Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 14:49:00 (5348)

1997-04-17 14:49:00# 121. lþ. 105.1 fundur 288#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[14:49]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri að við hv. þm. Árni Árnason erum alveg sammála í þessum málum þó að ég geti líka tekið undir með honum að auðvitað vildi maður oft að hlutirnir væru öðruvísi en þeir eru, það er svo annað mál.

Ég vildi kannski aðeins koma inn á samskipti við Vestur-Íslendinga sem hann spurði jafnframt um. Unnið er að því að koma þeim samskiptum í betra horf og við höfum leitað í utanrrn. eftir betri samvinnu við áhugamenn og almannasamtök á þessu sviði. Við gerum okkur vonir um að hér verði stofnuð sterkari samtök sem geti séð um þessi mál.

Við höfum líka átt viðræður við forsvarsmenn Vesturfarasafnsins á Hofsósi sem hafa sýnt þessu máli afar mikinn áhuga og við höfum ekki útilokað að starfsmaður á vegum utanrrn. í hlutastarfi verði staðsettur þar. Við teljum nauðsynlegt að það sé einhver aðili sem beri meiri ábyrgð á þessum samskiptum og við teljum að við getum langbest leyst þau í samvinnu við áhugamenn og þá aðila sem hafa mestan áhuga á þessum samskiptum. Það er unnið að þessu hörðum höndum í ráðuneytinu. Við erum ekki einfærir um þessi mál og þess vegna leitum við til almannasamtaka um lausn þeirra.

Að lokum í sambandi við Eystrasaltsríkin svo ég komi aðeins betur inn á þau. Það er líka afar mikilvægt það samstarf sem nú er að hefjast með Eystrasaltsríkjunum og Norðurlandaþjóðunum á hernaðarsviðinu, á varnarsviðinu, því að þeir herir sem Norðurlöndin ráða yfir hafa nú stóraukið samvinnu við Eystrasaltsríkin með það að markmiði að búa þá betur undir aðild að Atlantshafsbandalaginu.