Atvinnuréttindi skipstjórnarmanna

Mánudaginn 17. mars 1997, kl. 17:17:01 (4550)

1997-03-17 17:17:01# 121. lþ. 91.7 fundur 362. mál: #A atvinnuréttindi skipstjórnarmanna# (nám skv. eldri lögum) frv., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur

[17:17]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Með þessu frv. er lagt til að þeim nemendum sem hófu nám fyrir gildistöku laga nr. 62/1995, um breytingu á lögum um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum, sé heimilt að ljúka námi samkvæmt eldri lögum, enda útskrifist þeir eigi síðar en fimm árum eftir að námið hófst.

Í 16. gr. laga nr. 112/1984 er kveðið á um að þeir sem hafi öðlast rétt til atvinnu við siglingar á íslenskum skipum áður en lögin tóku gildi skuli halda þeim réttindum sínum óskertum.

Þetta gildir hins vegar ekki um þá sem höfðu hafið nám í gildistíð eldri laga. Staðan gagnvart þeim er sú að nemendur sem voru í Stýrimannaskólanum fyrir gildistöku laganna nr. 62/1995 útskrifuðust samkvæmt nýju lögunum. Með þeim lögum var réttindum skipstjórnarmanna breytt til samræmis við alþjóðlegar reglur og veitir nám í Stýrimannaskólanum önnur réttindi samkvæmt nýju lögunum en hinum eldri lögum. Eðlilegt er að ný lög hafi ekki íþyngjandi áhrif á þá sem hófu nám í trausti þess að fá réttindi á grundvelli eldri laga. Tilgangur frv. er sá að einn að tryggja rétt þessara nemenda.

Hæstv. forseti. Ég legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og samgn.