1997-04-16 00:27:56# 121. lþ. 102.19 fundur 432. mál: #A endurskoðun kennsluhátta# þál., Flm. HjÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[24:27]

Flm. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um endurskoðun kennsluhátta. Flm. eru auk mín hv. þm. Pétur H. Blöndal og Ísólfur Gylfi Pálmason.

Þáltill. er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að skipa nefnd til að endurskoða kennsluhætti í skólum landsins. Í nefndinni sitji fulltrúar kennarasamtaka, skólastjórnenda, samtaka nemenda, samtaka foreldra, Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og menntamálaráðuneytis.

Í rauninni felur þessi tillaga í sér að skipuð verði nefnd með fulltrúum svonefndra hagsmunaaðila, þ.e. þeirra sem koma að kennslu og námi barna og að nefndin endurskoði kennsluhætti og skili tillögum um breytta kennsluhætti sem er megintilgangurinn með þáltill.

Nú má spyrja hvers vegna þáltill. á borð við þessa sé flutt. Segja má að í aldaraðir hafi kennsluhættir lítið breyst. Þeir byggi í rauninni á sömu forsendum og á dögum Forn-Grikkja þegar hinir fróðu stóðu uppi á kössum og messuðu yfir lýðnum. Segja má að skólakerfið og kennsluhættir í skólum byggi að mestu leyti á því sama, nema kennarar standa að vísu ekki uppi á kössum heldur við töflu og flytja sinn boðskap til nemenda. Andspænis þessu má síðan segja að þróun í umhverfinu hafi verið nokkuð önnur. Á ég þar sérstaklega við tækniþróun þar sem komið hafa fram tæki á borð við segulbönd, myndvarpa og síðast en ekki síst tölvuna ásamt því nýjasta á þessu sviði sem er internetið. Það er tækni sem hefur að nokkru leyti rutt sér til rúms í skólunum en ekki síður á heimilunum með afskaplega lifandi námsefni, þ.e. kennsluefni á tölvum, en verulega mikið kennsluefni er á internetinu. Til er kennsluefni á myndböndum og þannig má áfram telja.

[24:30]

Með öðrum orðum er umhverfi nemandans utan skólans afskaplega fjölbreytilegt og líflegt en þegar nemandinn gengur síðan inn í kennslustofuna blasir öllu dauflegra umhverfi við og færist sú deyfð eiginlega yfir á námsáhuga nemandans. Um þetta hafa kennarar rætt um árabil en í grundvallaratriðum má segja að allt skólastarf, einkum á efri stigum grunnskóla og framhaldsskóla byggist á því að nám fari tæpast fram án nærveru kennara sem heldur þar gjarnan fyrirlestra.

Það má segja að sú tækni sem rutt hefur sér til rúms og ég gat um fyrr feli í sér meira jafnrétti til náms en nokkru sinni hefur þekkst og nám geti í rauninni farið fram óbundið tíma og rúmi. Nemendur hafa aðgang að ýmsu lifandi og skemmtilegu kennsluefni heima hjá sér eða þar sem þeir komast í tölvu og þarf kennari í rauninni ekki að vera nálægur til þess að nemandinn geti sökkt sér á vit kennsluefnisins.

Þá snýst þetta einnig um þær ýmsu tilgátur sem eru á lofti um það hvernig nám einstaklings fer fram. Gerist það með hlustun eða gerist það með því að einstaklingurinn er virkjaður sjálfur og leitar sér að efni og er sjálfur að glíma við það? Ég hygg að of mikið af kennslu fari þannig fram að nemandi hlustar og lætur mata sig, skrifar niður, skráir glósur og fylgir þeim í rauninni lítið eftir. Þessi þáltill. felur í sér að þessir þættir verði endurskoðaðir og sú nefnd sem þáltill. felur í sér að verði skipuð komi með tillögur um breytingar þar sem tekið er mið af þessu breytta umhverfi, ekki síst þeirri tækniþróun sem átt hefur sér stað. Það er vert að hafa það í huga líka að lærdómur fer ekki einungis fram í skólum, hann fer ekki síður fram í menntahvetjandi umhverfi nemandans, ekki síst í heimahúsi.

Ég trúi að liðin sé sú tíð, en það eru þó ekki mörg ár síðan, að kennarar áttu það jafnvel til að biðja foreldra um að hafa ekki afskipti af tilteknu námi nemenda sinna. Og nægir þar að rifja upp lestrarnám þegar verið var að innleiða hér svonefndar nýjar lestraraðferðir, kennsluaðferðir í lestri þar sem foreldrar fengu jafnvel tilmæli um að blanda sér ekki inn í kennsluaðferðirnar. Þetta er til allrar hamingju liðin tíð vegna þess að nám barna og unglinga fer tæpast fram öðruvísi en að skilvirkt sé innan skóla og ekki síður inni á heimilunum þar sem nemandinn finnur hvatninguna á báðum stöðum til námsins.

Í ljósi þeirrar tækniþróunar sem átt hefur sér stað hlýtur að vera tekið til skoðunar hugsanlega breytt hlutverk kennarans. Sumir hafa í þessu samhengi nefnt meiri verkstjórn heldur en fyrirlestraform en þarna þarf líka að taka til athugunar hlutverk foreldranna, hlutverk kennarans, gagnvart þeirri nýju tækni sem veruleikinn segir okkur að sé til staðar. Ég vil nefna, herra forseti, nýlegt dæmi af ungu námsfólki í framhaldsskóla sem fékk það verkefni að skrifa ritgerð í erfðafræðiáfanga um klónun. Nemendurnir sneru sér að sjálfsögðu á internetið og gátu sótt sér án nærveru kennara nýjustu upplýsingar um þetta merkilega efni, klónun, og í rauninni upplýsingar sem kennarinn sjálfur hafði ekki aflað sér eða hafði aðgang að. Þetta er einfalt dæmi en segir heilmikið um stöðuna og þá gífurlegu möguleika sem ekki síst internetið býður upp á. Tillagan gerir einmitt ráð fyrir því að kennsluhættir verði skoðaðir í ljósi þessa þannig að nám verði skoðað markvisst og tillögum skilað. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að hér er um mjög viðkvæmt mál að ræða og þess vegna er mikilsvert að haft sé fullt samráð og samstarf við þá aðila sem að kennslu koma enda gerir þáltill. ráð fyrir því. Ég hygg hins vegar að fyrir löngu sé orðið tímabært að taka þetta til endurskoðunar og veit að margt skólafólk er mér sammála um það. Niðurstaðan af tillögunni, ef samþykkt verður, ætti vonandi að fela í sér leiðir sem gera námið skemmtilegra, markvissara, léttara og dálítið frábrugðið því sem það er í dag gagnvart nemendum landsins.

Ég legg til að þáltill. verði vísað til síðari umr. og hv. menntmn.