Skattundandráttur

Miðvikudaginn 16. apríl 1997, kl. 14:32:37 (5284)

1997-04-16 14:32:37# 121. lþ. 103.5 fundur 568. mál: #A skattundandráttur# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[14:32]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Á árinu 1993 skilaði nefnd á vegum fjmrh. af sér tillögum um aðgerðir gegn skattsvikum og á árinu 1985 var einnig samþykkt á Alþingi till. til þál. um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum. Eftir þessum tillögum hefur verið unnið um nokkurra ára bil og var það m.a. líka í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga vorið 1992.

Það er skemmst frá því að segja að margar af þessum tillögum hafa sem betur fer komist til framkvæmda en nokkrar veigamiklar tillögur, sérstaklega ein sem hér er getið í þeirri fyrirspurn sem ég mæli fyrir, hefur að ég best veit ekki komist til framkvæmda. Því spyr ég, herra forseti:

,,Hvað hefur fjármálaráðuneytið gert til að hrinda í framkvæmd eftirfarandi tillögum nefndar fjármálaráðherra frá 1993 í því skyni að draga úr skattundandrætti:

a. að þær matsreglur sem notaðar hafa verið vegna reiknaðs endurgjalds verði endurskoðaðar frá grunni og nýjar settar?`` --- Um þetta segir í skýrslu ráðherra: ,,Það er tillaga nefndarmanna að reiknað endurgjald verði tekið til endurskoðunar.`` Síðan segir: ,,Nefndin er þeirrar skoðunar að mjög verulega verði að hækka þau viðmiðunarlaun sem gildandi hafa verið. Það er ótækt með öllu að viðmiðunarreglur þær sem notaðar hafa verið séu mun lægri en meðallaun launþega í sömu starfsgrein. Gerir nefndin það að tillögu sinni að reiknuð viðmiðunarlaun verði í heild sinni tekin til endurskoðunar og hækkuð mjög verulega þannig að þau verði eigi lægri en meðallaun í viðkomandi starfsgrein. Nefndin leggur til að fjmrn. setji á fót sérstakan starfshóp til að fá það verkefni að endurskoða reglur sem um þessi mál gilda.`` --- Hér er ég að vitna í tillögu starfshóps á vegum fjmrh. og ég spyr: Hvað hefur verið gert til þess að hrinda þessari tillögu í framkvæmd?

Í b-lið er spurt um þá tillögu nefndar fjmrh. að embætti skattrannsóknarstjóra hafi það verkefni að kynna opinberlega refsidóma í skattsvikamálum, en sérstaklega var mælt með því í tillögum nefndarinnar.

Í c-lið er spurt um þá tillögu nefndarinnar að ráðuneytið hafi forgöngu um stefnumótun og setji skattayfirvöldum markmið og ákvarði leiðir til að draga úr svartri atvinnustarfsemi, en það er megintillagan varðandi átak gegn svartri atvinnustarfsemi. Þar er því lýst að dulin efnahagsstarfsemi sé veruleg hér á landi og lagt til að ráðuneytið hafi forgöngu um stefnumótun til að takast á við þetta verkefni, setja skattrannsóknarstjóra og setja öðrum skattyfirvöldum markmið og ákvarða leiðir til að fást við þetta vandamál. ,,Með þeim hætti er enginn vafi að unnt er að ná góðum árangri,`` segir í þessum kafla um átak gegn svartri atvinnustarfsemi.