Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 20:58:53 (4464)

1997-03-13 20:58:53# 121. lþ. 90.3 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., GHH (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[20:58]

Geir H. Haarde (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég verð nú að segja að þessar umræður sem ég hef hlýtt hér á síðustu mínúturnar vekja nokkra furðu. Ég hafði því miður ekki aðstöðu til að fylgjast með umræðum síðla dags en hv. þm. Ágúst Einarsson beinir til mín þeirri fyrirspurn hvort hér sé á ferðinni venjulegt stjórnarfrv., hvort þingmeirihluti sé tryggður, hvort það séu ekki gríðarlega mikil tíðindi og ill að hv. þm. Pétur Blöndal standi ekki að þessu máli. Ég verð nú að segja að mér finnst hann lýsa undarlegum hugarheimi (Gripið fram í: Pétur?) og satt að segja áttaði mig ekki á því hvers konar hyldýpi er þar á ferð ef hv. þm. telur að hér séu einhver stór og mikil tíðindi að gerast þó að stjórnarþingmenn lýsi andstöðu sinni persónulega við ákveðin mál sem hér koma upp. Það er nákvæmlega eins og hv. þm. Pétur Blöndal sagði að ástæðan fyrir því að hann tekur til máls en ekki aðrir þingmenn af okkar hálfu er sú að hann er með athugasemdir við málið en ekki aðrir. Þær athugasemdir komu að sjálfsögðu fram þegar við ræddum málið í þingflokki sjálfstæðismanna. Við vitum vel af því. Það eru engin sérstök tíðindi. Það er engin sérstök frétt. Við bókuðum það meira að segja í bréfi til ráðherra að einstakir þingmenn gerðu athugasemdir við frv. (Gripið fram í: Eins og hann gerir alltaf.) Mér finnst satt að segja að fyrirspurn sem þessi, að það sé hún sem er undarleg. Það er hún sem er óeðlileg. Það er hún sem ekki á rétt á sér í þessum umræðum. En ég get fullvissað hv. þm. um að það er þingmeirihluti á bak við þetta frv. en að sjálfsögðu munu menn hlýða á allar uppbyggilegar tillögur til breytinga í þessu máli eins og öllum öðrum.

Það er með þetta mál alveg eins og bankana sem ræddir voru fyrr í dag og sl. þriðjudag að það mátti fara ýmsar leiðir í þessu máli en það varð að sjálfsögðu á endanum að höggva á hnútinn. Hv. þm. Pétur Blöndal og Gunnlaugur Sigmundsson eru ekki ánægðir með niðurstöðuna. En það er til einskis og var til einskis að halda áfram að þæfa þetta mál. Það varð að fá niðurstöðu. Ég hygg að hv. þm. Ágúst Einarsson sé mér sammála um það. Það varð að fá niðurstöðu til þess að ljúka þessu máli, eyða óvissunni sem hefur verið um þessar stofnanir og klára þetta. Það erum við að gera hérna, þingmeirihlutinn, og hv. þm. sem hafa lýst andstöðu sinni úr stjórnarliðinu hafa að sjálfsögðu fullan rétt til þess. En svarið við spurningunni er að þetta er alls ekkert öðruvísi stjfrv. en önnur og það hefur fullan og ríflegan þingmeirihluta á Alþingi.