Samræmd próf

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 14:57:07 (4354)

1997-03-12 14:57:07# 121. lþ. 88.7 fundur 380. mál: #A samræmd próf# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur

[14:57]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Spurningin er: ,,Telur ráðherra eðlilegt að við miðlun upplýsinga til nemenda og foreldra um niðurstöður samræmdra prófa sé eingöngu notuð svonefnd normalkúrfa?``

Einn megintilgangur birtingar niðurstaðna samræmdra prófa er að auðvelda nemendum, foreldrum, skólayfirvöldum og öllum almenningi að átta sig á stöðu einstakra skóla en jafnframt að gera umræðu um niðurstöður prófanna og skólamál almennt opnari og markvissari. Fram til þessa hafa verið gefin stig fyrir rétt leyst verkefni í samræmdum prófum. Einkunn nemenda er þá samtala stiga sem er gefin á einkunnastiganum 1--10 og endurspeglar einkunnin hversu mörg verkefni nemandinn hefur leyst rétt í prófunum. Einkunn nemandans veitir upplýsingar um persónulegt námsgengi hans en segir ekki til um frammistöðu hans samanborið við aðra nemendur. Einkunnir gefnar í stigum eru ekki samanburðarhæfar milli ára eða milli námsgreina.

Til þess að gefa skólayfirvöldum og almenningi samanburðarhæfar upplýsingar um stöðu einstakra skóla á samræmdum prófum var tekin ákvörðun um að normaldreifa einkunnum á samræmdum prófum í 4. og 7. bekk grunnskóla sl. haust og einnig í könnunarprófi í ensku í framhaldsskólum í október sl. Jafnframt voru niðurstöður samræmdra prófa í 10. bekk á árunum 1993--1996, sem nýlega voru birtar, umreiknaðar á normalkúrfu. Með normaldreifðum einkunnum er hægt að veita samanburðarhæfar upplýsingar um námsgengi nemenda milli námsgreina og ára. Sem dæmi má nefna að einkunnin 6 í íslensku þýðir það sama og einkunnin 6 í stærðfræði sama ár og milli ára. Normaldreifing einkunna er því nauðsynleg eigi að vera hægt að veita samanburðarhæfar upplýsingar um niðurstöður samræmdra prófa. Það er rétt að undirstrika það, og um það snýst spurning hv. þm., að eftir sem áður eiga einstakir nemendur og foreldrar þeirra að fá upplýsingar um samtölu stiga á samræmdu prófi í heild og eftir prófþáttum og einkunn á skalanum 1--10. Það er mælt fyrir um það í nýrri reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra prófa sem tók gildi 1. janúar sl. Þetta er fyrsta reglugerðin sem gefin er út um þetta efni og segir í 14. gr., með leyfi forseta: ,, Einkunnir á samræmdum prófum skulu gefnar í heilum og hálfum tölum á einkunnakvarðanum 1--10.`` Það á jafnt við um samræmd próf úr 10. bekk, 4. bekk, 7. bekk eða hvaða samræmt próf sem tekið er. Hins vegar mun það hafa gerst á sl. hausti áður en reglugerðin tók gildi þegar könnunarprófin fóru fram í 4. og 7. bekk grunnskóla að einungis var gefin normaleinkunn í íslensku en nemendur fengu upplýsingar um hlutfall rétt leystra svara í stærðfræði. Það held ég að hafi skapað þá hugmynd meðal foreldra og ótta, ef ég má nota það orð um þetta atvik, að framvegis yrðu þessar einkunnir aðeins gefnar sem normaldreifðar einkunnir en ekki á skalanum 1--10. En þetta var gert áður en reglugerðin tók gildi og samkvæmt reglugerðinni ber nú að gefa einkunnir úr samræmdum prófum í heilum og hálfum tölum á einkunnarkvarðanum 1--10.

Hins vegar verður nauðsynlegt að hafa normalkúrfuna einnig við lýði til þess að um samanburð sé að ræða en upplýsingarnar eiga að berast til nemenda og foreldra með gamla laginu, ef ég má orða það svo, sem allir eiga að geta skilið. Hins vegar er normalkúrfan torskilin fyrir marga og þarf oft tölfræðinga til að átta sig á því raunverulega hvað hún er að segja okkur.