Stefnumótun í menntunarmálum í landbúnaði

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 16:14:32 (5176)

1997-04-15 16:14:32# 121. lþ. 102.4 fundur 377. mál: #A stefnumótun í menntunarmálum í landbúnaði# þál., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[16:14]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (and\-svar):

Hæstv. forseti. Aðeins til að upplýsa að það viðhorf til sérskólanna sem hv. þm. gerði að umtalsefni var nokkuð annað þegar ég var að fjalla um málefni sérskóla sem féllu undir heilbrrn. á sínum tíma. Þá hygg ég að hafi verið nokkuð góð samstaða um það og var álit manna að sá tilflutningur væri eðlilegur og þeir skólar féllu betur að menntakerfinu. Það viðhorf var ekki í andstöðu við sérskólana þá. Ég er heldur ekki að segja að sú umræða sem átti sér stað í ráðuneytinu fyrir þremur eða fjórum missirum, eða um það bil sem ég kom í ráðuneytið bæði þar áður og skömmu eftir, hafi verið beinlínis andstaða forsvarsmanna þessara skóla við það að færa stjórnsýsluna til heldur það eindregna viðhorf þeirra að henni væri betur komið með þessum hætti vegna tengsla við atvinnugreinina. Það er engin andstaða hjá forsvarsmönnum þessara skóla að við leitum allra leiða til að tengja þá betur menntakerfinu hvað varðar námsbrautir, hvað það varðar að menn lokist ekki í blindgötum heldur eigi aðgang að öðrum skólum hvort heldur er úr öðrum skólum í bændaskólana eða úr bændaskólunum inn á önnur skólastig. Ég undirstrika aftur þann áhuga minn sem ég hef lýst áður að tengja þá betur við háskólastigið í landinu að öðru leyti heldur en ég tel að sé í dag.