Útgáfa starfsleyfis og upphaf framkvæmda við álbræðslu á Grundartanga

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 14:46:25 (4946)

1997-04-03 14:46:25# 121. lþ. 98.95 fundur 269#B útgáfa starfsleyfis og upphaf framkvæmda við álbræðslu á Grundartanga# (umræður utan dagskrár), SighB
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[14:46]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Umræðan hér hefur fyrst og fremst snúist um útgáfu starfsleyfisins og hvaða skýringar séu á því að svo brátt var í brók í umhvrn. þegar sú útgáfa átti sér stað. Menn geta auðvitað getið sér til um ýmsar orsakir en mig langar til þess að varpa fram einni fyrirspurn. Var þess óskað af forráðamönnum Norðuráls að starfsleyfið yrði gefið út eins skjótt og raun ber vitni? Það er vitað að þeir eru nú í viðræðum við erlenda fjárfesta um hugsanlegt framlag eða lánveitingar til þess að reisa þessa verksmiðju. Þurftu þeir á því að halda í viðskiptum sínum við væntanlega erlenda fjárfesta að geta sýnt starfsleyfið til þess að geta haldið áfram viðræðum við þá í von um árangur? Er það sú einfalda skýring sem er á þessari hröðu afgreiðslu að hún eigi sér stað vegna þess að sú hafi verið ósk forráðamanna Norðuráls vegna þess að þeir hafi þurft á slíkum pappírum að halda til þess að geta sannfært þá erlenda fjárfesta sem þeir hafa leitað til um að þeir gætu gengið að byggingu álversins og á hvaða forsendum? Þetta er auðvitað mergurinn málsins en það hefur ekki verið kallað eftir því í þessum umræðum hvort sú skýring er rétt.