Veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 11:20:32 (4913)

1997-04-03 11:20:32# 121. lþ. 98.5 fundur 493. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (heildarlög) frv., sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[11:20]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka þá umræðu sem fram hefur farið um frv. Hér hafa verið bornar fram nokkrar spurningar og ýmis sjónarmið komið fram varðandi efni frv. og reyndar um fiskveiðistjórnun almennt. Það er alveg rétt sem hv. 5. þm. Vestf. vakti athygli á að fiskveiðistjórnun byggir ekki alfarið á aflahlutdeildarkerfinu heldur stöndum við að friðun fiskimiða og verndun fiskstofna með miklu víðtækari hætti.

Það hefur verið meginregla að togveiðar eru almennt stundaðar utan 12 sjómílna með ákveðnum undanþágum sem mælt hefur verið fyrir um í lögum og þetta frv. kveður á um slíka skiptingu og ákveðin veiðihólf þar sem togveiðar eru heimilaðar innan 12 mílna og enn fremur hvernig staðið er að stjórnun á staðbundnum stofnum. Allt er þetta nauðsynlegt til þess að fá skynsamlega heildstæða fiskveiðistjórnun. Ég hjó hins vegar eftir því að hv. 19. þm. Reykv. hafði séð mikið ljós í Færeyjum og taldi að fiskveiðistefna þeirra væri mjög í samræmi við stefnu Kennalistans og ég er alveg sammála hv. þm. um það. Ég held að fiskveiðistefna Færeyinga sé mjög áþekk því sem Kvennalistinn hefur verið að boða. Að vísu hafa Færeyingar ekki lagt skatta á fiskveiðar eins og Kvennalistinn hefur lagt til en að öðru leyti er þarna um mjög áþekka stefnu að ræða. Það er líka mjög fróðlegt að bera saman lífsafkomu og efnahagsafkomu Íslendinga og Færeyinga, möguleika þessara tveggja þjóða til þess að halda uppi heilbrigðu efnahagslífi, sómasamlegum lífskjörum og standa undir velferðarþjóðfélagi. Og væri, held ég, hollt að Kvennalistinn skoðaði einmitt þennan samanburð betur við frekari málflutning sinn um fiskveiðimál.

Hv. 5. þm. Vesturl. vék að því að djúpkarfinn og grálúðan væru ekki í því horfi sem æskilegt væri og ýmsir hefðu verulegar áhyggjur af þessum stofnum. Ég get tekið undir það. Hann hélt því hins vegar fram að þetta væri niðurstaða eftir 13 ára stjórnun með aflahlutdeildarkerfi. Þess er nú fyrst að geta að aflahlutdeildarkerfið hefur ekki verið við lýði sem hreint aflahlutdeildarkerfi nema síðan 1990. Rúmlega helmingur, sennilega, af öllum þorskafla var veiddur fram til 1990 í sóknarmarkskerfi. En það skiptir nú ekki höfuðmáli í þessu sambandi.

Vandinn sem við stöndum frammi fyrir varðandi grálúðustofninn og djúpkarfann er sá að þetta eru sameiginlegir stofnar með Grænlendingum og Færeyingum og stofnar sem að hluta til veiðast síðan utan efnahagslögsögunnar. Við höfum árum saman reynt að fá bæði Grænlendinga og Færeyinga til samstarfs um stjórnun á veiðum úr þessum stofnum án þess að það hafi tekist. Veiði þessara þjóða hefur haldið áfram að aukast á meðan við höfum verið að takmarka okkar veiði og menn geta séð stöðuna af því að við höfum skorið veiðar í grálúðu niður um helming en samt er okkar kvóti jafnmikill og sérfræðingar ráðleggja að veitt sé úr heildarstofninum á öllu hafsvæðinu innan grænlenskrar, færeyskrar, íslenskrar lögsögu og í úthafinu.

Ég óttast að ef menn ná ekki samkomulagi um stjórn á veiðum úr grálúðustofninum þá hrynji stofninn innan ekki margra ára og verði ekki grundvöllur veiða til margra ára. Þess vegna höfum lagt svo ríka áherslu á það að fá þessar þjóðir til samstarfs. Núna stendur einmitt yfir fundur þessara þjóða þar sem verið er að gera tilraun til þess að koma á slíku samstarfi. Ég vil ekki varpa allri ábyrgðinni á þessar þjóðir. Evrópusambandið er að kaupa aflaheimildir í stórum stíl af Grænlendingum og það gera Norðmenn einnig. Þessar þjóðir eru alveg jafnábyrgar og Grænlendingar fyrir þeirri ofveiði sem þarna á sér stað. Þeir sem kaupa veiðikvóta langt umfram veiðiráðgjöf eru alveg jafnábyrgir fyrir ofveiðinni og því hruni sem blasir við í þessu efni. En það er mjög mikilvægt að komið verði á virkri stjórnun á báða þessa stofna og ég tek undir það með hv. þm. og því verður haldið áfram af hálfu íslensku ríkisstjórnarinnar að knýja á um samninga á þessu sviði.

