Fæðingarorlof

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 12:14:30 (4819)

1997-03-21 12:14:30# 121. lþ. 96.7 fundur 453. mál: #A fæðingarorlof# (veikindi móður eða barns o.fl.) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[12:14]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Þegar ég las þetta frv. til laga sem hæstv. félmrh. leggur fram, þá minntist ég þess að það er ekki langt síðan ég var að lesa (Gripið fram í: Heilbrrh.) --- hæstv. heilbrrh., það er talsverður munur, anatómískur, á þessum tveimur hæstv. ráðherrum. --- Ég ætla að segja það, herra forseti, að þegar ég las þetta frv. til laga um breytingar á lögum sem gilda um fæðingarorlof, þá minntist ég þess að það er ekki langt síðan ég las bók sem biskup, Gísli Oddsson, skrifaði árið 1638 og hét ,,De mirabilibus Islandiæ``. Þar greinir hann frá því að enn sé á dögum kona, virðuleg prestsmaddama í Flóanum, sem hafi fætt tvenna þríbura og þrenna tvíbura og eigi samtals 23 börn á lífi. Mér kemur til hugar, herra forseti, að ef þessi kona væri enn á dögum, þá yrði hún giska glöð yfir því frv. sem hér liggur fyrir.

Ég verð að segja það, herra forseti, að þrátt fyrir þær ýmsu ábendingar sem hér hafa komið fram um það sem betur mætti vera í þessu frv., þá er það að öllu leyti til bóta og ég tel að bæði stjórnarþingmenn og stjórnarandstaða hljóti að leggjast á eitt um að fá þetta frv. fram sem fyrst. Ég segi það auðvitað að stjórnarandstaðan mun koma með ákveðin sérsjónarmið varðandi tiltekin atriði sem í frv. eru en frv. er það mikilvæg réttarbót, þrátt fyrir að það varði einungis tiltölulega smáa hópa, að ekki er verjandi annað en að koma frv. fram.

Ég verð að segja það líka, herra forseti, að ég fagna því sérstaklega að hérna er verið að taka á málefnum fjölbura. Ég er þeirrar skoðunar reyndar að það þurfi að gera það enn ákveðnar en hérna er gert. Hér er það svo að fæðingarorlofið er lengt um þrjá mánuði fyrir sérhvert barn umfram eitt eins og lögin kveða á um núna. Ég er þeirrar skoðunar að það sé það mikil breyting á högum þeirra sem eiga t.d. þrjú börn fremur heldur en tvö að nauðsynlegt sé að huga sérstaklega að foreldrum sem eignast þrjú börn eða fleiri. Við höfum séð það, herra forseti, að sú breytta tækni sem við búum núna yfir innan Landspítalans gerir það að verkum, á síðustu árum a.m.k., að þríburafæðingum hefur fjölgað.

Nú hefur tæknin breyst aftur þannig að ég tel að líkur séu á að þeim muni fækka á næstunni. Hérna er því ekki um að ræða verulega miklar breytingar í fjárhagslegu tilliti. Því vil ég beina því til hæstv. heilbrrh. að hún velti því fyrir sér hvort ekki væri í lagi að hennar ágætu vinnumenn í heilbrn.- og trn. könnuðu hvort mögulegt væri að gera hlut þríburaforeldra og þeirra sem eiga fleiri börn eitthvað sértakan að þessu leyti. Í dag er það þannig að líf þeirra sem lenda í þeirri hamingju að eignast þríbura fer allt úr skorðum. Ég var á fundi með foreldrum í Þríburafélaginu. Þetta var ungt fólk og örþreytt en afskaplega hamingjusamt. Það færði mér heim sanninn um það, eftir að hafa rakið sínar sögur, að munurinn á því að eignast tvö börn og þrjú börn er svo gríðarlegur að ég held að það þurfi að sinna því með einhverjum sérstökum hætti. Það var eins og ein konan sagði sem hafði eignast tvö börn og eignaðist síðan þríbura og fór með þá í sund. Þar var gömul kona sem sagði við hana: ,,Er leikskólinn kominn í heimsókn?`` Það kannski lýsir e.t.v. best þeim gríðarlegu breytingum sem verða á högum foreldra af þessu tagi og ég mundi mælast til þess við stjórnarmeirihlutann að hann kannaði hvort það væri hægt með einhverjum hætti að koma til móts við þetta fólk þegar nefndin fjallar um málið. Ég vísa sérstaklega til þess að við erum hér að véla um breytingar sem munu kosta 40 millj., en það liggur fyrir að sú nýja tækni sem tengist uppsetningu fósturvísa í verðandi mæður er orðin það háþróuð að það er hægt, og er stefnt að því beinlínis samkvæmt þeim reglum sem nú eru í gildi hjá glasafrjóvgunardeildinni, að reyna að koma í veg fyrir að það verði þrjú börn vegna þess að álagið á fjölskylduna og viðkomandi móður er svo mikið. Samt sem áður verður það alltaf þannig að það munu fæðast stöku þríburar og við þurfum að huga vel að því.

