Eignarhald á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 18:37:33 (4970)

1997-04-03 18:37:33# 121. lþ. 98.10 fundur 304. mál: #A eignarhald á auðlindum í jörðu# frv., 305. mál: #A virkjunarréttur vatnsfalla# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[18:37]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Það er út af fyrir sig rétt sem hv. þm. sagði síðast. Hins vegar höfum við náttúrlega heimild til þess sem hluti af stjórnarskrárgjafanum að flytja tillögur um að breyta stjórnarskránni þannig að það verður nú ekki frá okkur tekið svo lengi sem við erum hér.

Mér fannst ræða hv. þm. ágæt og bera vott um það að við viljum nálgast málin á þann hátt að við reynum að skilja hvern annan. Mér fannst satt að segja örla á því, sem mér finnst hafa komið dálítið fram í umræðu um þessi mál, að málin eins og þau eru eða í frv. okkar alþýðubandalagsmanna snúast ekki um að breyta í grundvallaratriðum. Þau snúast um að viðurkenna það sem hefur verið viðtekin venja, siður og réttur í landi okkar að því er varðar t.d. almenningana, að því er varðar þjóðlendur, að því er varðar námur, að því er varðar jarðhita og að því er varðar orku fallvatna. Það eina sem menn hafa verið að reyna að gera er að setja lög um þennan veruleika á grundvelli stjórnarskrárinnar. Mér finnst að mönnum hafi í raun og veru tekist að koma í veg fyrir eðlilega --- mér liggur við að segja tæknilega lagasetningu um þessi mál með þeim rökum að verið sé að ráðast að einkaeignarrétti þeirra sem þegar eiga eitthvað á þessu sviði. Þannig eru hlutirnir ekki.

Að því er varðar Nesjavalladæmið sem hv. þm. nefndi --- án þess að það sé mitt hlutverk að svara fyrir það --- þá vísa ég honum á að lesa saman 7., 10., 11. og 30. gr. í frv. jafnaðarmanna. Þar er algerlega tekið á slíku máli.

Varðandi það að ég hafi verið að gagnrýna hæstv. félmrh. þá var ég ekkert að segja honum það til hnjóðs. Ég tel að hann hafi verið sterkastur allra manna í að halda fram þessum hagsmunum sem ég tel þrönga landeigendahagsmuni. Sem betur fer sýnist mér að þau viðhorf séu heldur á undanhaldi.