Tilraunadýranefnd

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 14:32:20 (4346)

1997-03-12 14:32:20# 121. lþ. 88.5 fundur 396. mál: #A tilraunadýranefnd# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur

[14:32]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Í 16. gr. laga nr. 15/1994, um dýravernd, er kveðið á um að umhvrh. skuli skipa tilraunadýranefnd til fjögurra ára í senn svo sem fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda. Í nefndinni skulu eiga sæti þrír menn, þ.e. yfirdýralæknir, sem er formaður nefndarinnar, einn fulltrúi tilnefndur af Rannsóknastofnun í siðfræði --- Siðfræðistofnun Háskóla Íslands og einn fulltrúi skipaður án tilnefningar og skal hann hafa háskólapróf og þekkingu og reynslu á sviði dýratilrauna.

Þá var spurt fyrst hverjir eiga sæti í þessari nefnd en tilraunadýranefndin var skipuð 6. júlí 1995 og eiga sæti í henni Brynjólfur Sandholt yfirdýralæknir, sem er jafnframt formaður nefndarinnar, Jón Kalmansson tilnefndur af Siðfræðistofnun Háskóla Íslands og Dagmar Vala Hjörleifsdóttir dýralæknir, sem skipuð er án tilnefningar.

Síðan er spurt um reglugerðina skv. 16. gr. en við skipun nefndarinnar var óskað eftir því að nefndin gerði drög að reglugerð um tilraunadýr í samræmi við 16. gr. Nefndin skilaði tillögu sinni til ráðuneytisins í lok seinasta árs. Eftir athugun í ráðuneytinu var ákveðið að senda reglugerðardrögin til nefndarinnar aftur til frekari vinnslu. Ný tillaga barst ráðuneytinu 25. febrúar sl. frá nefndinni og hefur ráðuneytið sent þau drög til umsagnar hjá dýraverndarráði. Reglugerð um meðferð tilraunadýra og eftirlit með tilraunum verður sett jafnskjótt og umsögn dýraverndarráðs berst og gengið hefur verið frá athugasemdum ráðsins við reglugerðardrögin. Af því að síðasti liður fyrirspurnarinnar hljóðar um efnisatriði reglugerðarinnar sem ekki hefur enn verið sett er rétt að gefa upp efnisatriði reglugerðardraganna. Í reglugerðardrögunum er m.a. kveðið á um að óheimilt verði að nota lifandi dýr við kennslu, tilraunir, rannsóknir, framleiðslu eða prófun efna eða lyfja og við sjúkdómsgreiningu nema að fengnu leyfi tilraunadýranefndarinnar ef því fylgir álag, hræðsla, þjáning eða varanlegt heilsutjón fyrir dýrið. Þá eru sett skilyrði um að aðbúnaður, fóðrun og aðhlynning dýra skuli vera í samræmi við alþjóðastaðla og að eingöngu skuli notuð dýr til tilrauna sem til þess eru sérstaklega valin í viðurkenndum uppeldisstöðvum. Samþykki og heimild tilraunadýranefndar verður krafist til þess að sjá um uppeldi og geymslu tilraunadýra og skal nefndin samþykkja allan aðbúnað áður en starfsemi getur hafist. Sett eru skilyrði um markmið tilrauna og skal þar miða við:

1. Að tilraunir auki vísindalega þekkingu á líffærastarfsemi og ferli eða hegðun dýra sem ætla má að verði mönnum og dýrum til hagsbóta,

2. að finna nýjar leiðir sem bætt geti eða tryggt heilsu manna og dýra,

3. að sannprófa áhrif þýðingarmikilla efna eða lyfja á tilraunadýr, afkvæmi þeirra eða nánasta umhverfi,

4. að auka þekkingu eða þjálfun starfsfólks, lækna og dýralækna.

Kveðið er á um að umsækjandi um leyfi til dýratilrauna skuli leggja fram rannsóknaráætlun þar sem fram komi upplýsingar um fjölda og tegundir tilraunadýra, starfsaðferðir og líkleg áhrif á dýrin, aðstæður og aðbúnað dýranna.

Þá er fjallað um uppeldi, eldi og geymslu tilraunadýra og sett skilyrði um að uppfylla skuli kröfur um reglur sem tilraunadýranefnd Evrópuráðsins og ICLA, sem mun vera skammstöfun fyrir alþjóðasamtök aðila í eldi tilraunadýra, hafa samþykkt.

Að lokum má geta þess að þeim sem fá leyfi til að framkvæma tilraunir á dýrum verður gert skylt að halda skýrslur um þær og senda skýrslurnar til tilraunadýranefndar fyrir 20. febrúar ár hvert.