Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 18:33:19 (4785)

1997-03-20 18:33:19# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[18:33]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að þrefa frekar við hv. þm. héðan úr ræðustól um lögin og reglugerðina. Það er mál sem ég tel mig hafa farið æði rækilega í gegnum með lögfræðilegum ráðgjöfum þegar við breyttum reglugerð fyrr á þessum vetri og málsmeðferðin eigi að vera nokkuð skýr eins og þar er kveðið á um og ég hef þegar greint frá og lesið með tilvitnun í reglugerðina hér úr ræðustól áðan og eins vitnað til þeirra bréfa sem hafa verið send einstaklingum sem hafa kært eða gert athugaemdir þannig að þeim er þá líka ljós sú hugsun eða skoðun sem Hollustuverndin og ráðuneytið hefur á málsmeðferðinni og það sé samkvæmt lögum og þeirri reglugerð sem ég hef sett.

Hins vegar eigum við sjálfsagt enn eftir að taka miklar umræður og vafalaust ítarlegar um rammasamninginn um loftslagsbreytingarnar og það ferli sem eftir er. Það á, ef ég man rétt, eftir að halda fimm eða sex samningafundi embættismanna á árinu fram að lokafundinum sem er í Japan í desember á þessu ári og við munum halda áfram að vinna að okkur sjónarmiðum í því sambandi. Það sem ég nefndi hér áðan þegar ég var að vitna til þess sem Evrópusambandið er að setja upp, þá er þó alveg ljóst að þar gerir Evrópusambandið, eins og frú Ritt Bjerregaard gerði grein fyrir hér á dögunum í heimsókn sinni hingað til lands, ráð fyrir því að hægt sé að líta á ríkjahóp. Það er verið að líta þar á ríkjahóp sem er auðvitað Evrópusambandsríkin og við höfum talið í okkar málflutningi að það bæri og ætti að líta á það sem sameiginleg verkefni fleiri ríkja, að uppfylla þau skilyrði eða þær kvaðir sem kunna að verða settar varðandi rammasamninginn.