Framleiðsla og sala á búvörum

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 11:51:38 (5005)

1997-04-04 11:51:38# 121. lþ. 99.10 fundur 479. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (verðskerðingargjöld) frv., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[11:51]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram um frv. og um málefni landbúnaðarins en vík mér út af fyrir sig undan þessum sérstöku sameiningarumræðum sem hafa farið hér fram milli Alþb. og jafnaðarmannaflokksins hvort sem hann er nú íslenskur eða alþjóðlegur. Það hefur út af fyrir sig verið gaman að hlýða á það og sýnir hvað fram undan er í þeirri hjónasæng sem mönnum er sagt frá að sé e.t.v. að verða til.

Aðeins örfá orð um það sem hefur komið fram hér og kannski verið beint til mín eða mér finnst ástæða til þess að gera að umræðuefni. Ég vil fyrst segja út af ummælum hv. þm. Ágústs Einarssonar að það er út af fyrir sig rétt að þau frumvörp sem hér eru lögð fram núna á sviði landbúnaðarmála eru seint fram komin. Það er mál sem sjálfsagt er að taka til skoðunar og ég hef a.m.k. getað verið búinn að sýna sum þessi frv. í þinginu áður. Hins vegar hefur verið viðhaldið þeirri venju að búnaðarþing fjalli um ýmis þessi mál sem er auðvitað eðlilegt, að búnaðarþing fjalli um stefnumótun í landbúnaði því að þetta er æðsta þing þessarar atvinnugreinar og fer þá yfir málin. Sum þessi frumvörp hafa ekki orðið til beinlínis þar þó að þetta frv. sem við erum að tala um megi rekja til ályktana þingsins. Ég vil aðeins leiðrétta það, ef skilja mátti orð hv. þm. svo, að þetta frv. hafi fyrst verið sent búnaðarþinginu og fengið sinn stimpil þar. Þetta frv. varð til eftir þingið samkvæmt beiðni um að tekið verði á þessum málum. Þá er þetta spurning um hvort frumkvæðið hefði átt að koma frá ráðuneytinu eða landbrh. sem má auðvitað segja því að þarna hefur orðið gjörbreyting á varðandi byggðavandann og þann þátt sem verið er að fjalla um sérstaklega í þessu frv.

Út af því sem almennt hefur verið sagt hér um stöðu landbúnaðarins þá er það rétt að hægt hefði verið í sambandi við þessi frumvörp, sem fjalla á einn eða annan hátt um landbúnaðarmál, að fara mörgum orðum um stöðu landbúnaðarins í heildina og ræða ástandið þar og hvað er hægt að gera til úrbóta. Ég vil leyfa mér að fullyrða að ýmislegt sem við erum að gera nú í landbrn. og kemur fram í sumum þessum frumvörpum eru umtalsverðar endurbætur og úrbætur á ríkjandi kerfi sem er ástæða til að framkvæma hverju sinni, að reyna að laga það sem betur má fara. Það er e.t.v. rétt að segja að í þessu felist ekki róttækar kerfisbreytingar en það hafa farið fram mjög róttækar kerfisbreytingar í landbúnaðinum á undanförnum árum eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon rakti hér og þarf svo sem ekki að ítreka. Það er hægt að taka undir að þar hafa farið fram mjög miklar og róttækar breytingar og þó að menn hafi með þeim breytingum talið að verið væri að stíga skref sem ættu að færa landbúnaðinn til nýrri tíma og taka mið af breyttum aðstæðum, þá hafa þó sumir þessir samningar og þær aðgerðir haft alvarleg áhrif. Þ.e. að hluti af þeim vanda sem landbúnaðurinn stendur nú frammi fyrir, hrikalegar aðstæður, fátækt og að ekki sé nýliðun í greininni stafar sumpart af því að þegar búvörusamningurinn 1991 var gerður og stórlega dregið úr ríkisstuðningi við þessa atvinnugrein þá fylgdi ekki sumt annað eftir eins og menn álitu að mundi fylgja samningnum. Það urðu í fyrsta lagi miklu meiri neyslubreytingar en forsendur samningsins gerðu ráð fyrir sem hafa áhrif á umtalsvert tekjutap í bændastétt og síðan urðu ekki heldur þær breytingar sem menn áttu von á varðandi búsetuna. Það var gert ráð fyrir því að framleiðendum fækkaði og það drægi meira úr framleiðslunni á þann hátt og færðist til, þ.e. að búin stækkuðu, heldur en raun varð á. Það stafaði sumpart af öðrum ástæðum í þjóðfélaginu. Það stafaði af því að atvinnuástand og efnahagsástand í þjóðfélaginu var öðruvísi á seinustu árum heldur en menn höfðu búist við þegar samningurinn var gerður og hafði líka umtalsverð áhrif á þróun í landbúnaði.

