Lánasjóður íslenskra námsmanna

Mánudaginn 14. apríl 1997, kl. 16:55:24 (5111)

1997-04-14 16:55:24# 121. lþ. 101.3 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur

[16:55]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. félmrh. var að skora á mig í reikningskeppni og ég er alveg sannfærð um að við hæstv. félmrh. erum bæði jafnfær um að draga 4,75 frá 7, en það eru bara ekki þær tölur sem við er að glíma hér. Það var enginn farinn að borga 7% og það var alltaf vitað að enginn kæmi til með að borga það því það gat ekki gengið inni í kerfinu, sú stærð fékk ekki staðist.

Við getum farið í endalausar reikningskúnstir og það er hægt að setja upp flókin dæmi um hversu mikið ríkissjóður þurfi að láta út vegna þess að hann hættir við að rukka 7% eins og einhvern tíma var sett í frv. af vanhugsuðu máli. En ég verð að segja að það kemur mér á óvart og eru mér mikil vonbrigði að hæstv. félmrh. skuli vera svona ánægður með frv. Og þegar hann talar um að kostnaðurinn verði greiddur --- ég vildi bara óska að ég gæti séð út úr þessu frv. hvernig kostnaðurinn verður örugglega greiddur (Félmrh.: Lestu frv.) því þarna stendur hvergi hvaða vexti er verið að tala um.