1997-04-16 00:40:06# 121. lþ. 102.19 fundur 432. mál: #A endurskoðun kennsluhátta# þál., Flm. HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[24:40]

Flm. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Einhvers misskilnings gætir hjá hv. þm. Ég hef nokkrum sinnum verið þeirrar gæfu aðnjótandi að hlýða á fyrirlestra Jóns Torfa Jónassonar rektorskandídats. Ég hef lesið mikið um nám, hvernig nám fer fram enda starfað í skóla um 20 ára skeið. Ég tók það skýrt fram að það sem ég sagði ætti líklega meira við framhaldsskóla en grunnskóla og er mér fyllilega meðvitaður um það að í grunnskóla tíðkast meira hópastarf heldur en í framhaldsskóla. Hins vegar var aldrei nefnt og hefur aldrei verið hugsunin að gera kennara óþarfa. Og þess var getið sérstaklega að á bak við þáltill. væri m.a. sú hugsun að í ljósi þess breytta veruleika sem hér var fjallað um þyrfti að endurskoða hlutverk kennarans. Með því er ekki á nokkurn hátt verið að gera lítið úr hinum félagslega þætti sem skiptir miklu máli við nám. Það hafa allar rannsóknir sýnt að hópastarf m.a. hefur mikið að segja um árangursríkt skólastarf, sérstaklega rannsóknir í Bandaríkjunum. --- En menn mega að sjálfsögðu ekki hafa oftrú á tækjum og tólum sem koma fram, sagði þingmaðurinn. Við megum heldur ekki hafa vantrú á þeim. Og það sem var kannski kjarninn í því sem ég nefndi áðan var að í grundvallaratriðum er skólastarf enn þá byggt þannig upp að kennari standi í kennslustofunni og nemendur komi til hans. Á þessu þarf að verða breyting, róttæk breyting, það er sannfæring mín --- einkum í framhaldsskólanum. (Forseti hringir.) Og ég fullyrði það að um of eru nemendur þiggjendur en ekki nægilega virkir.