Staðan í samningamálum

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 13:43:18 (4630)

1997-03-19 13:43:18# 121. lþ. 93.91 fundur 259#B staðan í samningamálum# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[13:43]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er með ólíkindum að jafnsjálfsögð krafa verkalýðshreyfingarinnar og að hækka lágmarkslaunin strax í 70 þús. kr. sé að hleypa öllu í hnút á almenna vinnumarkaðnum. Þetta eru sanngjarnar og hóflegar kröfur sem ekki munu valda neinni kollsteypu í íslensku efnahagslífi og það verður ekki liðinn þessi þvergirðingsháttur í Vinnuveitendasambandinu, hálaunahópanna í Vinnuveitendasambandinu, sem eru að koma í veg fyrir jafnsjálfsagða kröfu og eru að steypa þjóðinni, vegna þess að það er Vinnuveitendasambandið sem er að steypa þjóðinni út í langvinn verkföll.

Að vísu ollu svör formanns félmn. mér nokkrum vonbrigðum. Það er að vísu rétt að meiri hluti nefndarinnar mun ráða því hvort málið fái eðlilega afgreiðslu í nefndinni. En ég hefði viljað fá yfirlýsingu hv. formanns nefndarinnar um að hún teldi það forgangsverkefni að afgreiða þetta mál úr nefndinni. Þingið verður að fá færi til að fjalla um þetta mál. Þetta er sjálfsögð krafa og það hlýtur að vera eðlilegt að Alþingi höggvi á þennan hnút sem upp er kominn með því að lögfesta nú þegar að lágmarkslaunin hækki í 70 þús. kr. Ég bíð spennt eftir því að heyra hvað hæstv. vinnumálaráðherra hefur um þessa stöðu að segja sem upp er komin á vinnumarkaðnum og er öll vegna háttalags hálaunahópanna í Vinnuveitendasambandinu, ekki verkalýðshreyfingarinnar. Hún hefur verið hógvær í sínum kröfum.