Sala notaðra ökutækja

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 17:32:22 (4964)

1997-04-03 17:32:22# 121. lþ. 98.9 fundur 148. mál: #A sala notaðra ökutækja# (leyfisbréf, eftirlit o.fl.) frv., Frsm. ÁE
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[17:32]

Frsm. efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 821 frá efh.- og viðskn. um frv. til laga um sölu notaðra ökutækja. Lögin voru samþykkt 1994 en í ljós kom að endurskoða þurfti nokkra þætti í þeim, þó ekki mikilvæga. Það var haft samráð um samningu frv. við þá aðila sem málið varðar.

Nefndin hefur fjallað um málið og bárust henni umsagnir frá Sýslumannafélagi Íslands, Verslunarráði Íslands, Bílgreinasambandinu, Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Neytendasamtökunum, lögreglustjóranum í Reykjavík, Sambandi íslenskra tryggingafélaga og Sambandi íslenskra viðskiptabanka. Auk þess unnu með nefndinni og voru til ráðuneytis fulltrúar úr viðskrn.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali. Í þeim felst að tekin verði af tvímæli um að ráðherra sé heimilt að setja í reglugerð ákvæði um sérstaka skrá sem leggja skal fram við sölu notaðra ökutækja þar sem fram kemur hverjir hafi verið eigendur að bifreiðinni og tjónaferill hennar. Þetta var atriði sem fjölmargir umsagnaraðilar lögðu mikið upp úr. Það tengist reyndar heildarendurskoðun á þeim ákvæðum sem varða ferilskrá ökutækja en að því máli verða síðan að koma fleiri ráðuneyti en einungis viðskrn. Vilji nefndar hvað þann þátt varðar kemur hér ótvírætt fram. Nefndin er þess fullviss að málið verði áfram unnið af hálfu viðskrn. og öðrum ráðuneytum sem málið varðar.

Í öðru lagi er lagt er til að fellt verði brott úr frv. ákvæði um sérstakt 5.000 kr. eftirlitsgjald til að standa straum af kostnaði við eftirlit lögreglustjóra með bifreiðasölum. Það kom fram í nefndinni að kostnaðurinn við að leggja þetta gjald á og innheimta það mundi verða býsna mikill. Það var niðurstaða í nefndinni að falla frá þessu sérstaka eftirlitsgjaldi og það ákvæði er fellt niður í einni af brtt. nefndarinnar.

Í þriðja lagi er gerð orðalagsbreyting á 3. mgr. 7. gr. frv. Lagt er til að hún orðist svo: ,,Nú fylgir bifreiðasali ekki lögum og reglum sem um starfsemi þessa gilda þrátt fyrir tilmæli lögreglustjóra eða fullnægir ekki lengur skilyrðum laganna, og skal þá lögreglustjóri tilkynna það viðskiptaráðherra sem sviptir viðkomandi starfsleyfi.`` Hér er gerð betrumbót á orðalagi og m.a. stuðst við ábendingar sem bárust frá lögreglustjóraembættinu hvað þennan þátt varðar. Það er ótvírætt að það er viðskrh. sem gefur út starfsleyfi og hann hefur rétt til að svipta starfsleyfi ef ekki er staðið við þau skilyrði sem lögin kveða á um.

Í síðasta lagi, herra forseti, er gert ráð fyrir að bætt sé við nýrri grein sem orðast svo: ,,Viðskiptaráðherra fer með framkvæmd laga þessara. Honum er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd þeirra með reglugerð.``

Það er nauðsynlegt að mati nefndarinnar að þetta ákvæði komi skýrt fram í lögunum.

Nefndin vill taka fram að hún lítur svo á að ef lögfræðingar eða viðskiptafræðingar sækja um starfsleyfi samkvæmt lögunum sé eðlilegt að veita þeim undanþágu frá námskeiðsskyldu 3. gr. laganna ef ætla má að þeir hafi fullnægjandi þekkingu til að annast bifreiðasölu. En í 3. gr. laganna er gert ráð fyrir að fyrir utan að menn hafi ábyrgðartryggingar þá verði þeir að hafa sótt námskeið og standast prófkröfur varðandi starfsleyfi. Með þessu orðalagi er kveðið á um að almennt megi ætla að tilteknar starfsstéttir sem hafa lögfræði- eða viðskiptafræðimenntun hafi fullnægjandi þekkingu til að annast bifreiðasölu og má þá veita þeim undanþágu frá námskeiðsskyldu. Nefndin telur að með þessu ákvæði sé komið til móts við almenna venju varðandi bifreiðasölu án þess að á nokkurn hátt sé gengið á rétt eða möguleika neytenda varðandi örugg viðskipti.

Nefndin var sammála um afgreiðslu málsins og ritar öll undir nál.

Jón Baldvin Hannibalsson var fjarverandi við lokaafgreiðslu málsins.