Lánasjóður íslenskra námsmanna

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 17:38:19 (5190)

1997-04-15 17:38:19# 121. lþ. 102.8 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., BH
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[17:38]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að óska hæstv. menntmrh. og ríkisstjórninni til hamingju með að hafa loksins getað komið þessu vandamálabarni sínu í frumvarpsbúning því að það leit hreinlega út fyrir það á tímabili að tillögur ríkisstjórnarinnar í lánasjóðsmálinu yrðu það snúnar að það væri alls ekki unnt að koma þeim í lagabúning. En hingað er málið þó a.m.k. komið og ég fagna því í sjálfu sér.

Það væri að bera í bakkafullan lækinn að rifja raunasögu þessa máls upp í þingsölum. Það hefur verið margoft gert af þeim sem hér hafa talað áður af hálfu stjórnarandstöðunnar. En hin fallegu loforð ríkisstjórnarinnar um að rétta hlut námsmanna hafa smám saman þynnst út í orðhengilshætti og útúrsnúningum. Jafnóðum hefur það runnið upp fyrir kjósendum og landsmönnum öllum að ríkisstjórnarflokkarnir hafa átt í miklum erfiðleikum með að standa við loforðin sín stóru.

Það sem einn ráðherra vill kalla samtímagreiðslur vill annar kalla einhverju öðru nafni. Svo virðist sem þetta hugtak hafi staðið hraustlega í a.m.k. sumum ráðherrum Sjálfstfl. og hæstv. forsrh. fór aðspurður um þetta að tala um ,,einhvers konar samtímagreiðslur með einum eða öðrum hætti``, eins og hann tók til orða í viðtali í desember sl. Hæstv. ráðherrar hafa reglulega verið spurðir að því í þingsölum allt frá því á haustdögum hvort breytinganna á LÍN-lögunum væri að vænta á næstunni og þá hvers eðlis þær yrðu. Hæstv. menntmrh. var margspurður um starf endurskoðunarnefndarinnar og hvaða tillögur hefðu verið ræddar þar. Hann gat ekki svarað því mjög skýrlega, enda kannski ekki von þar sem þetta fæddist sem við sjáum hér og er kannski svolítið öðruvísi en það sem var lofað á sínum tíma, einkum og sér í lagi af hálfu Framsfl. eins og margtíundað hefur verið úr þessum ræðustól.

En þó hæstv. menntmrh. hafi staðið í ströngu vegna þessa máls, þá verður þó að votta honum það til virðingar að hann hefur verið sjálfum sér samkvæmur í sínum málflutningi. Hann hefur aldrei farið í grafgötur með það að hann er á móti því að teknar verði upp samtímagreiðslur námslána. Hann féll ekki í sömu freistingu og framsóknarmenn gerðu fyrir síðustu kosningar, að lofa námsmönnum gulli og grænum skógum bara ef framsóknarmenn kæmust til valda. Þeir þingmenn sem hér hafa talað af hálfu stjórnarandstöðu hafa rakið ítarlega þessi loforð framsóknarmannanna um málefni lánasjóðsins og reyndar heyrðum við hæstv. félmrh. í gær, í fyrri hluta þessarar umræðu, túlka á sinn hátt hvernig hann telur efndirnar hafa orðið. Og það verður að segjast eins og er að það er svolítið annar tónn í honum og mörgum öðrum þingmönnum Framsfl. en var fyrir kosningar og svona framan af þessari baráttu við Sjálfstfl. um lánasjóðinn. En nóg um framsóknarmennsku og svikin kosningaloforð. Sá flokkur mun þurfa að standa skil á sínum gjörðum fyrir kjósendum innan skamms og þeir munu kveða upp sinn dóm.

Ef við snúum okkur að efni frv. þá eru það í fyrsta lagi samtímagreiðslurnar, en þrátt fyrir loforðin hafa þær ekki verið teknar upp hér. Það er alveg sama hversu oft hæstv. félmrh. segir úr ræðustóli að hér séu teknar upp samtímagreiðslur. Þetta eru ekki samtímagreiðslur.