Þess vegna undrast ég svolítið, þó að ég sé ekki að gera lítið úr því að auðvitað er alvarlegt ef það viðhorf sem kemur fram í ítarlegri skoðanakönnun, sem hér hefur verið minnt á og fram fór af hálfu nefndar sem starfaði á vegum landbrn., að fjöldi bænda, kannski upp undir fjórðungur, telur að ekki verði áfram búskapur á viðkomandi jörðum þegar fullorðnir bændur hætta störfum. Ég er dálítið undrandi á því hvað hv. þm. Ágúst Einarsson hefur miklar áhyggjur af því máli.

Ég get út af fyrir sig sagt að það er ekki fagnaðarefni að jarðirnar leggist í eyði eða búskapur hætti af þessari ástæðu. En ég er þeirrar skoðunar, og ég segi aftur, að ég tel að það hafi verið hluti af undirtóni varðandi búvörusamninginn þegar hann var gerður. Menn gerðu ráð fyrir því að bændum fækkaði, það yrðu færri jarðir í ábúð en þær kannski stækkuðu og styrktust sem eftir yrðu. Þetta er ferli sem þarna er í gangi og þarf út af fyrir sig ekkert að undrast þó að það haldi áfram. Það hefur verið að gerast og það heldur áfram.

Ég vil svo aðeins út af því sem kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni segja frá því að nú er í gangi í ráðuneytinu ítarleg vinna í sambandi við búvörusamninginn en hans tími er senn á enda runninn. Frá því á síðari hluta seinasta árs eru í gangi störf svokallaðrar sjömannanefndar. Að vísu er það ekki fullskipuð nefnd, það höfum við rakið hér áður og rætt og ég eyði ekki tíma í að tala frekar um það. Þar er í gangi stefnumótunarvinna, þar er í gangi ítarleg skoðun á aðstæðum íslensks landbúnaðar í samanburði við aðstæður í öðrum löndum og rétt að minna á það sem hv. þm. benti á að það eru gríðarlegir ríkisstyrkir til landbúnaðar í löndunum í kringum okkur. Menn tala alltaf um að íslenskur landbúnaður sé allt öðruvísi og rekinn á allt öðrum forsendum og með allt öðrum stuðningi hins opinbera en gert er annars staðar. Þetta er rangt og það er í skoðun hjá okkur þannig að þær upplýsingar eiga að liggja fyrir. Eftir umræðuna í vetur sem varð í þjóðfélaginu um stöðu landbúnaðar og fátækt hjá miklum fjölda bænda hef ég líka sett á laggirnar sérstaka nefnd til þess að fara yfir þau mál. Nefndin er skipuð fulltrúum þriggja ráðuneyta og bændasamtakanna, enda er henni fyrst og fremst ætlað á þessu stigi að safna saman upplýsingum, m.a. að gera grein fyrir þróun í afkomu bænda á undanförnum árum í samanburði við þróun í öðrum atvinnugreinum þannig að fyrir liggi samanburður á því hvernig opinber stuðningur hefur breyst við landbúnaðinn. Nú ætti nefndin að fara yfir hvernig hugsanlega er hægt að skoða annan félagslegan stuðning við greinina. Þar er t.d talað um, svo að eitthvað sé nefnt, skólagöngu ungmenna úr dreifbýli sem er mikill kostnaður fyrir t.d. bændur og sveitafólkið og ýmsir slíkir þættir sem eru til athugunar í þessari nefnd. Hins vegar hefur einnig verið rætt um að setja á laggirnar langtíma stefnumótun og það er kannski sú tillaga sem hv. þm. var að beina til mín. Ég vil þá segja honum og öðrum hv. þm. í leiðinni að slík vinna er í undirbúningi og þá mundi ég hugsa mér að það væri gert á breiðari grunni en einstakar nefndir sem starfa á vegum stjórnvalda eins og sú nefnd sem ég nefndi áðan, en ráðuneytin sem eiga aðild að þeirri nefnd auk landbrn. eru félmrn. og forsrn. Það mætti hugsa sér stefnumótunarnefnd til lengri tíma þar sem kæmu að fulltrúar allra stjórnmálaflokka og hinna ýmsu viðhorfa sem uppi kunna að vera innan atvinnugreinarinnar og utan og málið yrði allt skoðað í víðara samhengi en gert hefur verið.