Flugskóli Íslands hf.

Mánudaginn 17. mars 1997, kl. 16:59:49 (4545)

1997-03-17 16:59:49# 121. lþ. 91.6 fundur 152. mál: #A Flugskóli Íslands hf.# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur

[16:59]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég er nú ekki miklu nær. Þetta voru meira og minna sömu gömlu klisjurnar og tuggurnar, tiltölulega lítt rökstuddir frasar um að hlutafélagaformið eigi hér best við og sé vænlegast og skynsamlegast og það sé úrelt og hallærislegt að tala um að stofna gamaldags ríkisskóla. Hvað er hv. þm. að tala um? Hvað eru gamaldags ríkisskólar? Eru það svo til allir skólar? Eru þeir svona hallærislegir af því að það eru gamaldags ríkisskólar? Er hv. þm. að tala fyrir þeirri stefnubreytingu að allir skólar í landinu eigi hér eftir að vera hlutafélög og einkareknir eða hvað? Hvað er hér á ferðinni? Ég er ekki að leggja neitt annað til hér þó ég andmæli þessu hlutafélagaformi heldur en þetta verði bara jafnsett annarri starfsemi í menntakerfinu, að þetta verði eins og hver annar venjulegur skóli. Ef hv. þm. vill hafa um það einhver háðugleg orð og tala um gamaldags ríkisskóla, þá má hv. þm. gera það fyrir mér. Er þá Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Framhaldsskóli Vestfjarða, eru þetta allt saman gamaldags hallærislegir ríkisskólar eða sérskólar? Stýrimannaskólinn, Sjómannaskólinn og aðrir slíkir, eru það gamaldags ríkisskólar? Ég þarf aðeins meiri rökstuðning en þetta til þess að falla flatur fyrir svona frasanotkun. Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti. Þetta hreyfir mig ekki mikið.

Varðandi það að þarft sé og rétt að gera aðskilnaðinn frá Flugmálastjórn, þá get ég vel tekið undir það. Það var að mörgu leyti vandræðalaust þegar farið var með bóknámið í Flugmálastjórn eins gert var. Menn hefðu þá átt að hyggja að því þegar þeir stofnuðu þann skóla. Því var áður fyrir komið annars staðar eins og hv. þm. hlýtur að þekkja.

En það eru til aðferðir í því sem eru bæði miklu einfaldari og eðlilegri, sem er annaðhvort sú að hafa sjálfstæða stjórn fyrir skólanum eða aðskilja þá starfsemi innan Flugmálastjórnar sem lýtur að náminu og eftirliti með því. Það er líka hægt. Það er hægt að hafa þar hreinan aðskilnað eins og er t.d. á milli loftferðaeftirlitsins annars vegar og annarrar starfsemi Flugmálastjórnar hins vegar. Þetta er allt saman þekkt.

Tengsl við aðra aðila. Eru einhver vandamál því samfara að eiga góð tengsl við atvinnulífið eða greinar þó að námið fari fram í venjulegum skóla? Er hv. þm. að segja að eina leiðin til þess að hafa gott samstarf við atvinnugreinar um nám, um námskrá, um aðra slíka hluti, sé að búa til hlutafélag með atvinnugreinum eða einstökum fyrirtækjum því að hér er tæplega hægt að tala um atvinnugrein sem stendur undir nafni í þeim skilningi að hægt sé að tala um hana í fleirtölu. Þetta eru fyrst og fremst örfá fyrirtæki og aðallega eitt, svo að maður tali nú um hlutina eins og þeir eru, sem ræður það fólk sem kemur út úr skólanum ef það þá fær vinnu. Auðvitað er ekki nokkur vandi að setja þessum skóla skólastjórn eða einhvers konar fagráð með þátttöku nemenda og fagaðila á þessu sviði sem er miklu heilbrigðari lausn en sú að láta þetta gerast í gegnum hagsmunatengsl í formi hlutafélags sem ég tel vera ankannalegt. Þetta eiga að vera samskipti ótengdra aðila hvað hagsmuni snertir í beinum skilningi þess orðs og lúta faglegum samskiptalögmálum í þeim skilningi að menn leggi metnað sinn í að námið sé gott, fjölbreytt og almennt og búi menn vel að breyttu breytanda almennt, óháð hagsmunum einstakra fyrirtækja, undir starf á þessu sviði en ekki þannig að einhver tiltekinn rekstraraðili geti farið að hafa áhrif á það beint hvernig fólkið er þjálfað í grunnáminu og hvað það lærir. Mér finnst þetta vera fullkomlega óheilbrigt. Ef við hefðum þetta svona t.d. í sjávarútveginum og einhver stórfyrirtæki sem gerðust stórir eignaraðilar í Sjávarútvegsskólanum gætu haft áhrif á það að þeir menn sem kæmu þangað út úr námu væru sérhæfðir til að starfa við þeirra tegund af sjávarútvegi, þeir væru betur þjálfaðir sem togaramenn heldur en trillukarlar eða eitthvað því um líkt, kynnu á eina tegund véla frekar heldur en aðra. Út á hvaða braut eru menn að fara ef þeir ætla að fara með almennt fagnám af þessu tagi inn í þennan farveg með þeim rökstuðningi sérstaklega að hagsmunaaðilarnir geti haft bein áhrif á það hvernig eintökum er ungað út úr skólunum?

