðan gengið var frá nefndarskipuninni. Ég vona að nefndin komi saman hið allra fyrsta og verði eins og kveðið er á, ráðuneytinu og stjórnvöldum til ráðgjafar um framkvæmd alla og um þá reglugerðarsetningu sem fyrir dyrum er.