Áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 15:21:03 (4852)

1997-03-21 15:21:03# 121. lþ. 96.8 fundur 102. mál: #A áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum# beiðni um skýrslu frá heilbrrh., KPál
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[15:21]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu stórt mál og vil ég byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir þá skýrslu sem lögð hefur verið fyrir þingið og hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að hafa átt frumkvæði að þessu máli. Ég held að allir geri sér fulla grein fyrir því að langir biðlistar á sjúkrahúsunum hafa valdið fólki miklum erfiðleikum og tjóni. Löngu er tímabært að menn átti sig á því að þeir biðlistar sem hafa verið að skapast og eru vandamál síðustu ára hafa ekki skapast vegna þess að einstakir ráðherrar eins og hæstv. heilbrrh. hafi ekki viljað leysa þá heldur vegna þess að menn hafa með aðgerðum sínum verið að reyna að spara peninga í heilbrigðiskerfinu með því að draga úr aðgerðum, fækka legudögum og fækka rúmum. Það hefur þó komið fram í skýrslum sem hafa verið gerðar um áhrif lokana til skamms tíma að þær hafa ekki sparað neina peninga heldur hafi þær einungis fært peninga til í kerfinu og sparnaður sem af því hlýst er enginn. Því miður hafa menn ekki komist út úr því fari að vera sífellt að reyna að loka deildum sjúkrahúsa eða heilsugæslustofnana þannig að þar er vandamál sem þarf að skoða betur.

Þegar litið er á þennan lista sem er birtur með skýrslunni um sjúklinga sem bíða þá kennir þar margra grasa. Samkvæmt skýrslunni eru 1.331 sem bíða eftir ýmsum aðgerðum á Landspítalanum og er ljóst að sá hópur mun ekki komast að á næstunni miðað við það fjármagn sem þar er til ráðstöfunar. Mér er aftur á móti sagt af læknum Landspítalans að þar væri hægt að tæma þennan biðlista á innan við einu og hálfu ári ef farið yrði út í það því allar aðstæður eru fyrir hendi á staðnum. Það er sem sagt nóg af skurðstofum, tækni og þekking er til staðar og jafnvel starfskraftur sem hægt væri að nýta. Reyndar þyrfti að bæta við einhverjum starfsmönnum en eigi að síður yrði það ekki vandamál að vinna á þessum listum á skömmum tíma ef út í það yrði farið. Eitt mál gæti kannski komið í veg fyrir að menn næðu tökum á þessu en það er svokölluð vinnutímatilskipun ESB og er alveg nýtt vandamál sem er að koma upp innan sjúkrahúsanna og á eftir að ræða hér í þingsölum og við næstu fjárlagagerð. En ef fara á út í að skera niður vinnutíma lækna og hjúkrunarfólks miðað við þær vinnutímareglur sem eru gefnar út af Evrópusambandinu og við viljum fara eftir út í hörgul, þá mun það kosta sjúkrahús eins og Landspítalann jafnvel hundruð milljóna að leysa það mál með nýjum starfsmönnum sem ættu að koma inn. Það hefur þó enn ekki verið rætt til hlítar hvernig hægt yrði að bregðast við því en eigi að síður er þetta eitt af þeim vandamálum sem menn hljóta að standa frammi fyrir þegar á að reyna að ná utan um þá biðlista sem eru fyrirliggjandi og hvernig eigi að koma í veg fyrir að þeir lengist enn frekar þegar á að fara að vinna samkvæmt nýrri tilskipun Evrópusambandsins um vinnutíma. Þetta er eitt af þeim vandamálum sem við hljótum að standa frammi fyrir jafnvel bara á allra næstu vikum því vinnutilskipunin á að taka gildi, ef ég fer rétt með, 1. júní næstkomandi.