Að því er refsiákvæðin varðar sem hv. þm. minntist á, þá eru þau til samræmis við þau refsiákvæði sem nú eru þegar komin í fiskveiðistjórnarlögin og lögin um umgengni um nytjastofna sjávar. Þessi lög voru einfaldlega orðin úrelt að þessu leyti en refsiákvæðin eru hér til samræmingar.

Tveir hv. þm. hafa minnst á að í þessum lögum væri verið að auka við heimildir ráðherra. Það hygg ég að sé á misskilningi byggt. Hér er ekki verið að auka heimildir ráðherra frá gildandi löggjöf. Hins vegar er með lögum verið að treysta lagalegan grundvöll fyrir reglugerðum. Réttarþróunin hefur verið mjög ör á undanförnum árum og það sem áður þótti gott og gilt, jafnvel að skipa málum með ákvörðunum í veiðileyfum, vilja menn færa inn í reglugerðir í dag og þá þarf að laga lagagrundvöll þessara ákvarðana. Þannig að hér er fyrst og fremst verið að færa löggjöfina til samræmis við þá réttarþróun sem átt hefur sér stað í stjórnsýslurétti. Að þessu leyti er það alveg rétt sem hv. 6 þm. Suðurl. sagði að í frv. eru ekki fólgnar neinar byltingarkenndar breytingar. Það eru lítils háttar breytingar á veiðisvæðunum. Það eru skýrari réttarheimildir vegna reglugerðarsetningar en áður var. Það er verið að breyta stærðarviðmiðunum og taka inn varðandi stærðarflokka skipanna viðmiðanir við sóknargetu þeirra eða toggetu þeirra en falla frá því að miða alfarið við lengd skipanna. Og það er verið að samræma refsiákvæðin við það sem Alþingi hefur þegar samþykkt í tvennum öðrum lögum sem mynda heildarramma um fiskveiðistjórnunina. Þannig að það er alveg rétt sem hv. 6. þm. Suðurl. segir að hér er ekki um byltingarkenndar breytingar að ræða en mjög nauðsynlegar breytingar, m.a. út frá þróun stjórnsýsluréttarins.

Að því er varðar spurningu hv. 6. þm. Suðurl. um 12. gr. þá er hún nýmæli. Hún felur ekki í sér að verið sé að taka vald af skipstjóra, endanlega hefur hann alltaf valdið. En það hefur verið, og ég hygg að flestir séu um það sammála að stundum koma upp örðugleikar þegar eftirlitsmaður fer með fiskiskipi um fiskislóð. Ef eftirlitsmaðurinn er ekki með þá eru veiðarfærin ekki bleytt á tilteknum svæðum þar sem ástæða er til þess að eftirlit fari fram. Hér er fyrst og fremst verið að reyna að knýja á um að eftirlit geti farið fram á slíkum svæðum. Í langsamlega flestum tilvikum gengur samstarf af þessu tagi mjög eðlilega fyrir sig á milli eftirlitsmanna og skipstjóra en það hafa komið upp þau tilvik að eftirlit hefur ekki getað farið fram á þessum svæðum og það er verið að reyna að setja nokkra pressu á skipstjóra að þessu leyti en endanlega hlýtur valdið alltaf að vera í þeirra höndum. Hér er vissulega um vanda að ræða sem ég hygg að bæði sjómenn og útvegsmenn vilji standa að að verði leystur því það er í þeirra þágu að eftirlitið sé virkt. Í þessu frv. eru nýmæli að því leyti að verið er að leggja til að tekið verði meira tillit til sjónarmiða sjómanna. Frv. gerir núna ráð fyrir að hægt sé að taka ákvörðun um lokun veiðisvæða á grundvelli upplýsinga sem koma beint frá sjómönnum, það þurfi ekki að bíða eftir því að Hafrannsóknastofnun sendi vísindamenn á tiltekið svæði eftir að upplýsingar hafa komið fram um smáfisk til að mynda, heldur sé unnt að taka slíkar ákvarðanir á grundvelli upplýsinga frá sjómönnunum sjálfum.

Ég held ég hafi þá vikið að flestum atriðanna sem fram hafa komið í umræðunni. (GE: 7. gr.) Ég þakka að öðru leyti fyrir umræðuna. Hv. 5. þm. Vesturl. vék hér að grásleppuveiðunum. Það er rétt að fram til þessa hefur ekki verið talið að ástæða væri til að setja grásleppuveiðarnar í kvóta. Ástand grásleppustofnsins hefur ekki verið talið á þann veg að tilefni væri til þess. En þetta er auðvitað eitt af þeim verkefnum sem menn verða stöðugt að fylgjast vel með. Þetta er mjög mikilvægur þáttur í okkar veiðiskap og menn mega ekki ganga of nærri þessum stofni þannig að hann hrynji. En fram að þessu hefur ekki verið talin hætta á því.