Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 11:33:29 (5320)

1997-04-17 11:33:29# 121. lþ. 105.1 fundur 288#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[11:33]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Út af þessu með Atlantshafsbandalagið þá sagði hv. þm. að við hefðum viðurkennt neitunarvald Rússa í þessu máli. Hann sagði það úr þessum ræðustóli. Nú finnst hv. þm. þetta kannski léttvægt. Hvenær hefur hann haft það eftir mér? Veit hann hve oft ég hef ítrekað að Rússar hafa að sjálfsögðu ekkert neitunarvald í þessu máli? Enda samræmist það ekki afstöðu neins Atlantshafsbandalagsríkisins. En samt segir hann að við höfum viðurkennt neitunarvald Rússa. Nú má vel vera að hv. þm. telji að það sé hægt að byggja upp öryggi í Evrópu til framtíðar án nokkurrar samvinnu við Rússa. Það má vera að hann sé þeirrar skoðunar. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Og ég veit ekki um neinn stjórnmálamann á Vesturlöndum sem er þeirrar skoðunar. Ef það er afstaða jafnaðarmanna á Íslandi að ekki beri á neinn hátt að taka tillit til Rússa í þessu sambandi þá er það álíka afstaða og hefur verið hjá Alþb. að það eigi alls ekki að vera aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Það er mikilvægt að það sé skýrt ef hv. þm. telur að við eigum að halda þannig á málum að við eigum ekki að taka neitt tillit til Rússa. Rússland er hluti af Evrópu. Og ég trúi því ekki að hv. þm. sé andstæður því að við leitum vinsamlegra samskipta við Rússa. Hann hefur a.m.k. verið þeirrar skoðunar að við eigum að gera það á fiskveiðisviðinu. Við eigum að ná samningum við þá uppi í Barentshafi. En það verður að vera þá einhver heildarsýn í þessum málum en ekki út og suður eftir málaflokkum hverju sinni.