Lánasjóður landbúnaðarins

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 22:57:08 (4490)

1997-03-13 22:57:08# 121. lþ. 90.5 fundur 424. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[22:57]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta var mjög skrýtin ræða hjá hv. þm. Í fyrsta lagi vil ég segja að íslenskan er okkur dýr og hún á að vera okkur kær. Orð eru dýr og við eigum að gæta þess að útvatna ekki málið. Hv. þm. sagðist hafa lýst yfir afdráttarlausum stuðningi við frv. Hann benti hins vegar á að frá sjónarhóli vinnubragða væri það ótækt, hæstv. ráðherra hefði ekki tekið mið af fyrri vinnu við svipaðar tæknilegar útfærslur á síðasta ári og hann benti á að það væru ákvæði sem stæðust ekki innbyrðis. Getur hann þá komið og sagt að hann styðji það afdráttarlaust?

Hann benti líka á að frv. gengi ekki nógu langt þó það væri skref í rétta átt. Er hægt að kalla það afdráttarlausan stuðning? Að sjálfsögðu ekki, herra forseti. Það verður líka að koma skýrt fram að þó hann sé að segja hér að verið sé að hverfa frá gömlu millifærsluleiðinni þá útskýrir hann það ekkert í sinni fyrri ræðu. Hann verður að koma hér aftur og skýra það fyrir okkur því staðreyndin er sú að nákvæmlega sama hugmyndafræði liggur til grundvallar þessu frv. og Stofnlánadeildinni gömlu. Það er ekki hægt að sjá neinn meginmun þar á þó að ýmiss konar gjöld séu öðruvísi og minni. Þessu verður hv. þm. að gera sér grein fyrir.

Ég kem hér aðallega upp til að lýsa því yfir, af því að þingmaðurinn er það skýr, að hann getur ekki gert sjálfum sér það að koma hingað og segja að hann styðji eitthvað afdráttarlaust sem hann er búinn að tæta í sig með sinni eigin og ágætlega vel útfærðu röksemdafærslu. Þá er hann að lýsa vantrú og vantrausti á sjálfan sig en ég deili því ekki með honum.