Það er líka alveg sama hversu oft hæstv. félmrh. --- ég harma það nú að hann skuli ekki vera hér. Hann tók hraustlega þátt í umræðunni í gær og þess vegna beini ég kannski máli mínu til hans í mörgum atriðum --- segir að með þessari leið sem hér er farin sé verið að þjóna námsmönnum fyrst og fremst og að námsmenn vilji þetta og þeir vilji hafa þetta svona. En ég er ekki viss um að það sé rétt hjá honum. Ég er hins vegar viss um að námsmenn telja hér vera stigið skref í rétta átt frá því skelfilega fyrirkomulagi sem var með lögunum frá 1992. Um það held ég að enginn efist. En það er ekki þar með sagt að loforðin sem Framsfl. hafði á lofti fyrir kosningar hafi verið efnd, þau hafa ekki verið nefnd með þessu frv.

Það má líka benda á grein sem nýkjörinn formaður stúdentaráðs skrifar í Morgunblaðið í dag þar sem hann einmitt dregur þetta fram. Hann dregur það fram að breytingarnar á lögunum um LÍN séu skref í rétta átt en að ýmislegt sé eftir. Hann segir það t.d. alveg skýrt og skorinort að námsmenn hefðu miklu fremur viljað sjá samtímagreiðslur vegna þess að það sem hér er lagt til er ekki það sama og samtímagreiðslur, hvað sem hver segir. Það er staðfest a.m.k. af hans hálfu og ég ímynda mér að fleiri námsmenn séu á svipaðri skoðun.

Það er þetta með bankana og þeirra þátt í málinu. Bönkunum er ætlað að sinna þessum greiðslum en teknir eru upp styrkir, svokallaðir vaxtastyrkir, sem ætlaðir eru til að bæta nemum fjármagnskostnað vegna framfærslu í samræmi við rétt þeirra til námslána á hverjum tíma. Ég vil taka undir þær efasemdir sem hér hafa komið fram um óskýrleika frv. að þessu leyti vegna þess að þar er ekki skýrt hvernig nemum verður bættur þessi fjármagnskostnaður og eins og margrakið var í umræðunum í gær, þarf ekki annað en skoða álit fjmrn. á því hvað þetta muni kosta. Það er mjög óljóst hvernig þetta verður útfært þegar þar að kemur. Það verður að segjast eins og er að þó það sé vissulega ánægjuefni að nú eigi loksins að bæta námsmönnum algerlega óþarfan fjármagnskostnað vegna bankaþjónustunnar, sem ég vil segja algerlega óþarfan, þá hef ég ekki heyrt enn þá færð nægilega sterk rök fyrir því, ekki rök sem sannfæra mig a.m.k. í þessari umræðu eða í frv., hvers vegna mönnum er svona mikið kappsmál að láta bankana sjá um þessa fyrirgreiðslu á þann hátt sem lagt er til í frv. Ég hef ekki enn þá séð skýr rök fyrir því. Hvaða rök eru betri en að sjóðurinn greiði þetta samtímis eða jafnóðum til nemenda?

[17:45]

Sú leið er farin að greiða vaxtastyrk, kostnaðurinn vegna þjónustunnar lendir því á lánasjóðnum sem vissulega er betra en það fyrirkomulag sem fyrir var að mínu mati vegna þess að námsmenn sitja a.m.k. ekki uppi með þennan kostnað. En ég sé ekki samt sem áður alveg rökin fyrir því að nauðsynlegt sé að leggja þennan kostnað á sjóðinn ef hægt hefði verið að fara út í samtímagreiðslurnar. Ég hef ekki enn þá heyrt sannfærandi rök fyrir því. Það má vel vera að þau hafi farið fram hjá mér einhvers staðar í umræðunni en þau hef ég ekki heyrt og get þess vegna ekki séð nein skynsamleg rök fyrir þessu fyrirkomulagi eins og það er lagt til í frv.

