Fæðingarorlof

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 10:42:24 (4797)

1997-03-21 10:42:24# 121. lþ. 96.7 fundur 453. mál: #A fæðingarorlof# (veikindi móður eða barns o.fl.) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[10:42]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hvert einasta atriði sem hæstv. ráðherra hefur talið upp í ræðu sinni horfir til bóta. Ég segi það sem formaður heilbr.- og trn. að ég mun beita mér fyrir því að þetta frv. hljóti skjóta afgreiðslu og verði afgreitt í tíma áður en við ljúkum þingi.

Það sem ég vildi spyrja hæstv. ráðherra um er það sem ekki er í frv. Við vitum, eins og hæstv. ráðherra sagði í framsögu sinni, að hún hafði uppi nefnd sem ekki náði farsælli niðurstöðu og hún sleit nefndinni og ég geri engar athugasemdir við það. En í dag er í gildi framkvæmdaráætlun ríkisstjórnar í jafnréttismálum sem er senn að renna sitt skeið á enda. Þar segir, m.a.:

,,Á gildistíma þessarar áætlunar verði lögfestar reglur sem tryggi jafnan rétt foreldra til töku fæðingarorlofs.``

Það er líka alveg ljóst að ráðherrar í núv. ríkisstjórn, þar á meðal þessi hæstv. ráðherra hafa talað um að nauðsynlegt sé að jafna rétt feðra til að taka fæðingarorlof. Ég geri mér grein fyrir því, herra forseti, að það frv. sem hér er undir tekur einvörðungu á ýmsum sérstökum aðstæðum en ég vil nota þetta tækifæri til að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað líður áætlunum ríkisstjórnarinnar varðandi það að hrinda í framkvæmd þessari áætlun um það að gera feðrum mögulegt að taka líka fæðingarorlof til jafns við mæður?