Setning reglugerðar um tekjutryggingu almannatrygginga

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 13:45:07 (5332)

1997-04-17 13:45:07# 121. lþ. 105.95 fundur 290#B setning reglugerðar um tekjutryggingu almannatrygginga# (umræður utan dagskrár), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[13:45]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Á því máli sem hér er til umræðu eru margir alvarlegir fletir og ég vil þakka málshefjanda fyrir að taka það upp. Í fyrsta lagi vil ég almennt láta í ljós áhyggjur af því hve langt þessi ríkisstjórn gengur í að skerða bætur elli- og örorkuþega. Það að aftengja bætur við laun var síðasta atlagan en að setja reglugerðir sem ekki eiga sér lagastoð er mjög alvarlegt mál sem þingið hlýtur að verða að taka á. Hér hafa komið fram skiptar skoðanir á þessu máli og það hlýtur að vera krafa þingsins að úr því verði skorið nú þegar hvort þessi reglugerð á sér lagastoð.

Dómstólar hafa nýverið varað Alþingi við því að framselja of mikið vald til ráðherra í gegnum reglugerðarheimildir af því það hlýtur að kalla á þá hættu að reglugerðir eigi sér ekki lagastoð. Þetta er ekki fyrsta málið af þessum toga sem kemur hér inn í þingið og þetta hlýtur að kalla á bætt vinnubrögð að þessu leyti.

Í þriðja lagi vil ég vegna þessa sérstaka máls, þar sem tekjur maka eiga að skerða elli- og örorkulífeyri fólks, ítreka þá grundvallarafstöðu okkar kvennalistakvenna að líta beri í auknum mæli á fólk sem einstaklinga, óháð hjúskaparstöðu. Það er því fyrir löngu tímabært að hugsa allt skatta- og tryggingakerfið upp á nýtt þar sem einstalingar eru virtir sem einstaklingar í mun meira mæli en nú er gert. Ef hér er um stjórnarskrárbrot að ræða, að mati dómstóla, þá verður málið að fá tafarlausa úrlausn.