Útilokun fyrirtækja frá markaði

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 14:49:39 (4658)

1997-03-19 14:49:39# 121. lþ. 93.4 fundur 420. mál: #A útilokun fyrirtækja frá markaði# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi SvG
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[14:49]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir þetta svar. Það er nægilegt að mínu mati vegna þess að hann lýsir því yfir og ber fyrir sig Samkeppnisstofnun að stofnunin hafi fullar heimildir til íhlutunar ef um er að ræða útilokunarsamninga af því tagi sem hér er um að ræða. Ég tel að það sé mjög mikilvæg yfirlýsing vegna þess að auðvitað er það þannig að miðað við þá viðskiptahætti sem tíðkast í þjóðfélaginu sem byggjast á því að að tryggja eigi samkeppni á eðlilegum grunni, þar sem menn búi við eins sambærilegar aðstæður og mögulegt er, þá verður auðvitað að koma í veg fyrir tilraun til einokunarviðskipta af því tagi sem ég var hér að lýsa. Annað er útilokað.

Í þessu tilviki er það þannig að ákveðið fyrirtæki hér í bæ gerir samning um að viðkomandi verslanir og verslunarkeðjur megi aðeins taka til sölu eina tegund af póstkortum frá einu og sama fyrirtækinu. Önnur póstkort séu bönnuð. Þær verslanir og verslunarkeðjur sem hér um ræðir eru: Hagkaup, allar verslanir. Kaupfélag Árnesinga, Selfoss, Hveragerði, Stokkseyri, Eyrarbakki, Vestmannaeyjar, Vík í Mýrdal, Kirkjubæjarklaustur, Þorlákshöfn. Kaupfélag Skagfirðinga, Sauðárkrókur, Hofsós, Ketilás, Varmahlíð. Kaupfélag Húnvetninga, Blönduós og Skagaströnd. Ég vænti þess að hv. þingmenn geti verið mér sammála um að það er brýnt að Samkeppnisstofnun haldi vöku sinni í þessu máli og komi í veg fyrir einokunarviðbrögð af því tagi sem hér er um að ræða og hindri það að menn reyni slíkt framar.