Lánasjóður íslenskra námsmanna

Mánudaginn 14. apríl 1997, kl. 18:55:46 (5138)

1997-04-14 18:55:46# 121. lþ. 101.3 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., RG (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur

[18:55]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka forseta fyrir að gefa mér tækifæri til að bera af mér þær sakir að ég hafi smíðað það frv. sem var undanfari þeirra laga sem hér er verið að fjalla um.

Vissulega ætti ég ekki að þurfa að bera af mér sakir við að hafa smíðað slíkt frv. þótt svo hefði verið þar sem hæstv. félmrh. hefur lýst því margsinnis yfir að lögin séu afar góð.

Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram að ég kom ekki nálægt þessari frumvarpssmíð né þekkti ég innihald frv. Þessu frv. var ekki vel tekið af Alþfl. og ég var mjög ósátt við það. Ég var í menntmn. og ég var stjórnarliði og ég fór í samvinnu við félaga mína í menntmn. að skoða hvaða samstöðu væri hægt að ná um breytingar. Þær breytingar voru reyndar verulegar og ég get vísað ráðherranum á þingtíðindi frá 29. apríl 1992. Hins vegar náðust ekki fram nokkur veigamikil atriði sem voru mér mjög mikil vonbrigði og getur hann þess vegna rætt um við það sessunaut sinn sem var með mér í þessari nefnd.

Hitt er annað mál og verður ævinlega svo að þau lög sem voru sett og þau lög sem ég stóð að standa þar á mína ábyrgð eins og annarra. Mér líkar það ekki, virðulegi forseti, þegar snúið er út úr orðum mínum, sérstaklega ekki þegar ég hef talað svo skýrt sem ég hef gert hér í dag.