Í fjórða lagi í sambandi við það að þetta nám eigi að vera hér í landinu. Að sjálfsögðu á það að vera hér, herra forseti. Það hefur enginn talað um neitt annað, en ég er ekkert viss um að það sé tryggara í sessi hér í landinu með þessum æfingum heldur en t.d. með því að búa vel um það í einhverjum framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu. Ég tel reyndar að úr því að menn eru að hræra í námi sem tengist flugi á annað borð, þá hefðu menn átt að fara yfir það að reyna að ná fleiri greinum inn í landið. Hvað með flugvirkjanámið? Hvað með fleiri slíkar greinar? Af hverju var þá ekki reynt að búa til kjarnaskóla sem tók jafnvel fleiri greinar tengdar flugi upp? Flugrekstur er á Íslandi sennilega hlutfallslega stærri atvinnugrein í þessu en nokkru öðru landi í heiminum. (Gripið fram í: Hvað með Færeyjar?) Nei, nei, Færeyjar komast ekki með tærnar þar sem við höfum hælana. Flugrekstur Íslendinga er og hefur lengi verið allt frá dögum Loftleiða og síðan nú Flugleiða og Atlanta og fleiri slíkra félaga ótrúlega umsvifafmikill miðað við höfðatölu, eins og stundum er nú notað. (Gripið fram í: Við höfum haft svo góðan samgrh.) Það er í og með vegna þess, en það er líka vegna þess að Íslendingar hafa lengi verið mjög vel að sér um flugrekstur og kunnað vel á þá grein og orðið ótrúlega umsvifamiklir í alþjóðlegum flugrekstri jafnvel eins og kunnugt er. Um þessar mundir eru hundruð ungra Íslendinga við pílagrímaflug niðri í Sádi-Arabíu og þar er íslenskt fyrirtæki í harðri samkeppni á alþjóðlegum markaði, sem er mjög grimmur, og stendur sig með ólíkindum vel. Það er því tæpast annað hægt en taka ofan fyrir þeim sem þar standa að málum.

Ég segi þetta í fimmta lagi, herra forseti. Ef menn eiga að taka þessi rök gild og eru ekki að ræða þetta eins og eitthvert smámál sem engu skiptir, ef við ætlum að taka þessi hlutafélagarök gild getur það dregið dilk á eftir sér. Ef menn ætla að reyna að vera sjálfum sér samkvæmir í pólitík, hv. þm. Einar Kristinn, hæstv. samgrh. Halldór Blöndal, verða þessir menn þá ekki að taka upp þennan fána og ganga með hann út um þjóðfélagið? Við ætlum að breyta öllum skólunum í landinu í hlutafélög (Gripið fram í: Hvað segir menntmrh.?) af því að við erum sannfærðir um að hlutafélagaformið sé svo miklu betra. Það sé svo miklu heppilegra að reka skólana sem hlutafélög, helst þannig að hagsmunaaðilar eigi þá en ríkið borgi reikninginn og sé skyldugt til þess á grundvelli samninga sem gerðir hafa verið við hagsmunabandalagið, við hlutafélagið. Þetta er alveg furðuleg stefna, herra forseti. Ég verð að segja það eins og er.

Auðvitað er þetta ekkert annað en ríkisskóli. Þetta er allt saman misskilningur. Hvers konar pilsfaldakapítalismi er það að stofna hlutafélag og segja svo í lögum um það hlutafélag að ríkið skuli borga reikninginn, það er fína einkavæðingin. Það er það sem stendur í 5. gr. þannig að þetta er auðvitað argasti brandari, herra forseti, að hér sé á ferðinni einhver einkavæðing eða eitthvert hlutafélag í eiginlegum skilnilngi þess orðs. Það er kyrfilega gengið frá því í lögunum að ríkið skuli borga hvað sem tautar og raular.

Herra forseti. Hér hafa engin rök komið fram sem hafa að mínu mati haldið gagnvart því að menn séu að fara út á rétta braut. Þetta mál er hinn mesti misskilningur og rugl. Það vantar allan haldbæran rökstuðning fyrir því að gera þetta svona og ég spái því að höfundarnir eigi eftir að naga sig illilega í handarbökin ef þeir fá þessa vitleysu samþykkta hér og verður síðan haldið við efnið og spurt: Hvað svo? Er það þá orðin stefna t.d. þessarar ríkisstjórnar að breyta skólunum á færibandi í hlutafélög í framhaldinu með sömu rökum og hér hafa verið flutt eða hvað? Hvar ætla þeir þá að láta staðar numið? Hvaða skóli verður tekinn næstur og gerður að hlutafélagi? Hvaða sérskóli verður næstur? Verður það Stýrimannaskólinn? Verður það hann? Hvað hefur hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson í huga?