Járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 12:18:31 (4926)

1997-04-03 12:18:31# 121. lþ. 98.6 fundur 475. mál: #A járnblendiverksmiðja í Hvalfirði# (eignaraðild, stækkun) frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[12:18]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Þetta frv. til breytinga á lögum um járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði er ekki flókið né viðamikið í sjálfu sér enda fjallar það aðeins um einn afmarkaðan þátt í starfsemi Íslenska járnblendifélagsins, þ.e. eignaraðildina. Fyrir mér er það satt að segja ekkert höfuðatriði hvernig þeirri aðild er háttað, hvort íslenska ríkið eða Íslendingar eiga þar meiri hluta eða ekki heldur hitt hvernig hagsmunum okkar er best borgið og hvaða reglur gilda um slíka starfsemi. Reglur sem tryggja eðlilegan fjárhagslegan hagnað, tryggja að vinnuskilyrði séu sem allra best og skaðsemi á náttúru og umhverfi verði sem allra minnst. En þrátt fyrir einfaldleika frv. hljótum við að líta til þess sem að baki býr því hér er ekki verið að breyta eignaraðild bara breytinganna vegna heldur er tilgangurinn að tryggja stækkun og aukna framleiðslugetu verksmiðjunnar.

Hér er því verið að bæta enn einum steininum í þá stóriðjubraut sem stjórnvöld hafa markað og leggja allt kapp á að hafa sem lengsta og breiðasta. Og nú þurfa hæstv. ráðherrar, að eigin mati, ekki að standa í miklu stappi við talsmenn umhverfisverndar heldur er vísað nokkuð glaðhlakkalega til þess í 8. lið grg. með frv., á bls. 13, að ekki þurfi að láta fara fram mat á umhverfisáhrifum heldur megi styðjast við eldri samninga og lög. Þetta finnst mér harla lélegt og til vitnis um lítinn metnað hæstv. ráðherra en raunar ekkert undrunarefni með tilliti til þess hvernig mál hafa gengið fyrir sig að undanförnu. Auðvitað er hægt að setja skilyrði fyrir stækkun ef menn vilja, með tilliti til umhverfissjónarmiða, hvað sem fyrri samningum og lagasetningu líður. Annað eins hefur nú gerst að teknir væru upp samningar og lögum breytt og þarf ekki annað en að vísa til þess að ekki hefur vafist fyrir mönnum að setja sértækar skattareglur ef þeim býður svo við að horfa, þ.e. í samningum við erlenda fjárfesta, reglur sem ganga að nokkru leyti á svig við gildandi skattalög í landinu. Hvers vegna ætti þá ekki allt eins að endurskoða gamla samninga og lög með tilliti til breyttra viðhorfa í umhverfismálum? Þetta er að mínu viti bara spurning um vilja og metnað. Það er nú raunar staðfest í 8. lið að starfsleyfi þurfi að gefa út fyrir ofn III og gefið fyrirheit um að skilmálar verði settir. En á hverju ætla menn að byggja ef ekkert er matið?

Með stækkun járnblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði er auðvitað enn einn ganginn verið að auka mengandi stóriðju í landinu og stuðla að auknu raski á náttúrufari og landslagi á hálendinu. Það er ekkert annað en metnaðarleysi að afgreiða málin á þann hátt sem hér á að gera. Það er skjalfest á þskj. 513, í svari hæstv. umhvrh. við fsp. Hjörleifs Guttormssonar, að allt að 50 þúsund tonna framleiðsluaukning járnblendiverksmiðjunnar hafi í för með sér losun koltvíoxíðs sem nemur um 167 þúsund tonnum á ári. Og bætist þá enn í syndaregistur okkar Íslendinga á því sviði. En æðsti maður umhverfisverndar á Íslandi virðist ekki hafa þungar áhyggjur af því heldur er ábyrgðinni vísað til annarra ríkja sem geti einfaldlega gert betur. Ekki er það nú stórmannleg afstaða. En þannig vilja íslensk stjórnvöld standa við skuldbindingar sínar sem þeim sannarlega ber að axla samkvæmt alþjóðlegum rammasamningi um loftslagsbreytingar. Þau hafa lýst þeirri túlkun sinni að rammasamningurinn sé fyrst og fremst sameiginleg skuldbinding vestrænna iðnríkja um að heildarlosun gróðurhúsalofttegunda verði ekki meiri árið 2000 en hún var árið 1990 og að ríkin beri sameiginlega ábyrgð á að þessu marki verði náð. Þá hlýtur spurningin að vera sú, úr því íslensk stjórnvöld túlka skyldur sínar og annarra ríkja á þennan hátt, hvort þau hafi þá tryggt á einhvern máta að dregið verði samsvarandi úr losun koltvíoxíðs í einhverju öðru landi. Hæstv. iðnrh. getur e.t.v. svarað því úr því að hæstv. umhvrh. er ekki viðstaddur þessa umræðu. Og hvað um þá auknu losun gróðurhúsalofttegunda sem verða mun með tilkomu nýs álvers, ef af því verður? Þar er um miklu meiri aukningu að ræða eða allt að 373 þúsund tonn á ári ef álframleiðslan verður 180 þúsund tonn á ári. Hvar er tryggingin fyrir því að dregið verði einhvers staðar úr losun gróðurhúsalofttegunda á móti? Fyrir nú utan þá staðreynd að heildarlosun hefur verið að aukast allt frá viðmiðunarárinu 1990 og þar erum við Íslendingar því miður framarlega í flokki. Þetta er í raun risavaxið verkefni sem þjóðir heims standa frammi fyrir og verða að taka alvarlega því hér er um að ræða umhverfisógn sem svo sannarlega varðar framtíð mannkyns alls. --- Það má raunar geta þess að ástæðan fyrir því að hæstv. forseti varð við því að leyfa mér að koma hér inn með ræðu mína, þrátt fyrir að áætlað hefði verið að gera fundarhlé kl. 12.15, er sú að ég þarf að mæta á fund hjá hæstv. umhvrh. þar sem hann mun einmitt kynna hvernig Íslendingar ætla að standa að málum á væntanlegum fundi um þessi mál í New York í júní næstkomandi.

Hér má auðvitað enginn skorast undan og þess vegna er beinlínis hörmulegt að íslensk stjórnvöld skuli leggja slíkt ofurkapp á uppbyggingu atvinnu sem einmitt vinnur þvert á það markmið sem sett var með rammasamningnum um loftslagsbreytingar. Nú er ekki um það að ræða að hægt sé að takmarka þá losun koltvíoxíðs sem verða mun við stækkun járnblendiverksmiðjunnar en það breytir ekki því að menn eiga auðvitað að nota þetta tækifæri og taka virkilega á umhverfismálum hjá þessu fyrirtæki. Við vitum að á ýmsu hefur gengið í þeim efnum og þarf ekki að fara langt aftur í tímann til upprifjunar. Staðfest var á síðasta ári að mengunarvarnir þar hafa verið í ólestri og Hollustuvernd ríkisins hefur engan veginn getað fylgst með þeim né litið eftir og rannsóknir eru allar í skötulíki. Þess vegna á að taka þau mál upp og gera kröfur um bestu þekktar varnir gegn mengun og umhverfisraski. Ég vil skora á hæstv. iðnrh. sem er sérlegur áhugamaður um uppbyggingu stóriðju á Grundartanga að ganga vasklega fram í þessu máli.