Slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 16:49:47 (5056)

1997-04-04 16:49:47# 121. lþ. 99.23 fundur 482. mál: #A slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[16:49]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fékk nú satt að segja engan botn í þetta andsvar og skildi ekki tilgang þess að hv. þm. kom hér upp. Hann þurfti ekkert að flytja neinn samandreginn fyrirlestur fyrir mig um fyrirkomulag tryggingamála, ég kann það. En af því að hann vakti máls á þeim þætti sérstaklega hvernig ætti að skipta reytunum þegar um breytingar væri að ræða á rekstri tiltekinna fyrirtækja, ríkisfyrirtækja, einkafyrirtækja, opinberra fyrirtækja og samvinnufyrirtækja, hvernig væri best að gera það, þá er kannski best að hann svari mér, af því að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson gerði það ekki í andsvari áðan, hann gerir það kannski í lokaræðu, hvort við eigum ekki að láta það sama gilda, þótt ekki sé beinlínis um gagnkvæmt þjónustufyrirtæki að ræða, um Póst og síma þegar hv. þm. ýtir á græna takkann og ætlar að selja hlutina þaðan? Er ekki alveg sjálfgefið að menn vindi sér í það að senda mönnum hlutabréf upp á nokkra fiska í sjónum? Er ekki hægt að fara að vinda sér í þessi mál, hv. þm.? Eða gildir þetta bara um tiltekin félög sem sérstaklega fara fyrir brjóstið á tilteknum hópum í þinginu?

Það er ekkert launungarmál, eins og getið var um í upphafi máls, að þetta frv. stóð dálítið í þeim sjálfstæðismönnum. Það var ekki eingöngu fjmrh. sem vildi sölsa þetta undir sig og gera þetta að ríkiseign. Það voru margir aðrir sem fannst sveitarfélögin ekkert hafa við þetta að gera þótt allir þekktu vel söguna á þeim nánu tengslum sem voru milli sveitarfélaganna og félagsins. Kannski eru menn núna að hefna þess sem ekki tókst árið 1994. Ég veit það ekki. Mér dettur það svona í hug. En þá var hins vegar hæstv. núv. og þáv. fjmrh. illa fjarri góðu gamni en hann er kannski viðhlægjandi í málinu.