Járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 15:24:18 (4951)

1997-04-03 15:24:18# 121. lþ. 98.6 fundur 475. mál: #A járnblendiverksmiðja í Hvalfirði# (eignaraðild, stækkun) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[15:24]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson hefur nú farið yfir þetta frv. og hef ég ekki miklu við það að bæta sem hann sagði efnislega um einstaka þætti málsins. Ég vil nota þetta tækifæri og koma á framfæri nokkrum hugleiðingum sem tengjast stóriðjumálum og atvinnuuppbyggingu almennt. Þetta tækifæri er ekki verra en hvað annað sem nú býðst í röðum til þess.

Satt best að segja, herra forseti, er ég nokkuð undrandi á því að ekki skuli hafa orðið meiri umræður um það á Alþingi á þessum vetri hvert verið er að stefna almennt í þessum efnum. Það er að mínu mati mjög brýnt að menn taki sér fyrir hendur að fara í almenna umræðu um hvert á að stefna varðandi atvinnuuppbyggingu af þessu tagi, þó ekki væri nema a.m.k. að menn veltu því eitthvað fyrir sér hve mikið við ætlum að byggja ef þær aðstæður skyldu nú koma að menn væru bara á færibandi tilbúnir til þess að rúlla hér inn með fabrikku. Á þá bara að virkja og virkja og virkja og virkja og byggja og byggja og byggja og byggja fleiri og fleiri og fleiri og fleiri álver --- eða hvað? Hafa menn eitthvað lagt það niður fyrir sér í þessum efnum t.d. hversu skynsamlegt væri að fara hratt í þessa hluti? Hvað skynsamlegt sé í öllu falli að gera mikið samtímis o.s.frv.? Svarið er nei. (Gripið fram í: Jú.) Svarið er nei. Það eru rekin hér batterí sem eru á fullu út um allan heim og kaupandi fokdýrar auglýsingar þar sem láglaunaskattafríðindaparadísin Ísland er kynnt. Það er dælt milljónum á ári hverju í þennan erindrekstur, þennan áróður, og ég veit ekki til þess að menn hafi sett sér nein takmörk fyrir því hverjir eru teknir inn á teppið og við hverja er rætt, enda eru áformin og plönin, ef þau eru öll lögð saman, býsna mörg. Það er ástæða til að fara yfir það, herra forseti. Það er verið að stækka í Straumsvík. Hér er frv. um að stækka járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga. Fyrir tveim vikum eða svo var verið að ræða um álver á Grundartanga. Það sofa áform um risaálver á Keilisnesi og fleiri fabrikkur er í farvatninu eða á undirbúnings- og rannsóknarstigi, m.a. á Suðurnesjum.

Það sem ég gagnrýni fyrst og fremst í þessu, herra forseti, er að mér finnst vera anað áfram í blindni á grundvelli gamaldags, úreltrar hugmyndafræði gömlu stóriðjustefnunnar sem menn hafa því miður ekki tekið til endurskoðunar í ljósi nútímaaðstæðna. (Gripið fram í.) Menn hafa ekki gert það. Það er nærtækt þegar í hlut á hæstv. fyrrv. iðnrh., hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, að honum sé málið skylt, þar er skylt skeggið hökunni.

Það er mjög sorglegt, herra forseti, að það skuli vera svo að þessi gamla stóriðjustefna skuli ríða hér húsum. Menn hafi ekki lagt niður fyrir sér í ljósi aðstæðna, eins og þær blasa við nú og inn í framtíðina, hvernig við ættum að haga þessum málum á Íslandi. Stóriðjan, þessi hefðbundna, orkufreka stóriðja er atvinnugrein gærdagsins í mörgum skilningi. Þetta er atvinnugrein sem menn eru víða að reyna að koma af höndum sér af því að hún mengar, hún tekur mikla orku, hún verður þeim ríkjum þar sem hún er fyrirferðarmikil erfið þegar kemur að því að mæta vaxandi og hertum umhverfiskröfum. Þetta liggur allt fyrir. Menn reikna ekki með því að þessar greinar verði þær greinar sem á næstu öld komi til með að borga hæstu launin og skaffa bestu lífskjörin, þvert á móti. Það er almennt reiknað með því að þarna sé á ferðinni iðnaður sem muni þróast í átt til að verða láglaunaiðnaður á sama tíma og hátæknigreinar, hugbúnaðariðnaðurinn og þekkingariðnaðurinn og ýmsar skyldar greinar, ýmiss konar fínni tækniiðnaður, er það sem menn veðja á og fjárfesta í þar sem menn eru að reyna að sjá eitthvað inn í framtíðina. Þá gerist það uppi á Íslandi að allt í einu er sett á fulla ferð og anað áfram, keyrt áfram á grundvelli þessarar gamaldags, úreltu stóriðjustefnu sem hér var innleidd sem mikið trúboð á 7. og 8. áratug þessarar aldar.