Heilmikið hefur verið rætt um endurgreiðslubyrðina og mörg orð verið höfð um hana. Hún er lækkuð lítillega, segi ég, vegna þess að þó að margir hafi bent á að gert hafi verið ráð fyrir 7% þá er 5% endurgreiðslubyrðin það sem námsmenn hafa verið að sligast undan. Það er það sem allt hefur miðast við þegar verið er að ræða vanda námsmanna, um það að námsmenn geti ekki séð fram á að kaupa sér húsnæði og eigi mjög erfitt með að greiða af sínum lánum, þá erum við að tala um 5% endurgreiðslubyrði þannig að ég sé ekkert óeðlilegt við að miða við það. Við erum að tala um það hversu mikið við léttum á endurgreiðslubyrði námsmanna frá því sem hún er í dag, það eru 0,25%, þó að svona formlega séð megi segja að verið sé að lækka hana úr 7%. Mér finnst það bara óraunhæft. Það á að tala um þetta eins og þetta er. Og miðað við hvaða umræða hefur verið í gangi um stöðu fjárhagslega stöðu námsmanna þegar þeir fara að greiða af námslánum þá erum við að tala um 5%.

Það hefur líka verið talað um það að í raun og veru hljóti endurskoðunin á lögunum um LÍN að snúast um það að í fyrsta lagi geri þjóðfélagið það álitlegt fyrir ungt fólk að fara í nám þannig að það geti með reisn, eins og aðrir þjóðfélagsþegnar, síðan keypt sér húsnæði og komið sér þaki yfir höfuðið að loknu námi. Þetta snýst um það að þetta fólk ráði fjárhagslega við endurgreiðslubyrðina. Svo hefur ekki verið með 5%, 0,25% frá því er vissulega skref í rétta átt en ekki nægilega stórt skref, vil ég meina.

Allir eru sammála um að sýna eigi ábyrgð og ábyrga efnahagsstefnu. Ekki síst tala þeir miðaldra ráðamenn sem nú eru við stjórnvölinn víða um ábyrga efnahagsstefnu, að ekki sé hægt að eyða um efni fram og ekki megi skrifa upp á víxla sem komandi kynslóðum sé ætlað að greiða. Við stöndum frammi fyrir því núna að það er komið að þeirri kynslóð sem á að borga brúsann. Spurningin er hins vegar: Hversu hart ætlum við að ganga að þessari kynslóð til að borga fyrir það sem aðrir þurftu kannski ekki að borga, t.d. af sínum námslánum á sínum tíma eins og fyrirkomulagið var hér áður fyrr?

Það hefur líka verið bent á það hér í umræðunni að mjög margt fleira skiptir máli í þessari endurskoðun og sem námsmenn hafa kvartað undan en endurgreiðsluhlutfallið og samtímagreiðslur þó vissulega séu það tvö stærstu og kannski erfiðustu og dýrustu málin. Eitt af því sem harðlega hefur verið gagnrýnt af námsmönnum eru kröfur um uppáskriftir ábyrgðarmanna. Þeir þurfa á hverri einustu önn að ganga á meðal vina, ættingja eða nákominna til þess að leita ábyrgða fyrir lánum. Ég held að allir þekki einhver dæmi þess úr sínu nánasta umhverfi að þetta fyrirkomulag gerir það einfaldlega að verkum að fjöldi fólks verður að hverfa frá námi. Í fyrsta lagi eiga ekki allir góða að til að skrifa upp á milljónir króna og í öðru lagi er ástandið þannig í samfélaginu í dag að fólk er eindregið hvatt til þess að skrifa ekki upp á, ekki bara upp á námslán heldur bara almennt upp á lán vegna þess að við þekkjum mjög mörg dæmi þess úr samtímanum að fólk fer mjög flatt á því að skrifa upp á fyrir sína nánustu. Þrátt fyrir að góður vilji sé fyrir hendi þegar af stað er farið þá er það bara oft þannig að ekki er hægt að standa við skuldbindingarnar og þá bitnar það á ábyrgðarmönnum. Þetta er að gerast á sama tíma og þessi stífa krafa er enn varðandi lánasjóðinn og gerir það að verkum að margir eiga mjög erfitt með þetta. Ég held þess vegna að þetta mál með ábyrgðirnar sé mjög stórt mál sem verði að taka á mjög bráðlega. Mér finnst eðlilegt að tekið sé á því í þessum lögum, að tekið sé á því þannig að í raun og veru, eins og talað hefur verið um hér í umræðunni, sé ríkisábyrgð fyrir þessum lánum a.m.k. að einhverju leyti. Hvernig það er síðan nánar útfært er annað mál. En með því fyrirkomulagi sem við höfum núna varðandi uppáskriftir þá erum við ekki að tryggja jafnrétti til náms eins og ríkisstjórnin ætlaði að tryggja með breytingunum og endurskoðuninni á lögunum. Við erum ekki að tryggja jafnan rétt til náms án tillits til efnahags með þeim breytingum sem hér eru lagðar til. Þær ganga einfaldlega ekki nógu langt.

