Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 15:52:52 (4746)

1997-03-20 15:52:52# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[15:52]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var eins og oft áður ýmislegt athyglisvert sem kom fram hjá hv. þm. Pétri Blöndal. Ég ætla að nefna þrennt. Það er tvennt í spurnarformi til hv. þm. Það er nú fyrst með þetta þjóðráð sem hefur komið fram hér í till. til þál., það er svona ábending af minni hálfu, varðandi nýtingu á gróðurhúsalofttegundum. Það er auðvitað ágætt ef menn finna upp eilífðarvélina og geta bundið í staðinn fyrir að losa. En ég vil aðeins benda á að þó menn færu í stórfellda framleiðslu á metanóli sem eldsneyti þá er hætt við að það þurfi að brenna því og ef það er gert hér innan lands þá lendir það á okkar reikningi til baka. Þetta er nú svona ábending en við ræðum þessa tillögu þegar hún liggur fyrir.

Það er tvennt sem ég vildi spyrja hv. þm. um. Í fyrsta lagi þetta mat hans í sambandi við minni áhættu þegar tvö fyrirtæki koma saman að því er varðar raforkukaup. Nú eru menn að púsla hér saman orkuframleiðslu fyrir þessar fyrirhuguðu verksmiðjur á Grundartanga úr tiltölulega litlum vatnsaflskostum með því að bæta við allt nema þá Sultartangavirkjun. Ég fæ út af fyrir sig ekki séð að það minnki áhættuna teljandi þó þarna séu tvö fyrirtæki hlið við hlið. Ég vildi fá aðeins nánari rökstuðning fyrir þeirri skoðun því að raforkan verður jú að vera til afhendingar og menn ætla að fara út í þessari virkjanir. Hitt er síðan það sem snertir losun á koltvíoxíði og það sem þingmaðurinn nefndi um að það væri í alþjóðlegu samhengi kjörið að færa t.d. áliðnað til Íslands vegna þess að við byggðum á endurnýjanlegri orku, frá vatnsafli þá aðallega. Þessi framsetning hefur ýmsar hliðar. Ég vil aðeins vekja athygli á því að hugmyndin (Forseti hringir.) um skipti á kvótum eða leyfum varðandi gróðurhúsalofttegundir hefur ekki fengið mikinn stuðning að því ég veit, t.d. engan frá Evrópusambandinu, að slíkt verði virt okkur til frádráttar í sambandi við losun Íslands á þessum lofttegundum.