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon beindi til mín spurningu um hugsanlega endurskoðun á þeirri aðferð sem nú er viðhöfð vegna útflutningsskyldunnar. Það er rétt hjá honum að segja má að í þeim samningi sem við gerðum síðast sé sérkennileg blanda en við erum þó að reyna með þessu að forðast að aftur verði til óleysanlegur birgðavandi innan lands. Ég held að það sé, eins og fram kom hjá hv. þm. Ágústi Einarssyni, svo ég grípi aðeins ofan í hans ræðu aftur, sérstakt fagnaðarefni að tekist hefur að leysa þennan birgðavanda sem blasti við fyrir ári síðan. Það skapar landbúnaðinum, allt aðrar markaðsaðstæður. Það skapar okkur allt aðrar aðstæður við að markaðssetja lambakjötið undir allt öðrum formerkjum heldur en þegar verið er að reyna að losna við birgðavanda og efna til árlegrar útsölu á þessum matvælum. Það dugar ekki. Þess vegna höfum við allt aðra stöðu en við megum ekki missa málið aftur í þann farveg. Þess vegna þurfum við að huga ítarlega að því hvernig þessari útflutningsskyldu er háttað. Hlutfallið sem ákveðið var á seinasta hausti hefur e.t.v. verið nokkuð of hátt, m.a. vegna þess sem ég rakti í framsöguræðu minni áðan, að framleiðslan varð nokkru minni á sl. hausti en ráð hafði verið fyrir gert. Það er því a.m.k. sjálfsagt og eðlilegt að þeirri útflutningsprósentu verði eitthvað breytt við endurskoðun. Hitt er óleyst, sem hv. þm. nefndi, að allir taka þátt í útflutningsskyldunni, bæði þeir sem framleiða mikið og þeir sem framleiða lítið utan þó þá bændur sem gera um það sérstakan samning að losa sig við útflutningsskylduna því að það er líka hægt. Ég vil minna hv. þm. og þingheim á þann þátt í búvörusamningnum að hægt er að gera slíkan samning einnig, en aðalmálið er þó að missa ekki aftur hlutina í þann farveg að við sitjum uppi með óleystan birgðavanda. Það vona ég að komi ekki til. Ef við finnum hins vegar aðrar aðferðir til þess að takast á við þetta útflutningsmál er sjálfsagt að skoða það.

Ég hef því miður ekki upplýsingar handa hv. þm. um ásetningsbreytinguna, hvort hún var, ég hef það ekki hér hjá mér. Þær má senda hv. landbn. þegar hún fer að vinna úr þessu máli og öðrum skyldum til þess að það liggi fyrir.

Allra seinast varðandi þann samanburð sem hv. þm. Ágúst Einarsson gerði í andsvari um verð á landbúnaðarafurðum sem sé miklu hærra hér heldur en gerist í ESB-löndunum. Þar um að ræða meðaltal og ég minni hv. þm. á að ef tekin eru lönd í kringum okkur þá er ekki 35% hærra verð á vörum hér heldur en er í kringum okkur. Það er að vísu misjafnt en stundum er það ekki eins og hér er nefnt og ástæða til að minna á það líka að verð á landbúnaðarafurðum hefur á undanförnum árum ekki hækkað hér á landi neitt í samræmi við almennar verðlagshækkanir. Þær hafa verið að lækka mjög og hafa bændur tekið þátt í því að halda stöðugleika í verðlagi og halda niðri vöruverði meira en ýmsir aðrir aðilar og lagt sitt af mörkum. Það er auðvitað hluti af því hvernig staðan er í íslenskum landbúnaði um þessar mundir, því tekjufalli sem orðið hefur í landbúnaði. Vöruverð á íslenskum landbúnaðarafurðum hefur stórlækkað á undanförnum árum ef tekið er mið af almennri verðlagsþróun.