Varðandi þessar uppáskriftir má kannski stinga því að hér að ég heyrði núna nýlega einn þingmann Sjálfstfl., hv. þm. Pétur Blöndal, einmitt hvetja fólk til þess á opinberum vettvangi að skrifa ekki upp á --- mér varð þá einmitt hugsað til þessa fólks sem er með námslánin --- vegna þess að það væri óðs manns æði að skrifa upp á lán fyrir fólk, þetta gengi hreinlega ekki lengur. Og á sama tíma ætlast flokkur þessa ágæta hv. þm. til þess að ábyrgðirnar liggi fyrir eins og er í lánasjóðnum í dag.

Í þessari umræðu hefur svolítið verið minnst á frv. og tillögur sem Alþb. hefur lagt fram. Í þeirri mynd sem það var síðast lagt fram er m.a. bent á þetta atriði, að það verði að taka þessar reglur um ábyrgðir til endurskoðunar. Varðandi ábyrgðirnar hefur það líka heyrst í þessari umræðu að hæstv. viðskrh. sé í viðræðum við bankana um ábyrgðirnar. Ég sé ekki betur en að hægt sé að gera það beint með lagabreytingum frá þinginu og eðlilegt að sú ákvörðun sé tekin a.m.k. pólitískt hér og í raun veru er ekkert því til fyrirstöðu að það verði gert.

Ég vil aðeins gera stjórnsýslulega stöðu stjórnar lánasjóðsins að umtalsefni. Lagt hefur verið til í frv. að úrskurðir stjórnar sjóðsins verði endanlegir varðandi vafamál um málefni einstakra lánþega og þeir verði ekki kærðir til æðra stjórnvalds. Allt vald um málefni lánþega lánasjóðsins er þannig á einni hendi og án málskotsréttar. Mér finnst þetta vera í hæsta máta undarlegar hugmyndir einmitt núna á þessum tímum sem réttarstaða fólks gagnvart stjórnsýslu og ríkisvaldi hefur loksins verið þokkalega tryggð með reglum þar um, m.a. með nýlegum stjórnsýslulögum og fleiri reglum sem hafa verið settar á, svona á undanförnum áratug, þar sem m.a. það að geta skotið máli sínu til æðra stjórnvalds er talin vera ein grundvallarreglan eða grundvallarréttur í stjórnsýslunni. Þessa réttar njóta allflestir þegnar þjóðfélagsins en það á að þrengja hann gagnvart lánþegum Lánasjóðs ísl. námsmanna. Vissulega geta þeir, eins og hér hefur verið bent á, höfðað dómsmál eins og aðrir þegnar þjóðfélagsins enda væri nú varla heimilt að loka fyrir dómstólaleiðina. En við vitum líka að í því réttarkerfi sem við búum við er mjög dýrt úrræði að höfða dómsmál. Það er tímafrekt og það er dýrt úrræði. Það krefst ákveðinnar sérfræðiþekkingar og það kostar töluverða peninga. Ég velti því fyrir mér hvers vegna lagt er til og hvað í raun og veru búi að baki því að lánþegar lánasjóðsins fái ekki að njóta málskotsréttar til æðra stjórnvalds ef þeim þykir stjórn lánasjóðsins hafa brotið á sér. Hvaða rök eru fyrir slíkri þrengingu frá almennu reglunni um meðferð mála í stjórnsýslunni? Ég hefði miklu frekar viljað sjá að sú venja sem verið hefur, að ekki sé um málskot að ræða, væri afnumin og að málskotið væri tryggt. Það eru ekki færð sterk rök fyrir þessu í frv. sjálfu, það er aðeins vitnað til venjunnar sem verið hefur.

