Hættumat vegna virkjanaframkvæmda

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 14:38:12 (4653)

1997-03-19 14:38:12# 121. lþ. 93.3 fundur 419. mál: #A hættumat vegna virkjanaframkvæmda# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., HG
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[14:38]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég tel mjög eðlilegt að eftir þessu sé gengið á Alþingi og þótt fyrr hefði verið. Sannleikurinn er sá að sú vá sem getur stafað af náttúruhamförum og tengist okkar virkjunum er vissulega uggvænleg og gæti orðið stórfelld ef illa tækist til. Mesta hættan að mér virðist tengist hugsanlegum eldsumbrotum í vestanverðum Vatnajökli sem skilað gæti hamfarahlaupi í Tungnaá. Sama gildir vissulega með eldgos sem mundu fara yfir farvegi ánna, en mesta hættan tengist slíku hamfarahlaupi. Og þá held ég að það sé ljóst að allar virkjanir sem tengjast Þjórsár/Tungnaárkerfinu núverandi mundu skolast burt, nema Búrfellsvirkjun, og stórkostleg vá yrði uppi í byggð í Flóa eða meðfram Þjórsá neðan til alveg sérstaklega og e.t.v. við ströndina. Þetta verða menn að horfast í augu við.

Ég minni svo aðeins á að þegar ákvörðun var tekin um Blönduvirkjun, þá höfðu menn auðvitað í huga hættu af náttúruhamförum alveg sérstaklega og ég held að menn skilji nú betur en áður þýðingu þess að vera með þó eina sæmilega öfluga virkjun utan eldvirkra svæða.