Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 12:54:13 (5327)

1997-04-17 12:54:13# 121. lþ. 105.1 fundur 288#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[12:54]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Vegna þess sem síðast kom fram hjá hv. þm. um samræmingu á málflutningi þá hefur utanrrn. lagt sig fram um að auka samvinnu við alþjóðaskrifstofu þingsins. Jafnframt er góð samvinna við Íslandsdeild Norðurlandaráðs og aðrar alþjóðaþingnefndir sem starfa á vegum Atlantshafsbandalagsins, ÖSE, Vestur-Evrópusambandsins o.s.frv. Við höfum lagt okkur fram og boðið fram þjónustu okkar til að aðstoða þingmenn í þessum málum. En að sjálfsögðu er takmarkað hvað utanrrn. getur haft mikið frumkvæði. Við virðum að sjálfsögðu sjálfstæði Alþingis en höfum lýst okkur reiðubúna til að vinna með þingnefndum og þingmönnum að þessum málum eftir því sem þeir óska.

Ég vil aðeins koma inn á verkefni Barentshafsráðsins sem kom fram hjá hv. þm. og jafnframt hjá hv. þm. Margréti Frímannsdóttur. Íslendingar hafa lagt sig fram á þessu sviði eftir því sem þeir hafa getað. Þeir hafa komið að verkefnum á sviði nýsköpunar, á sviði fiskvinnslu --- við höfum lagt fram tillögur um orkusparnað --- auk verslunarviðskipta á svæðinu. Hingað er væntanlegur á næstunni forsætisráðherra Karilíu sem við höfum boðið hingað í heimsókn. En síðast en ekki síst höfum við lagt mikla áherslu á vandamálin á Kólaskaga. Ég vil geta þess að Bandaríkjamenn hafa komið að þeim verkefnum á vettvangi Barentshafsráðsins. En þessi verkefni skipta okkur meginmáli og eru ein helsta ástæðan fyrir því að við viljum taka virkan þátt í þessu samstarfi á vettvangi Barentshafsráðsins.