Bæjanöfn

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 23:02:06 (5239)

1997-04-15 23:02:06# 121. lþ. 102.13 fundur 535. mál: #A bæjanöfn# (örnefnanefnd) frv., 536. mál: #A Örnefnastofnun Íslands# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[23:02]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég ætlaði í fyrsta lagi að leyfa mér að leggja orð í belg í sambandi við bæjanöfnin. Þetta verkar nú ekki vel á mig, ég segi það eins og er. Ég held ég verði að taka undir það með hv. 4. þm. Austurl. að það er dálítill forsjáráráttukeimur af málinu eins og það lítur út. Ef þetta er aðallega landmælingamál þá er náttúrlega langeðlilegast að flytja bara frv. um breytingu á landmælingalögunum. Ég veit ekki betur en að landið hafi komist vel af frá því að það byggðist þó uppi væru kannski mismunandi sjónarmið um hvernig einstök örnefni eru. Ég man eftir einum dal fyrir vestan sem heitir a.m.k. fjórum nöfnum og ég veit ekki betur en mannlíf hafi þrifist allvel þar vestra án þess að skorið hafi verið úr því af nefnd í Reykjavík, eins og hv. þm. Guðmundur Beck orðaði það, hvað væri rétt í þeim efnum. Ég hef tekið eftir að dalurinn heitir auk þess eitthvað á kortum, sem er sennilega fimmta heitið, og er yfirleitt talið vitlaust af heimamönnum. Ég sé í sjálfu sér ekki þessa ofboðslegu staðlaþörf sem mér finnst birtast í þessu frv. eins og það lítur út.

Svo er hitt frv. sem er frv. til laga um nýja stofnun. Sjálfstfl. vill stofna nýja stofnun, Örnefnastofnun Íslands. Þetta fyrirbæri hefur verið starfandi samkvæmt bréfi frá Gylfa Þ. Gíslasyni frá 1969 þar sem hann skaut formlegum grunni undir Þórhall Vilmundarson með sérstöku ráðherrabréfi 1969 og hefur það bréf dugað vel, ótrúlega vel, lengur en mörg önnur ráðherrabréf, einkum í seinni tíð.

Þegar stofnunin hefur verið til um nokkurra ára skeið, sem hluti af Þjóðminjasafninu, þá finna menn allt í einu þörf hjá sér til að búa til sérstaka stofnun með sérstakri stjórn. Það er sem betur fer ekki tekið fram að stjórnarflokkarnir eigi að eiga fulltrúa í stjórninni eftir hinni venjulegu helmingaskiptareglu þeirra á milli. En sjálfsagt getur ráðherrann breytt því. (Menntmrh.: Þingmaðurinn getur gert tillögu um það.) Ég geri ekki ráð fyrir að hæstv. ráðherra samþykki tillögu þingmannsins, þessa frekar en aðrar.

Satt að segja finnst mér þessi mál, bæði tvö, út í hött. Annað er stofnun sem er óþarfi og hitt er gegndarlaus miðstýringarárátta sem er engu lagi lík. Ég vil hvetja til þess að menn vandi sig vel í þeim efnum áður en farið verður að búa til eina stofnunina í viðbót. Það er alveg nóg af stofnunum í þjóðfélaginu og örnefnafræði er hluti af þjóðháttafræðinni, eins og fram kom í ræðu hv. þm. Sturlu Böðvarssonar. Þess vegna væri langeðlilegast að starfsemin sé áfram í beinum skipulagslegum tengslum við Þjóðminjasafnið. Ég hefði talið að til greina kæmi að breyta lítillega þjóðminjalögunum til að tryggja að þessi stofnun og starfsemin væri þar. Hv. 2. þm. Vesturl. tók þannig til orða að honum fyndist sniðug sú hugmynd í grg. frv. að stofnunin verði jafnvel sett í fóstur hjá annarri stofnun. Það finnst mér líka snjöll hugmynd. En miklu betra væri nú að láta þetta eiga sig og hafa hana áfram í fóstri þar sem hún er, herra forseti.