Þetta er eitt mál, síðan er annað mál hvernig biðlistar eru yfirleitt. Hvernig skilgreinum við biðlista því biðlisti er kannski ekki endilega sama og biðlisti ef ég mætti orða það þannig. Hvað felst í því að vera á biðlista? Hve lengi hefur t.d. viðkomandi sjúklingur beðið á biðlistanum? Hvað hefur hann t.d. verið lengi óvinnufær? Hvað eru margir á biðlistanum sem geta unnið þrátt fyrir að bíða? Hversu margir af þeim sjúklingum sem eru á listanum eru sjálfbjarga, geta haldið heimili og eru rólfærir? Hvernig er líðan þessa fólks sem er á biðlistum? Er fólk sárþjáð og hefur það miklar kvalir sem reynist þeim mjög erfitt í daglegu lífi? Allt eru þetta spurningar sem að sumu leyti var spurt um í skýrslu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur en var ekki hægt að svara einfaldlega vegna þess að skráning sjúklinga á biðlistana er ekki þannig að hægt sé að vinna úr þeim slík svör eins og ætlast var til af fyrirspyrjanda.

Ég veit að mikill áhugi er á því hjá Landspítalanum að vinna þessa lista betur þannig að það geti nýst í praktískum tilgangi á spítölunum því þetta getur í rauninni verið spurning um skipulag fyrir spítalann og listar af þessu tagi, þar sem slíkar upplýsingar eins og ég var að ræða um áðan kæmu fram, hafa ekki verið gerðir svo vitað sé og væri nýlunda í sjúkrahúsmálum og málefnum sjúklinga ef byrjað væri á slíku með því vinnulagi sem sjúkrahúsmenn telja heppilegt og yrði til árangurs við venjubundin störf á sjúkrahúsum.

Það eru ýmsar leiðir til að vinna upp slíka lista. Mér hefur t.d. verið bent á það að fjórða árs nemar sem vinna á sjúkrahúsunum í námi sínu ættu að geta unnið þessa lista upp. Síðan eru átaksverkefni í þessum málum á vegum háskólans sem gætu einnig nýst við það að vinna upp slíka lista og ýmsar leiðir eru eflaust til sem þyrftu ekki endilega að kosta nýja peninga heldur peninga sem eru nú þegar til í kerfinu. Að dómi þeirra sem ég hef talað við um þetta og þá sérstaklega á Landspítalanum þá mundi þetta nýtast mjög í hinu praktíska umhverfi og jafnvel læknavísindunum ef af þessu gæti orðið. Sú umræða sem hefur hafist í þessu máli er mjög gagnleg og þakkarvert að einstakir þingmenn skuli taka þetta upp á hinu háa Alþingi.

Þegar litið er á þá skýrslu sem kemur upp í hendur okkar þingmanna þá veltir maður fyrir sér ýmsum tölum sem eru í í skýrslunni. Á bls. 16 þar sem skipting er milli kjördæma á þeim einstaklingum sem eru á listanum sést ef maður ber saman Reykjavík og Reykjanes að 146 Reykvíkingar bíða eftir að komast á almenna skurðdeild en aðeins 7 Reyknesingar. Það eru sem sagt 8,8% af hverjum 1.000 Reykvíkingum sem bíða en aðeins 1% á Reykjanesi og maður veltir því fyrir sér hvort Reyknesingar séu svona miklu heilsuhraustari en Reykvíkingar eða hvort þessi upplistun er ekki nákvæmlega vísindaleg, hvort eitthvað vanti inn á þessa lista sem ætti í rauninni að vera þar. Við sjáum líka að á bæklunarskurðdeildinni eru 205 Reykvíkingar sem bíða en ekki nema 21 Reyknesingur. En eins og við vitum eru 104 þúsund sem búa í Reykjavík en 70 þúsund í Reykjanesi þannig að út af fyrir sig ætti þessi mismunur ekki að vera svona mikill nema sú skýring sé að við á Reykjanesi séum heilsuhraustari en Reykvíkingar. Ég ætla ekki að hafa fyrir því að telja upp allar þessar tölur en það geta menn séð í töflu 8 á bls. 16 að þar er eitthvert misræmi á milli sem ugglaust er hægt að skýra.

Ég velti því einnig fyrir mér hvort í skýrsluna hafi verið settir allir þeir biðlistar sem eru í rauninni til í kerfinu eins og varðandi þá sem þjást af svefnleysi og öðrum sjúkdómum sem eru ekki endilega bráðatilfelli heldur biðlistar sem snúa að öðrum þáttum heilbrigðiskerfisins.