Einstök sveitarfélög hafa staðið sig mjög myndarlega í þessu. Þau hafa lagt til aðstoðarfólk í heilt ár eftir þríburafæðingu en þar er að því er mér er kunnugt um einungis eitt sveitarfélag að ræða. Það eru sem sagt afar mismunandi hagir manna eftir því hvar þeir búa þegar þeir lenda í þeirri hamingju að eignast þríbura.

Hérna er líka, herra forseti, verið að koma í gegn nýmæli sem er þarft, þ.e. að fæðingarorlof vegna barns yngra en fimm ára sem tekið er í varanlegt fóstur er aukið um einn mánuð, úr fimm mánuðum í sex. Þarna er um að ræða breytingu sem við hefðum kannski átt að gera þegar fór hér í gegn frv. til laga um breytingu á réttarstöðu kjörbarna og ættleiddra barna sem ég og hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir fluttum. En ég minnist þess þá, herra forseti, að þegar við samþykktum það frv. þurfti að bródera ýmis önnur lög til þess að jafna réttarstöðu ættleiddra kjörbarna gagnvart þeim börnum sem fæddust og komu í heiminn með þeim sama hætti og Nói notaði til þess að geta Sem, Kam og Jafet. Það þurfti t.d., herra forseti, að breyta 14. gr. laga um almannatryggingar sem kveður á um rétt til barnalífeyris. Þá var það þannig að kjörbarn eða ættleitt barn þurfti að vera á framfæri kjörforeldra í a.m.k. tvö ár fyrir fráfall foreldrisins til þess að réttur til örorkubóta og barnalífeyris skapaðist. Það var hins vegar að sjálfsögðu engin slík krafa gerð varðandi börn kynforeldra.

Þegar ég les 14. gr. almannatryggingalaganna, þá sýnist mér að ekki sé algjörlega ljóst að fósturbörn hafi sama rétt. Og ég hygg, herra forseti, og þætti vænt um að hæstv. heilbrrh. léti í ljós skoðun sína á því hér á eftir, að þetta sé eitt af þeim efnum sem heilbr.- og trn. þurfi að taka til skoðunar.

Ég fagna því líka alveg sérstaklega að hér hefur hæstv. heilbrrh. lagt fram frv. sem bætir mjög stöðu þeirra foreldra sem eignast fyrirbura. Ég hef enga reynslu af fyrirburum. Ég hef einungis lesið mér til um þetta og heyrt það sem menn hafa sagt hér í þessum sölum og ég held að hér sé um afskaplega mikilvægt atriði að ræða. Og sérstaklega ber að lofa hæstv. ráðherra fyrir það að í frv. er ákvæði til bráðabirgða sem gerir þetta afturvirkt. Það skiptir miklu máli og er auðvitað hluti af því sem gerir það að verkum að það ríður á að nefndin komi málinu frá sér í tæka tíð.

Það kann vel að vera eins og hefur komið fram hjá ýmsum mönnum að þessi réttur, þótt hann sé aukinn, sé ekki nægur, það þurfi að lengja þetta. Það getur vel verið. En hérna er alla vega stigið stórt skref fram á við og við munum í ljósi reynslunnar kanna það í framtíðinni hvort rétt sé að breyta þessu með einhverjum hætti. Það sem ég er að segja, herra forseti, er það að við sem erum í stjórnarandstöðu megum ekki falla í þá gryfju, vegna þess að við erum í stjórnarandstöðu, að leggjast í eitthvert tuð og nöldur um mál vegna þess að það er ekki nógu gott, þegar það er alveg klárt að hvert einasta atriði þessa frv. er mjög mikilvægt heillaspor og varðar miklu fyrir þá foreldra sem fylla þessa hópa þótt fámennir séu og það verða menn bara að skilja. Ég er þeirrar skoðunar að það sé æskilegt, herra forseti, að lengja fæðingarorlofið almennt eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sagði hérna áðan. Ég held að það séu afar margir þeirrar skoðunar, nema ef vera skyldu einhverjir miðaldra karlar sem eru löngu komnir úr barneign, ég veit það ekki. En það á ekki að gera það að verkum að við hikum við það að koma þessari mikilvægu réttarbót í gegn, herra forseti. Þess vegna segi ég það að ég styð þetta mál heils hugar og mun auðvitað beita mér sem tímabundinn liðsforingi í heilbr.- og trn. til þess að það verklagna fólk sem þar situr fari skjótt höndum um þetta og komi málinu frá sér.

