Slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 17:35:11 (5062)

1997-04-04 17:35:11# 121. lþ. 99.23 fundur 482. mál: #A slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands# frv., Flm. EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[17:35]

Flm. (Einar Oddur Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt sem kom fram hjá hv. þm. Sturlu Böðvarssyni að þegar þetta frv. um breytingar á lögum nr. 68/1994 var rætt í þinginu þá kom það mjög skýrt fram, og má lesa um það í þingtíðindum, að hann vildi koma hlutunum þannig fyrir að sveitarfélögunum væri afhent þetta og það færi ekkert á milli mála að þau ættu þetta. Það má lesa um það. En eins og hann sagði frá sjálfur rétt áðan, herra forseti, var það ekki einfalt mál. Það er líka rétt hjá honum. Það var svo flókið mál vegna þess að öll lögfræðilegu álitin sem þeir voru með voru eindregin um það, því miður. Sveitarfélögin áttu bara ekki þetta félag og þess vegna var ekki hægt að flytja frv. í þá veru eins og óskir hv. þm. Sturlu Böðvarssonar gengu til. Svo sorglegt var það nú eða hitt þó heldur, hvernig sem menn líta á það.

Það er líka vitað mál að hæstv. fjmrh. vildi endilega hafa þetta þannig að ríkissjóður eignaðist þetta en það var jafnsorglegt hjá honum. Öll lögfræðiálitin gengu í þá veru að ríkið ætti þetta alls ekki. Þessir ágætu herrar sátu bara uppi með þetta og þess vegna var það sem frv. var flutt og lögin eru svona úr garði gerð að það er nákvæmlega tilgreint hverjir eiga þetta. Ég get vottað honum og öllum sem vildu hafa þetta öðruvísi mína innilegu samúð, en menn urðu að fara að lögum og þess vegna var þetta gert svona.