Eignarhald á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 18:11:06 (4968)

1997-04-03 18:11:06# 121. lþ. 98.10 fundur 304. mál: #A eignarhald á auðlindum í jörðu# frv., 305. mál: #A virkjunarréttur vatnsfalla# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[18:11]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Eins og fram kom í máli hv. 4. þm. Vestf. þá höfum við alþýðubandalagsmenn flutt hér á þinginu alloft frumvörp annars vegar um jarðhitaréttindi og hins vegar um orku fallvatna og nýtingu hennar og um breytingu á vatnalögum, nr. 15/1923. Þessi mál hafa yfirleitt náð því að komast til umræðu og síðan verið vísað til nefndar. Þar hafa komið fram allmargar umsagnir um málin. Þau hafa stundum verið rækilega rædd í hv. iðnn. og það hefur út af fyrir sig verið mikill skilningur á því að nauðsynlegt væri að setja einhver lagaákvæði um þessi mál. Það hefur hins vegar staðið þannig á að ákveðnir aðilar hér í þinginu hafa haft allsterka stöðu og mikla möguleika til þess að verja og koma í veg fyrir þá lagasetningu sem frumvörp þessi gera ráð fyrir, aðallega á grundvelli hagsmuna sem ég kalla landeigendahagsmuni. Þar hefur verið fremstur í flokki hæstv. núv. félmrh. sem ég þori að nefna af því að hann er fjarstaddur og vegna þess að nefndarálit hans í þessu máli er birt með öðru frv. Alþb. á þskj. 15 frá því í haust þar sem það kemur mjög greinilega fram með hvaða rökum hann leggst með málinu. Það verður auðvitað að viðurkenna, hvað sem mönnum finnst um það og hvort sem er rétt eða rangt, að þessir hagsmunir stöðvuðu lagasetningu í þessum málum. Þeir náðu ágætlega saman um þetta auðvitað í ríkisstjórnum Sjálfstfl. og Framsfl. þegar þær hafa setið í gegnum áratugina sem hafa verið nokkrar í lýðveldissögunni eins og kunnugt er og það hefur líka tekist að mynda oft býsna ósýnileg bandalög á milli ýmissa þingmanna Framsfl. og Sjálfstfl. þó að aðeins annar þessara flokka hafi verið í viðkomandi ríkisstjórn.

Þar af leiðandi hefur þetta mál staðið fast og það er mjög alvarlegur hlutur sérstaklega vegna þess sem nú blasir við og hv. 4. þm. Vestf. rakti mjög skilmerkilega í sinni ræðu áðan þegar hann komst þannig að orði að eins og horfur eru nú með þróun mála á Evrópska efnahagssvæðinu er veruleg hætta á því, ef við setjum ekki einhver lög af þessum toga, að útlendingar eignist orku fallvatna hér á landi. Þetta held ég, herra forseti, að sé nauðsynlegt að hafa í huga sem hinn pólitíska bakgrunn þessa máls og ég hefði talið að þessi mál ættu skilið að fá ítarlega umræðu.

Ég vil síðan segja að ég hef orðið var við það að í núv. ríkisstjórn munu menn vera að vinna í þessum málum. Við erum búnir að spyrja um það nokkrum sinnum. Þá var hér umræða um þetta 29. október sl. þar sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson mælti fyrir frv. um orku fallvatna. Hæstv. iðnrh. var viðstaddur og skýrði þá frá því að nefnd hefði verið að störfum. Formaður hennar hefði verið Stefán Guðmundsson. Í nefndinni voru einnig hv. þm. Sturla Böðvarsson og sömuleiðis Tryggvi Gunnarsson lögfræðingur og Páll Gunnar Pálsson lögfræðingur. Og hæstv. ráðherra iðnaðarmála sagði þá í þinginu að hann gerði ráð fyrir því að málið kæmist fyrir þingið fljótlega, en þessi umræða fór fram eins og ég sagði áðan 29. október.

[18:15]

Eins og hv. 4. þm. Vestf. nefndi áðan, eru þessi mál ekki komin fram enn þá en ég held að ég ljóstri ekki upp neinu leyndarmáli þó ég láti það koma fram að ég hef spurnir af því að frumvörp eða frumvarpsdrög liggi fyrir og að á einhverjum vettvangi stjórnarflokkanna geri menn núna að mér hefur skilist, en hér væntanlega enginn í salnum sem getur svarað fyrir það, ráð fyrir því að frumvörp um þessi efni verði sýnd á vorþinginu a.m.k. að því er ég best hef fregnað. Og ég vil láta það koma fram að ég mun kanna það í hv. iðnn. að fá þau frumvörp til meðferðar þannig að við getum farið yfir málin og áttað okkur á því á hverju strandar.

