Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 18:36:52 (4787)

1997-03-20 18:36:52# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[18:36]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil bara undirstrika það sem kom fram í ræðu minni áðan og hv. 8. þm. Reykv. ítrekar hér, að aðkoma umhvrn. og umhvrh. að málinu er sú að gefa álit á eða réttara sagt kveða upp úrskurð um kærur um mat á umhverfisáhrifum þessarar verksmiðju á þessum ákveðna stað. Í slíku ferli eru valkostir ekki settir fram þannig að umhvrh. eigi að segja í sínum úrskurði: Er þessi verksmiðja betur komin hér en þar? Er hún betur komin einhvers staðar annars staðar? Ef það hefði verið ákvörðun um staðsetningu á Keilisnesi eða Langanesi, svo við höldum okkur við þau tvö nes sem hér voru áður nefnd í umræðunni, þá hefði matið á umhverfisáhrifunum farið fram á viðkomandi stað á þessari atvinnustarfsemi. Hefði það verið kært, þá hefði það komið í hlut umhvrh. að úrskurða um þá kæru.