Um það er engin deila, herra forseti, þó að hlutirnir séu stundum settir upp með þeim hætti að við eigum að reyna að gera okkur mat úr þeirri orku sem er ónýtt í landinu. Það er heldur held ég ekki neinn ágreiningur um það í sjálfu sér að stærri iðnaðarkostir, stóriðja geti í bland, verið farsælir og heppilegir kostir með. Ég a.m.k. útiloka það síður en svo og hef aldrei gert. Ég held hins vegar að við þurfum að leggja þetta mjög vel niður fyrir okkur þegar í hlut eiga mjög stórar fjárfestingar og við erum að binda virkjunarkostina, þá hagkvæmustu reyndar sem teknir eru fyrst, til mjög langs tíma. Staðreyndin er sú að þó að af uppbygging af þessu tagi eins og t.d. stækkuninni á Grundartanga eða álverinu þar, ef það kemur, hljótist talsvert mikil umsvif á byggingartímanum eru nettóáhrifin á þjóðarbúskapinn að því loknu merkilega lítil næstu 30--40 árin, á afskriftatíma þessara miklu fjárfestinga. Þá gerir þetta ekki miklu betur en að vinna fyrir sér. Samningarnir eru yfirleitt ekki merkilegri en það. Jú, það skapast þarna störf en þau eru ákaflega dýr miðað við þá fjárfestingu sem á bak við hvert starf liggur. Það liggur fyrir að það er nánast ekki til dýrari aðferð við að skaffa ný störf heldur en setja þau í orkufreka stóriðju. Starfstækifærin sem slík, hvert starf, er óvíða ef nokkurs staðar dýrara en akkúrat þarna. Það liggur í hlutarins eðli því að þetta er ekki ýkja mannaflafrek starfsemi miðað við þær tölur sem þarna eru á ferðinni. Dýrt verður nú kosningaloforð Framsfl. upp á 12 þúsund störfin ef hvert þeirra á að kosta eins og hér á í hlut. (Gripið fram í: Þaða er mikill verðmætabaggi.) Verðmætin eru þó nokkur fyrir þau fyrirtæki sem þarna reka starfsemi, en það er því miður svo að þau fyrirtæki eru erlend og ætla sér að hafa eitthvað fyrir sinn snúð. Það sem í hlut okkar Íslendinga kemur er endurgjaldið fyrir fyrst og fremst tvennt. Það er fyrir vinnulaun þeirra Íslendinga sem starfa við þetta fyrirtæki, einhver örfá störf í virkjunum og endurgjaldið fyrir raforkuna sem seld er. Það dæmi er þannig að í raun og veru eru nettóáhrifin á þjóðarbúskapinn merkilega lítil eftir að byggingartímanum lýkur á meðan verið er að afskrifa viðkomandi virkjanir og tekur 30--40 ár, eða guð má vita hvað. (Gripið fram í: Og einhverjir skattar.) Einhverjir skattar eru svo greiddir já, segir hæstv. ráðherra. Við skulum vona að svo verði og að ekki þurfi að gefa þá eftir, en það hefur gengið á ýmsu.