Ég verð hins vegar, herra forseti, að nota þetta tækifæri aðeins til þess að brýna fyrir Framsfl., og sérstaklega þessum ágætu starfssystrum okkar sem hérna eru staddar í salnum, nauðsyn þess að standa sig betur og beita sér betur í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna. Það var Framsfl. sem háði kosningabaráttu þar sem hann undirstrikaði nauðsyn þess að það yrði gert eitthvað annað heldur en bara að setja upp nefndir. Við sjáum unga og vaska þingkonu eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttur sem er búið að gera að formanni nefndar og það verður enginn var við hana síðan. Hennar framlag á sviði jafnréttisbaráttu fer fram á einhverjum lokuðum fundum í einhverjum nefndum sem enginn maður veit neitt um. Auðvitað ber að þakka það, a.m.k. gerir stjórnarandstaðan það, að það er búið að lyfta þessum tveimur ágætu konum til mikilla valda í Framsfl. En betur má ef duga skal.

Kvennalistinn færði inn í umræðu um jafnréttismál á Íslandi hugtak sem karlar allra stjórnmálaflokka hlógu að, það var reynsluheimurinn. Ég var auðvitað partur af þessum körlum sem gaf ekki mikið fyrir þetta hugtak. En minn heimur breyttist þegar ég varð faðir og reynsluheimurinn breyttist að sama skapi. Og ég er þeirrar skoðunar eins og ég hef látið koma fram fyrr í dag að fæðingarorlof feðra er afskaplega mikilvægur áfangi á leiðinni að jafnri stöðu kynjanna. Ég held að þegar feður eiga kost á því að sjá um uppeldi barna sinna og vera í mjög nánum tengslum við þau alveg frá því að þau fæðast, þá öðlist þeir allt aðra sýn og veruleika. Og ég held að sú sýn breyti viðhorfi þeirra varanlega. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að það eigi að gera eins og t.d. í Noregi þar sem feður hafa sjálfstæðan rétt en þar sem heildarréttur foreldranna kemur ekki til fullra framkvæmda nema feðurnir notfæri sér hann. Með öðrum orðum, þar var það að sjálfsögðu fyrir tilstilli norskra sósíaldemókrata sem feðurnir eru beinlínis knúnir til þess að taka sér fæðingarorlof og ég held að í framtíðinni sé þetta það sem er mikilvægast í jafnréttisbaráttu á Íslandi. Ég held að það sé ekkert sem getur dugað jafn vel til þess að brjóta niður þá hefðbundnu sýn sem okkur körlunum er innrætt frá blautu barnsbeini gagnvart þessum hefðbundnu verkaskiptum kynjanna. Þetta er lykillinn að því og þess vegna segi ég, herra forseti, ef Framsfl., ef einhver flokkur ætlar sér eitthvert raunverulegt framlag í baráttunni til að bæta og auka jafnrétti kynjanna, þá er það fæðingarorlof feðra.

Það er því miður svo, herra forseti, að allt bendir til þess að minn aldur sé orðinn þannig að ég sé kominn úr barneign eins og þessir miðaldra karlar sem ég hef gert hérna að umræðuefni. En ég fullyrði það að fyrir unga feður og fyrir unga karlmenn framtíðarinnar er þetta það sem skiptir mestu máli til þess að breyta afstöðu þeirra til jafnréttis kynjanna, breyta afstöðu þeirra til hefðbundinna starfshlutverka og það er það sem öllu máli skiptir. Þess vegna ítreka ég spurningu mína til hæstv. heilbrrh.: Treystir hún sér ekki til að lýsa því yfir að hún muni stíga skref á þessari braut áður en kjörtímabilið er úti? Það er mér sannarlega --- ja, kannski ekki sorgarefni af því að ég er fæddur glaður, en áhyggjuefni að hæstv. ráðherra sem hefur aftur og aftur beitt sér í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna skuli ekki treysta sér til þess að lýsa þessu yfir. Og ég velti því fyrir mér, hvort það geti verið að sá bústni karl sem hérna stendur skilji þegar upp er staðið eðli þessarar baráttu betur heldur en móðirin sem situr þarna í stóli hæstv. heilbrrh.?