Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 17:44:19 (4773)

1997-03-20 17:44:19# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[17:44]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka ráðherra svörin sem voru skýr í öllum aðalatriðum. Hæstv. ráðherra svaraði þó ekki hvaða áhrif þessi samningur hefði varðandi kaupmáttinn og kaupmáttarþróunina og ekki veit ég hvort ráðherrann hefur það handbært. Ég álít mikilvægt að hér liggi fyrir að ekki verði um niðurskurð á fjárfestingum að ræða þrátt fyrir að ráðist verði í þá framkvæmd sem við höfum verið að ræða hér. En vitaskuld er það áhyggjuefni þegar fjárfestingarnar fara allar eða að miklu leyti hingað á suðvesturhornið.

Varðandi orkuverðið og hvort þetta gefi svigrúm til lækkunar á verði til almenningsveitna, þá gaf ráðherrann ekki afdráttarlaus svör við því en taldi þetta styrkja það markmið sem Landsvirkjun hefði sett sér um lækkun á orkuverði sem er 2--3% eftir árið 2001 eða 2002. En ráðherrann nefndi að þetta mundi væntanlega skapa svigrúm. Og þá vil ég ítreka og spyrja um það sem við ræddum mjög mikið þegar við vorum að ræða frv. um Landsvirkjun. Skapi þetta svigrúm, ef þetta mun auka arðsemina um það sem ráðherrann nefndi og auka eigið fé Landsvirkjunar, mun þá þetta svigrúm örugglega --- og ég held að það sé mikilvægt ef ráðherra staðfestir það --- leiða til lækkunar á orkuverði til almenningsveitna, þ.e. að því verði frekar varið til þess að lækka gjaldskrá til almenningsveitna heldur en að það fari í aukna arðgjöf. Ég held að það sé mikilvægt að það komi fram til þess að eyða öllum efa í því máli.