Það má líka benda á, í sambandi við stöðu lánþeganna gagnvart sjóðunum, að réttarheimildirnar sem lánþegar geta byggt rétt sinn á eru mjög óskýrar. Ég hef reynslu af því sjálf að glugga í gegnum þetta og reyna að leita að þeim reglum sem maður á að byggja rétt sinn á. Þetta eru lög í 19 greinum, reglugerðir í 39 greinum og úthlutunarreglur með tæplega 100 efnisatriðum sem hafa verið endurnýjaðar á hverju einasta ári. Eins og við þekkjum líka þá koma vafaatriði oft á tíðum til úrskurðar stjórnar og nú á enn fremur að tryggja að ekki sé hægt að skjóta máli sínu eitthvað áfram. Mér finnst þetta vægast sagt vera forhertar tillögur og sýna ótrúlega gamaldags hugmyndir ríkisstjórnarinnar í hnotskurn. Ég hefði frekar búist við því, eins og ég sagði áðan, að það yrði einmitt lagt til í frv. að venjunni um endanlegt úrskurðarvald stjórnar yrði breytt og ekki síst vegna þess dóms sem hér hefur líka verið vitnað til áður í umræðunum sem er nýuppkveðinn hjá héraðsdómi Reykjavíkur. Hann er mjög gott dæmi um að námsmaður var beittur órétti af stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna. Stjórnin túlkaði lög í ósamræmi við landslög. Það liggur alveg ljóst fyrir samkvæmt dómnum eins og hann er kveðinn upp frá héraðsdómi. Og eins sá sem talaði á undan mér, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, benti á áðan þá virðist manni sem það atriði sem þar var til úrlausnar hafa verið ósköp einfalt mál, þ.e. hvenær tvö ár eru liðin frá því að námi lýkur. En það vafðist fyrir stjórn lánasjóðsins og er kannski ekkert við því að segja í sjálfu sér. Það er hins vegar mjög athugavert við það að námsmaður sem lendir í slíkum órétti skuli þurfa að fara með mál sitt fyrir dómstóla og leggja út í mikinn kostnað þess vegna. Sá námsmaður sem þarna um ræðir var orðinn útskrifaður lögfræðingur þegar hann fór í mál. Og ég geri ráð fyrir því að það hafi kannski ráðið einhverju um að hann réðst út í þetta framtak að hann hefur sjálfur getað sinnt þeirri sérfræðiþekkingu sem til þarf. Ég tel það vera algjörlega óviðunandi stöðu og háalvarlegt mál að hafa þessa þrengingu.

Herra forseti. Það mætti sjálfsagt tína fleira til um efni frv. en ég held að það væri einungis til að endurtaka það sem hér hefur verið sagt áður, að svo stöddu máli a.m.k. og ætla ég að láta staðar numið fram að 2. umr. en þá munu liggja fyrir umsagnir m.a. frá námsmönnum og öðrum sem kunna að hafa eitthvað um málið að segja. Ég hefði kannski viljað segja eitthvað um samráðið, um vinnubrögðin, um sýndarsamráðið eins og einhver kallaði það, sem var farið af stað með í upphafi en ég held líka að það væri einungis endurtekning. Það hafa margoft verið rakin þau vinnubrögð sem ríkisstjórnin viðhafði í þessu máli, að kalla saman nefnd og síðan virtist aldrei eiga að vera tilgangurinn að fara eftir tillögum hennar. Henni var ekki einu sinni gefinn kostur á að ljúka störfum sínum fyllilega. Það eru náttúrlega algjörlega óviðunandi vinnubrögð en vissulega í stíl við það sem við þekkjum frá fleiri stórum málum sem hafa verið lögð fyrir þingið í tíð þessarar hæstv. ríkisstjórnar.