Lánasjóður íslenskra námsmanna

Mánudaginn 14. apríl 1997, kl. 18:46:18 (5132)

1997-04-14 18:46:18# 121. lþ. 101.3 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur

[18:46]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér hefur orðið á í messunni. Ég talaði bara um tvö andlit Framsfl. en það er eitthvað að eyrunum líka. Ég er sannarlega ábyrg. Ég var talsmaður míns flokks og ég var sú sem fór í samningana við Sjálfstfl. á sínum tíma. Ég ætla ekki hér í andsvari að rifja þau mál upp. Ýmsu var breytt, ekki öllu því sem ég hefði kosið. Það kom fram í ræðum mínum. Þær eru allar til á bók og ég er með þetta á borðinu hjá mér. Þegar við höldum þessari umræðu áfram skal ég sannarlega fara í það. Ég er með engan geislabaug. Ég hef þurft að fara í erfið mál, bæði í stjórnarsamstarfi og annars staðar þar sem ég hef unnið. Ég hef alltaf staðið við það sem ég hef gert og horft framan í fólk fyrir það.

Ég var ekki að lofa einhverju hér. Ég benti á hvað hefði komið fram í málflutningi flokkanna fyrir kosningar. Ég er að draga það fram sem er staðreynd hér, hvað Framsfl. sagði, hvaða hávaða hann var með í þessum sal, hvert loforðagjálfrið var og hverjar efndirnar eru. Ég er að tala um Framsfl., ég er ekki að tala um Alþfl. enda er hann með engin völd núna og er alls ekki með nein áhrif til þess að breyta því sem Framsfl. lofaði og taldi öllum trú um að hann mundi gera. Virðulegi forseti. Ég er aðeins að draga fram ásýnd Framsfl. Sjálf er ég mjög meðvituð um ásýnd míns flokks.