Fyrir utan þessa hagsmuni sem ég kalla þrönga landeigendahagsmuni sem hafa verið ótrúlega valdamiklir á Íslandi um áratuga skeið þó að það hafi heldur fjarað undan þeim í seinni tíð, þá hafa tiltölulega þröng einkaeignarviðhorf ráðið því að menn hafa ekki verið tilbúnir til þess að taka þessi mál í gegn og gera þau að lögum, afar þröng einkaeignarréttarleg viðhorf og mér liggur við að segja ofstækisleg túlkun á einkaeignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar í þessu efni, túlkun sem í raun og veru stríðir gegn t.d. greinargerðum Ólafs Lárussonar prófessors, Ólafs Jóhannessonar prófessors og Bjarna Benediktssonar prófessors sem allir hafa fjallað um þessi mál og síðast gegn sjónarmiðum t.d. Gauks Jörundssonar, fyrrv. prófessors og umboðsmanns Alþingis. En ég hygg að hann komist einna skýrast að orði í stuttu máli í þessu efni eins og oft ella því að þar er glöggur maður á ferð, því að hann segir svo í áliti sem hann skrifaði um eignarnámsákvæði stjórnarskrárinnar og setningu löggjafar er lýsir réttindi til virkjunar vatna í ríkiseign., 14. janúar 1980, með leyfi forseta:

,,Miðað við ofangreindar forsendur varðandi réttstöðu landa í afréttareign er 67. gr. stjórnarskrárinnar ekki því til fyrirstöðu að í löggjöf sé því slegið skilmálalaust föstu að réttur til virkjunar vatns á slíkum löndum eða í almenningum sé þjóðar- eða ríkiseign. Hins vegar verður að telja ærna ástæðu til að kanna ýmis lögfræðileg vandamál sem þarna eru á ferðinni, m.a. það hvernig draga beri mörkin milli landa sem eru afréttarlönd og eignarlanda jarða í einstaklingseign.``

Það sem Gaukur Jörundsson nefnir þarna í seinni málsgreininni er kannski kjarni þess lögfræðilega vandamáls sem hér er um að ræða, þ.e. að skilgreina eins vel og hægt er annars vegar einkaeignarrétt á landi og hins vegar almenningseignarrétt. Út af fyrir sig er alveg hægt að halda því fram að hluti af deilunni hafi byggst á raunverulegum ástæðum, sem sagt þeim að menn hafa átt erfitt með að skilgreina þessi mörk því að það er flókið.

Ég vil síðan segja um þau frumvörp sem hér liggja fyrir að ég vil í fyrsta lagi þakka þingmönnum jafnaðarmanna fyrir að flytja frumvörpin. Mér finnst þetta vera góð frumvörp. Þau eru að mörgu leyti ólík þeim frumvörpum sem Alþb. hefur flutt, en í sjálfu sér efnislega má segja að þau séu í grófum dráttum eins. Það er ekki hægt að tala um að þarna sé um að ræða mjög verulegan grundvallarmun á málum að mínu mati og ég tel að það sé nánast að segja hrein handavinna að stilla þau saman þannig að út úr því kæmi eitt og sama þingskjalið.

Ég bendi á að í frv. Alþfl. og þingflokks jafnaðarmanna á þskj. 563 er t.d. tekið svo til orða í 3. gr., síðustu mgr., með leyfi forseta:

,,Önnur jarðefni sem kunna að finnast á yfirborði lands eða í jörðu, þar á meðal málmar, málmblendingar, kol, önnur en surtarbrandur, jarðolía og jarðgas, eru eign ríkisins nema það viðurkenni að réttur yfir þeim fylgi landareign, sbr. 30. gr.``

Hér er um að ræða alveg afdráttarlausa afstöðu og reyndar rétt að taka fram að frv. sem hér er á dagskrá tekur á jarðefnunum sérstaklega en okkar frv. fjallar eingöngu um jarðhitaréttindin og að því leytinu er frv. sem hér er til umræðu heldur víðtækara.

Í annan stað vil ég vekja athygli á 10. gr. frv. þeirra alþýðuflokksmanna sem hér var mælt fyrir áðan en þar segir svo í fyrri mgr., með leyfi hæstv. forseta:

,,Orka háhitasvæða hvar sem er á landinu tilheyrir ríkinu, ...``

Í 1. gr. frv. okkar alþýðubandalagsmanna um jarðhitaréttindi segir svo, með leyfi forseta:

,,Landareign hverri, sem háð er einkaeignarrétti, fylgir réttur til umráða og hagnýtingar jarðhita á og undir yfirborði hennar í allt að 100 metra dýpi.``

Í frv. því sem hér er á dagskrá er þetta öðruvísi skilgreint því þar segir í 2. gr. m.a.:

,,Jarðhitasvæði merkir í lögum þessum uppstreymissvæði frá rennsliskerfi heits grunnvatns í jörðu.

Háhitasvæði merkir í lögum þessum jarðhitasvæði þar sem jarðhiti með að minnsta kosti 200 gráðu hita á Celsíus finnst á innan við 1.000 metra dýpi.

Lághitasvæði merkir í lögum þessum jarðhitasvæði þar sem einungis jarðhiti með minna en 200 gráða hita á Celsíus finnst á innan við 1.000 metra dýpi.``

Og með fullri virðingu fyrir því frv. sem við alþýðubandalagsmenn höfum flutt hér alloft, þá finnst mér þessi skilgreining í því frv. sem hér er á dagskrá betri en í okkar frv. Hún er skýrari vegna þess að það er í raun og veru ekki viðhlítandi eftir því sem sérfróðir menn hafa tjáð mér að miða eingöngu við dýptina heldur eðlilegra að miða við hitastigið líka.