[15:30]

Ég vil í öðru lagi, herra forseti, minnast á að það er óumdeilanlega neikvætt að mínum dómi þegar sú heildarmynd er skoðuð, sá stóriðjupakki allur saman sem er á mismunandi stigum ákvörðunartöku eða er þegar ákveðinn, að allar þessar framkvæmdir með tölu eru á einu og sama landshorninu þar sem fyrir er mesta þéttbýlið. Neikvæð byggðaáhrif af þeim fjárfestingum og framkvæmdum öllum verða því óumdeilanlega mjög mikil eða á því er veruleg hætta. Það er merkilega hljótt um þá hlið málsins og hefði nú einhvern tímann þótt tíðindi að Framsfl. gengi alveg sérstaklega fram fyrir skjöldu í þeim efnum. Það er þannig hvað sem hver segir að verksmiðjurnar eru allar á suðvesturhorninu við Faxaflóann og reyndar flestar aðrar stórframkvæmdir eða stærri framkvæmdir sem í gangi eru eða eru fyrirhugaðar. Það er þannig. Maður hlýtur þá að spyrja sig: Getur það haft önnur áhrif en þau að það verki til enn frekari röskunar í byggðamálum heldur en orðið er? Og er þó útlitið nógu dökkt þar um þessar mundir þar sem fólksflóttinn frá landsbyggðinni til suðvesturhornsins eða úr landi er núna með því mesta sem hann hefur verið. Þau dimmu ár sem við sjáum nú t.d. miðað við árið í fyrra eru nánast jafnslæm og verstu árin á 9. áratugnum.

Ég held líka í þriðja lagi að merkilega lítið hafi verið rætt um þau stóru mál sem lúta að þegar orðnum eða væntanlegum þjóðréttarlegum skuldbindingum okkar á grundvelli bindandi samninga um að draga úr losun svonefndra gróðurhúsalofttegunda. Það er satt best að segja alveg stórmerkilegt að menn skuli vera með til umfjöllunar á borðum ríkisstjórnar svo gott sem sömu dagana, annars vegar það hvernig við eigum að mæta þeim skuldbindingum sem fram undan eru um að draga úr þessari losun og hins vegar stóriðjuframkvæmdir um að auka hana á annað hundrað prósent á fáeinum árum. Það er aukning sem kemur öll til sögunnar eftir þau viðmiðunarár sem verða tekin, þ.e. losunin eins og hún var á árinu 1990. Þetta liggur fyrir. Hvernig ætlar Framsfl. sem fer með þetta og situr öllum megin borðsins að snúa sig út úr þessu? Það gengur ekki að fara í gegnum þessa umræðu aftur og aftur eins og hæstv. umhvrh. gerði og sleppa því að svara. Hver á að draga úr losuninni á móti, eins og spurt var um í utandagskrárumræðunni áðan, þeirri aukningu sem verið er að leggja til að heimila hér upp á 300--400 þúsund tonn eða 700--800 þúsund tonn ef allt er tekið með, Straumsvík, stækkun járnblendiverksmiðjunnar, viðbótarálver á Grundartanga o.s.frv.? Hver á að draga úr henni á móti? Er það íslenski flotinn? Það er ekki mörgum öðrum til að dreifa sem eru það stórir og mælast þannig í þessu samhengi að eitthvað mundi draga um það. Menn verða að horfast í augu við að þetta eru alvörumál, ekki nema Ísland ætli að segja sig úr Sameinuðu þjóðunum og gera sjálfum sér það til ævarandi skammar að vera ekki aðili að þeim alþjóðlegu skuldbindingum á sviði umhverfisverndar sem verið er að reyna að koma á og allir hugsandi menn á jörðinni vita að er lífsnauðsynleg eigi mannlíf að geta haldið áfram á þessum hnetti. Og guð má vita hversu langt við erum nú þegar komin fram á bjargbrúnina m.a. hvað varðar t.d. veðurfarsbreytingar sem því miður liggur fyrir nánast óhrekjanlega sannað að eru að verða vegna upphitunar andrúmsloftsins.

