Áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 17:38:45 (4883)

1997-03-21 17:38:45# 121. lþ. 96.8 fundur 102. mál: #A áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum# beiðni um skýrslu frá heilbrrh., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[17:38]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað rétt að þegar koma sérfræðingar sem bjóða upp á aðgerðir sem ekki hafa verið gerðar hér áður má búast við að slíkum aðgerðum fjölgi frá því að vera engar og yfir í það að vera einhverjar. En ég er ekki sammála þessari viðbótarfullyrðingu sem kemur hér fram að því fleiri sérfræðingar sem koma hingað til landsins því meiri aukning verði á aðgerðum. Þá er ég hræddur um að menn lentu í vandræðum fyrr eða síðar ef svo fer að það sé skoðun hæstv. ráðherra, sem hún virðist vera að ítreka hér, að það eigi að hafa stjórn á eftirspurninni eftir aðgerðum og lækningum með því að hafa stjórn á framboði manna sem eru reiðubúnir til þess að aðstoða sjúklinga. (Heilbrrh.: Það er auðvelt að snúa út úr.) Ég er ekki að snúa út úr, virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra sagði það og ítrekaði það sem hæstv. ráðherra sagði áðan, að auknu framboði hlyti í öllum tilvikum að fylgja aukin eftirspurn. Það er út af fyrir sig nokkuð merkilegur hlutur svo að maður tali nú ekki um það, sem kemur fram í skýrslunni og ég hafði ekki tíma til að fara í áðan, að aðferðin til þess að fækka á biðlistunum væri eins og segir í skýrslunni: ,,að fara yfir þá`` því þá fækkaði alltaf um 10--15%. Væri þá ekki tilvalið fyrir hæstv. ráðherra til þess að ná þessu í gott lag að fara oftar yfir þá heldur en hann hefur gert ef það er algilt lögmál að það fækki á biðlistum um 10--15% í hvert skipti sem ráðherra les þá yfir?

Virðulegi forseti. Það eru svo margar spurningar sem vakna við þennan lestur og ekki síst við þann mýgrút ólíkra sjónarmiða sem settar eru fram í nafni hæstv. heilbrrh. að ég verð að segja eins og er að ég hef ekki hugmynd um fyrir hvað ráðherrann stendur, hvað hæstv. ráðherra meinar, hvað hún vill, hver er afstaða hennar, en það er út af fyrir sig, virðulegi forseti, ekkert nýtt því að það hefur mér ekki verið ljóst sl. tvö ár.