Það verður ekki sagt, herra forseti, að Alþfl. og Alþb. hafi alltaf átt samleið í gegnum tíðina. Satt að segja hefur verið býsna langt á milli þeirra oft og tíðum í mörgum málum. Flestir mundu byrja á því að nefna utanríkismál og ég get svo sem gert það, en svo einnig í ýmsum öðrum málum eins og t.d. í ýmsum þáttum efnahagsmála, t.d. varðandi það að nota markaðinn við efnahagsstjórnina og fleira og fleira þess háttar þar sem menn hafa haft og hafa sjálfsagt enn að einhverju leyti margvíslegar áherslur og greinir á um eitt og annað. Áherslur manna og tal alla vega, t.d. í atvinnumálum og umhverfismálum er ólíkt.

En mér finnst athyglisvert og umhugsunarvert að þessi mál sem hér eru til umræðu hafa legið þannig í gegnum tíðina að Alþfl. annars vegar og hins vegar Alþb. og þar áður Sósíalistaflokkurinn hafa alltaf náð saman í þessum málum, alltaf í gegnum tíðina. Það segir kannski dálitla sögu um þessa flokka og hvað þau viðhorf sem þeir standa fyrir hafa að sumu leyti átt erfitt uppdráttar, að þessi mál sem telja má sjálfsögð fyrirkomulagsatriði í þjóðfélaginu --- hér er ekki um að ræða einhverja róttæka byltingu á þjóðfélagsgerðinni. Hér er um að ræða svo að segja sjálfsögð fyrirkomulags\-atriði --- og er dálítið umhugsunarvert að þau skulu ekki hafa þokast lengra en það að verða á þessu þingi 1997, fjögur þingskjöl. Vonandi eru þó hlutirnir að þróast lengra núna vegna þeirrar þróunar sem er að verða í þessum efnum á Evrópska efnahagssvæðinu m.a. og kallar á það að við setjum lög í þessum efnum.

Mér finnst að í grófum dráttum sé hægt að tala um að samstaða sé meðal þjóðarinnar um mjög veigamikla þætti í þessum málum. Í fyrsta lagi tel ég að ágæt samstaða sé meðal þjóðarinnar um að auðlindir hafsins séu almennings\-seign eða þjóðareign. Ég held að ekki sé mikill ágreiningur um það. Það er kannski dálítill ágreiningur um það hvernig menn koma að málinu. Menn hafa þar pínulítið mismunandi sjónarmið. En ég held engum detti í hug að halda þannig á málum að opna fyrir það að menn slái einkaeignarrétti á tiltekinn hluta þorskstofnsins eða fiskimiðanna svo ég nefni dæmi þó að það væri auðvitað fræðilega hægt. En ég hef ekki heyrt tillögur um það hér í þinginu, ekki einu sinni frá áköfustu talsmönnum markaðsþjóðfélagsins eins og t.d. hv. 16. þm. Reykv. sem leggur oft margt gott til málanna eins og við þekkjum.

Í öðru lagi tel ég að það sé í grófum dráttum mjög víðtæk samstaða um það með þjóðinni að eðlilegt sé að það land sem einstaklingar eiga ekki sé í almannaeigu eða að almenningur eigi rétt á nýtingu þess lands. Um þetta held ég að sé ekki mikill ágreiningur.

Í þriðja lagi held ég að það sé, og það er í verki, samstaða um félagslega eign á auðlindum fallvatna. Engum dettur í hug, t.d. í sambandi við virkjunarmál sem við erum að ræða, við erum að ræða um Sultartangavirkjun, Fljótsdalsvirkjun, Blönduvirkjun o.s.frv., að reyna að koma aflinu sem í vatninu felst inn í einkaeignarréttarkerfið í þjóðfélaginu ef svo mætti segja. Ég held að ástæðurnar fyrir því séu tvær: Í fyrsta lagi að það er eða hefur aðeins verið ríkið sem getur eða hefur getað nýtt sér þessar auðlindir og að hér er um að ræða verðmæti sem eru til af því að við nýtum þau saman. Þau væru ekki verðmæti ef við ætluðum að nýta þau hvert fyrir sig vegna þess að það virkjar ekki hver íbúð fyrir sig í blokkinni eða raðhúsinu eða hvar það nú er.

Í fjórða lagi held ég að samstaða um að nýting auðlinda í jörðu sé verkefni af þessu tagi af sömu ástæðum og auðlindir fallvatnanna. Þá er ég bæði að tala um jarðhitann og ég er líka að tala um námurnar utan einkaeignarréttarmarkanna sem ég hef margoft gert að umtalsefni. Um þetta held ég að sé samstaða og ég verð að segja þess vegna að mér finnst það ekki bara spurning um pólitískt stríð heldur líka hálfgert sleifarlag að við skulum ekki fyrir löngu vera búin að fá lagasetningu um þessi grundvallaratriði svo mikilvæg sem þau eru.