Það skyldi nú ekki fara svo að sennilega yrðu fáar ef nokkrar þjóðir í heiminum jafnharkalega fyrir barðinu á þeim breytingum og einmitt við Íslendingar. Það er margt sem bendir til þess að þær loftslagsbreytingar gætu sett af stað ferli í lífríki hafsins í kringum okkur hvað varðar hafstrauma og líffræðileg skilyrði sem yrði þvílík katastrófa að búseta mundi sjálfsagt leggjast hér af, a.m.k. í nútímalegum skilningi þess orðs ef það gerðist sem sum reiknilíkön spá á miðunum umhverfis Ísland í kjölfar hlýnunar upp á kannski ekki nema 1--2 gráður í lofthjúpnum. Það er því ekki þannig að þetta sé vandamál einhverra annarra sem við getum bara yppt öxlum yfir fyrir utan þá siðferðislegu hlið þess máls ef menn ætluðu að skerast úr leik. Þetta kalla ég, herra forseti, að ana áfram í blindni. Að hafa ekki lagt þessa hluti skipulega niður fyrir sér hvað mikið og hve hratt við viljum yfirleitt ráðast í atvinnuuppbyggingu af þessum toga og í hvaða áföngum. Hvaða samhengi hefur það við aðra hluti hjá okkur eins og byggðaþróun og þau umhverfismál og alþjóðlegar skuldbindingar á því sviði. En um þessi mál er ekki rætt og hér liggur ekkert fyrir af hálfu hæstv. ríkisstjórnar í raun og veru af neinu tagi um þessar hliðar málsins.

Herra forseti. Ég tel auðvitað að í þessum samningi sé það kannski lakast að sjá íslenska meiri hlutann í fyrirtækinu afhentan í raun og veru eins og hér á að gera. Í öðru lagi að sjá þessum aðila tryggður réttur til sjálfkrafa stækkunar. Það er dálítið merkilegt hvað menn eru brattir að semja á einu bretti um réttinn til að stækka þessi fyrirtæki langt inn í framtíðina. Það dugar t.d. ekkert minna í starfsleyfinu fína, sem Columbia fékk núna á dögunum, en gefa það strax út upp á 180 þúsund tonn eða þrefalda þá framleiðslu sem á að ráðast í í 1. áfanga. Af hverju gera menn þetta svona? Er áhættan sem tekin er ekki nóg þó að heimilaðir séu eða lögfestir og leyfðir þeir áfangar sem beinlínis á að ráðast í þó ekki sé verið að láta menn hafa þarna framvirka samninga upp á frekari stækkanir? Það tel ég mjög vitlaust m.a. vegna þess að aðstæður kunna að breytast býsna hratt í þessum efnum. Það er alveg eins víst að það verði okkur í óhag að hafa bundið hendur okkar og reyndar miklu fleira sem að mínu mati mælir með því að okkur verði það óhagstætt að hafa bundið hendur okkar að þessu leyti langt fram í tímann.

