Skyndiskoðanir Landhelgisgæslunnar

Miðvikudaginn 16. apríl 1997, kl. 13:44:45 (5268)

1997-04-16 13:44:45# 121. lþ. 103.9 fundur 511. mál: #A skyndiskoðanir Landhelgisgæslunnar# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[13:44]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Miklar umræður um öryggismál sjómanna hafa farið fram að undanförnu. Það hafa verið miklar ádeilur á öryggiseftirlit og umdeilt þegar frávik eru leyfð frá settum öryggisreglum um búnað skipa. Hins vegar þarf ekki mikið til að bifreið sé tafarlaust tekin úr umferð ef öryggisbúnaði er áfátt. Ég tel að það sé löngu tímabært að verulega verði hert á tökum ef búnaður skipa er ekki í lagi og legg því fram fyrirspurn til hæstv. dómsmrh. um skyndiskoðanir Landhelgisgæslunnar.

1. Hvað hafa starfsmenn Landhelgisgæslunnar farið um borð í mörg skip á miðunum frá ársbyrjun 1994 til þessa dags?

2. Hvaða helstu athugasemdir hafa komið fram við þessar skoðanir

a. um öryggisbúnað,

b. um lögskráningu,

c. um athugun á veiðarfærum?

3. Eru dæmi um að sama skip hafi fengið áminningu eða því verið stefnt í land oftar en einu sinni og ef svo er, hve oft og hve mörg skip?

4. Hvernig hefur verið tekið á ítrekuðum brotum? Hvað mörg slík mál hafa verið afgreidd og hve mörg eru óafgreidd?

Þessi spurning er kannski vegna þess að líka hefur borið á því að þegar skip hafa verið tekin vegna þess að búnaður hefur ekki verið í lagi og málið sent til viðkomandi yfirvalda, þá er eins og í dómskerfinu hafi málið verið látið falla niður eða þá fallið í gleymskunnar dá.