Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 12:36:52 (4719)

1997-03-20 12:36:52# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[12:36]

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hér er af nógu að taka þannig að vel er hægt að víkja hér að öðrum efnum en varða beinlínis þátt umhvrh. í málinu. Hins vegar undrast ég það nokkuð að hæstv. umhvrh. skuli ekki vera viðstaddur þessa umræðu, svo mjög sem umhverfismálin tengjast henni og hafa verið drjúgur þáttur í athugun mála í aðdraganda framlagningar þessa frv. og með sjálfstæðum hætti til skoðunar af umhvn. þingsins.

Hér hefur af hálfu talsmanns Alþb., fulltrúa í iðnn. og formanns þingflokksins, Svavars Gestssonar, verið gerð grein fyrir almennum viðhorfum að því er snertir það frv. sem hér er rætt og afstöðu Alþb. til þess á þessu stigi máls. Ég vísa til þess sem þar hefur komið fram þó að af minni hálfu gæti þar verið ýmsu við að bæta. En tíminn leyfir ekki að fara yfir sviðið allt. Ég minni þó á það í upphafi að sú stefna sem ríkisstjórnin fylgir í stóriðjumálum, ef stefnu skyldi kalla, er mikið áhyggjuefni, hlýtur að vera það, ekki aðeins fyrir okkur í minni hluta á Alþingi heldur mikinn hluta þjóðarinnar þar sem haldið er fram í rauninni án nokkurra viðhlítandi siglingarljósa í þessum málum. Stóriðjuveri eftir stóriðjuveri valinn staður hér á Faxaflóasvæðinu, aðalþéttbýlissvæði landsins, þar sem mest álag er fyrir á umhverfi, m.a. loftgæði, og ekkert hugsað fyrir þeim óhjákvæmilegu og alvarlegu áhrifum sem slíkt mun hafa á byggðaþróun í landinu. Ég minni líka á að hér eru erlendir fjárfestar látnir ráða ferðinni, eins og hæstv. iðnrh. staðfesti í morgun þó hann hafi vafalaust með sínum aðstoðarmönnum vísað á þá staðsetningu í Hvalfirði sem varða þessa álbræðslu.

Þá er það ekki síður áhyggjumál, virðulegur forseti, að verið er að fórna, og ég segi fórna, verðmætustu og hagkvæmustu virkjanakostum landsmanna inn í það stóriðjupúkk sem nú er verið að reyna að ganga frá af hálfu hæstv. iðnrh., þ.e. bæði álbræðslu á Grundartanga og einnig vegna stækkunar járnblendiverksmiðju á Grundartanga. Það blasir við að þar er verið að raða saman tiltölulega litlum virkjunarkostum eða frekari uppbyggingu virkjana sem fyrir eru og eru þess vegna mjög hagkvæmar inn í orkukerfi landsmanna og hentuðu vel til þess að bregðast við aukinni þörf vegna almenns markaðar í landinu.

Þar fyrir utan eru síðan virkjanir sem af umhverfisástæðum eru afar gagnrýni verðar og þar er Hágöngumiðlunarlónið fremst í flokki. Voru stjórnvöld sannarlega rækilega aðvöruð við að stíga það alvarlega skref sem þar liggur fyrir.

Varðandi það frv. sem við ræðum þá er efni þess svo sem ekki mjög mikið eða ástæða til að gera það að sérstöku umtalsefni hér. Ég bendi þó á að þær heimildir sem verið er að gefa samkvæmt 1. gr. frv. eru ákaflega teygjanlegar og mikill lopi. Það er vísað í skuldbindingar af hálfu ríkisins sem kunna að þykja nauðsynlegar og viðeigandi fyrir félagið og starfsemi þess, þar með talin framkvæmd á ákvæðum laga þessara. Hvers konar skilgreiningar eru þetta og hvað á orðalag af þessu tagi að rúma? Það sama gildir raunar um verkefnið og það vekur athygli að í þeirri grein er kveðið á um að: ,,Álverið skal í upphafi hannað til framleiðslu á um það bil 60.000 tonnum af áli á ári ...`` Þó er starfsleyfi, sem hugmynd er að gefa út, ætlað fyrir 180.000 tonn. Á þá ekkert að hanna þennan fyrsta áfanga með tilliti til þeirrar heildarstærðar sem um er að ræða? Hvers konar vinnubrögð eru hér á ferðinni?

Varðandi ábyrgð ríkisstjórnarinnar þá þurfa sveitarfélögin í Hvalfirði norðanverðum ekki að hafa miklar áhyggjur af fjárhagsmálum þessa máls annað en að taka við gullinu sem út úr kvörninni rennur, sem er náttúrlega eitt af þeim gagnrýniefnum sem eðlilegt er að setja fram á þetta, að einstök sveitarfélög skuli njóta einhliða hagnaðar af svona stóriðjurekstri. Í þessu tilfelli eru það fámenn sveitarfélög sem það gera og svo á með þessum heimildum skv. 3. gr. að firra þau allri ábyrgð varðandi það sem gera þarf vegna þessarar stóriðjuuppbyggingar. Það er satt að segja með fádæmum að standa þannig að verki, virðulegur forseti.

En ég ætla sérstaklega að víkja að umhverfisþættinum. En hvar er nú hæstv. umhvrh.? Hefur hæstv. ráðherra ekki reiknað með því að vera við þessa umræðu og er þó langt síðan ég vakti athygli á því að ég óskaði eftir viðveru hans hér? Hér hefur verið rætt og kynnt alveg sérstaklega af formanni umhvn., álit meiri hluta nefndarinnar varðandi umhverfisþætti þessa máls eins og þeir blasa við. Ég hlýt að fara nokkrum orðum um álit sem liggur fyrir frá mér og hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur sem fylgir skýrslu umhvn. sem minnihlutaálit okkar og ætlaði að stikla á því hér í takmörkuðum tíma í þessari umræðu.