Það er hárrétt sem hér kom fram að vissulega er kosturinn við þetta mál sá að hækkun á raforkuverðinu næst fram vegna þeirrar framleiðslu sem fyrir er og mér liggur við að segja: skárra væri það nú, því það er óskapleg hörmung þar sem það hefur verið borgað. Ég minni hins vegar á móti á að það sem verið er að gera þessi árin og í tengslum við stóriðjuframkvæmdir sem nú standa yfir eða eru fyrirhugaðar í landinu er að verið er að safna saman í pott hagkvæmustu virkjunarkostunum sem liggja fyrir í kerfinu. Að hluta til er verið að nýta virkjunarkosti sem búið er að undirbúa og jafnvel að nokkru leyti borga af almennum raforkunotendum vegna þess að hluti þeirra framkvæmda og fjárfestinga sem að þeim standa liggja þegar fyrir t.d. á Þjórsársvæðinu. Ég held þess vegna að við verðum að leggja þá hluti mjög vandlega og kirfilega niður fyrir okkur hversu hátt raforkuverð við þurfum í raun og veru að fá, ekki bara til að þessir hagkvæmu virkjunarkostir sleppi og það sé jafnvel einhver afgangur af þeim. Nei, heldur vegna þeirrar framtíðarmyndar sem við okkur blasir, 20--50 ár fram í tímann hvað virkjunarkosti og raforkuverð snertir. Þá er ljóst að röðin kemur miklu fyrr en ella að dýrari og jafnvel stærri kostum sem menn þurfa að ráðast í en annars hefði þurft að verða. Ég held að reikna þurfi það dæmi með verulega langtímahagsmuni í huga. Ég tel raforkuverðið lágt, mjög lágt og valdi vonbrigðum þegar það er sett inn í þetta samhengi þó ég mótmæli því ekki og ég vefengi ekki að þessir virkjunarkostir sem slíkir gangi upp miðað við þetta verð út frá þeim spám sem þarna eru lagðar til grundvallar jafnvel þótt flýtingarkostnaðurinn sem slíkur sé reiknaður inn og þetta allt saman uppfært, þá er ég bara ekki endilega sammála þeirri uppsetningu á dæminu. Það er það sem ég er að segja. Ég vil sjá að virkjunarkostirnir, líklegir dýrari áfangar á næstu 20, 30, 40 árum, séu teknir að einhverju leyti með lengra inn í tímann og einhvers konar vegið meðaltal út úr því sé notað til viðmiðunar. (Gripið fram í: Það er gert.) Það er ekki gert með þeim hætti, herra forseti, sem hæstv. ráðherra er að gefa í skyn í frammíköllum. Þá misskilur hæstv. ráðherra hvað ég er að fara.

Ég gæti í lengra máli, herra forseti, farið yfir þetta út frá einstökum virkjunarkostum og hef nýlega gert það með tölum. Ég tel því að í öllu falli sé það alveg ljóst að þær forsendur sem menn gefa sér eru ekkert sjálfgefnar eða einhlítar. Það má setja þetta dæmi upp á marga mismunandi vegu. Það má líka t.d. horfa á það hvort sá mikli verðmunur sem er og verður til frambúðar því miður væntanlega staðfestur á verði til almennrar raforkunotkunar og þessara stórkaupenda sé eðlilegur og hvort hann eigi að vera svona mikill. Ég hef miklar efasemdir um það. Ég held að þau rök eigi ekki að öllu leyti við sem menn hafa verið að reyna að nota, að almenni markaðurinn sé margir smáir og ótryggir kaupendur o.s.frv. Staðreyndin er auðvitað sú að notkunin þar er að meðaltali mjög stöðug og það má alveg eins líta á almenna markaðinn sem einn kaupanda ef út í það dæmi væri farið með þeim sérkennum sem það hefur. Þó að greiðendurnir séu margir er heildarnotkunin ein tala.

Margt fleira, herra forseti, mætti um þetta segja sem lýtur að samspili þessara ákvarðana, þessara miklu fjárfestinga, raforkuverðsins annars vegar og raforkuverðsins til almennra notenda hins vegar. Það er mín meginniðurstaða í þessum málum að það hafi verið ógæfa að stofna ekki til algerlega sjálfstæðs fyrirtækis eða félags þegar kom að því að virkja fyrir þessa stóru aðila. Landsvirkjun hefði frá byrjun átt að vera skipt eða sjálfstætt fyrirtæki, stofnað þegar Búrfell var virkjað. Frekari stóriðjuframkvæmdir áttu að haldast algerlega aðskildar í sjálfstæðu félagi þannig að ekki væri uppi tortryggni um hver væri að borga fyrir hvern eins og ella er, hefur verið og verður sjálfsagt, því miður, á meðan þetta er í sameinuðu fyrirtæki.

Herra forseti. Mér finnst niðurstaðan hvað þessa samninga snertir í stuttu máli sagt ekki góð. Ég tel að samningamenn hafi verið á hnjánum. Það er að vísu rétt sem hér kom fram að harðdrægum og harðsnúnum andstæðingum var þar að mæta og eitthvað hrikti í og slitnaði upp úr á köflum í samningagerðinni en niðurstaðan veldur vonbrigðum. Hún hefði átt að geta orðið og hefði þurft að verða allmiklu betri fyrir Ísland til þess að hægt væri að gleðjast yfir því.