Eignarhald á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 19:11:53 (4977)

1997-04-03 19:11:53# 121. lþ. 98.10 fundur 304. mál: #A eignarhald á auðlindum í jörðu# frv., 305. mál: #A virkjunarréttur vatnsfalla# frv., ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[19:11]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að ég tel að einkaeignarrétturinn sé það sem sé farsælast fyrir okkur í þessum efnum og það sé varhugavert að bregða út frá honum í eins mikilvægum málum og hér er um að ræða. Um leið og við erum farnir að bregða út frá honum í einu atriði eða tveimur eða þremur, þá sé alltaf hættan á því að við höldum áfram og þá vitum við alls ekki hvar við endum.

Varðandi það sem hv. þm. sagði um dóma Hæstaréttar og þegar Hæstiréttur vísaði því til Alþingis að það vantaði lagasetningu um það hvernig ætti að úrskurða um eignarhald á tilteknum landsvæðum, þá er ég í tvígang í þessari umræðu búinn að vara við því að rugla þeirri umræðu, hinni svokölluðu þjóðlendnaumræðu, saman við þá umræðu sem hér fer fram. Ég held að það sé alls ekki um sömu atriðin að ræða.

Varðandi síðan þriðja atriðið sem hv. þm. nefndi, eignarnámsbæturnar, þá lýsti ég því fyrr í dag í umræðunni að hvað varðar nýtingu á jarðhita og jarðvarma þá hafa þær greiðslur sem hafa farið til landeigenda sem voru áður eigendur að þeim svæðum sem keypt voru til þess að nýta sérstaklega í þessum tilgangi, verið afar, afar lágt hlutfall af heildarkostnaði við það að nýta orkuna, mjög lágt hlutfall og ekki til þess fallið að hafa stórkostlegar áhyggjur af því út frá verði á þjónustunni til almennings. Ég held að út frá því sjónarmiði þurfi ekki að hafa stórkostlegar áhyggjur af því ef ríkið telur sig þurfa að taka einhver svona verðmæti eignarnámi, að eignarnámsbæturnar verði einhverjar himinháar upphæðir sem ekki sé hægt að reiða af hendi ef nauðsyn krefur.