Gerð björgunarsamninga

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 15:33:37 (4675)

1997-03-19 15:33:37# 121. lþ. 93.8 fundur 460. mál: #A gerð björgunarsamninga# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[15:33]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það liggur alveg skýrt fyrir að Landhelgisgæslan var tilbúin að bjarga þessu skipi án tillits til þess hvað það mundi kosta. Ítrekuð tilmæli um það komu frá Landhelgisgæslunni að hún væri tilbúin til þess og eins og hv. þm. vita, þá lagði varðskipið sig í verulega hættu við það að koma skipinu til bjargar þegar loksins var eftir því kallað. Það er því aldeilis fráleitt að bera þá ásökun hér fram að Landhelgisgæslan hafi ekki verið tilbúin til þess að bjarga skipinu án þess að vita fyrir fram hver björgunarlaunin yrðu.

Varðandi önnur ummæli hv. þm. um að það hafi legið fyrir að ef gerður hefði verið samningur við skipafélagið fyrir fram, þá hefði skipstjóri skipsins farið fram á björgun. Ég hef ekki þessar upplýsingar undir höndum en þetta bendir til þess að hv. þm. viti til þess að útgerðin hafi haft þau áhrif á skipstjórann að því aðeins mundi hann biðja um björgun að fyrir lægi samningur. Ég hef ekki neinar upplýsingar þar að lútandi og vísa enn á ný til þess að það er skipstjórinn á viðkomandi skipi sem ber lögum samkvæmt ábyrgð á skipinu og tekur ákvörðun um hvenær óskað er eftir björgun. Landhelgisgæslan var tilbúin að gera það án þess að setja neinar fyrir fram kröfur í því efni.