Reglugerðir um matvæli

Miðvikudaginn 16. apríl 1997, kl. 15:39:45 (5308)

1997-04-16 15:39:45# 121. lþ. 103.1 fundur 373. mál: #A reglugerðir um matvæli# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[15:39]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins láta það koma fram í viðbót út af orðum hv. fyrirspyrjanda að ég tel að ráðuneytið hafi lagt sig fram um það og ég hef lagt það til ítrekað að við skoðuðum mjög gaumgæfilega allar leiðir í þessu sambandi og hvaða möguleikar væru til þess að beita öðrum reglum en þeim sem við höfðum þó þegar sett hér og taka mið af reglum á Evrópska efnahagssvæðinu. En niðurstaðan er eins og ég hef áður lýst ítarlega og ætla ekki að orðlengja það. Ég vil þá líka minna á að Neytendasamtökin hafa gert athugasemdir við það að hér skuli ekki gilda samræmdar reglur um merkingar á vörum. Fyrir nokkrum mánuðum kom fram í fjölmiðlum hörð ádeila á stjórnvöld hvað þetta varðaði og það herti á okkur í umhvrn. að taka þetta mál til sem allra skjótastrar niðurstöðu og reyna að fá botn í það. Og eins og ég nefndi áðan hefur eftirlitið verið talið nánast óframkvæmanlegt ef ekki giltu um þetta ákveðnar samræmdar reglur þannig að þetta á auðvitað ekki bara við það að við séum að framfylgja reglum sem við þurfum að taka yfir erlendis frá, hvað sem svo kann að liggja að baki þeim, heldur þurfum við líka að gæta að okkar neytendavernd og að íslenskir neytendur fái réttar upplýsingar og þær bestu og samræmdar svo sem vera ber á umbúðunum. Og allra seinast má nefna að samtök iðnaðarins hafa gert athugasemd við þessa framkvæmd og reyndar spurst fyrir um hana á erlendum vettvangi hjá æðsta valdinu í Brussel þannig að það lá fyrir að ef ekki yrði brugðist við af okkar hálfu þá mættum við búast við kæru um framkvæmd málsins.