Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 15:23:58 (5353)

1997-04-17 15:23:58# 121. lþ. 105.1 fundur 288#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[15:23]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég stend nú einungis upp til þess að taka undir með hv. þm. Auðvitað eiga þessi mál erindi í þessa umræðu en hér fer jafnframt fram umræða um skýrslur einstakra þingnefnda sem starfa að alþjóðamálum. Ég held að það sé mikilvægast að þingmenn taki þátt í þessum umræðum og sýni því áhuga og taki undir mikilvægi þess starfs sem unnið er á alþjóðavettvangi, hvort sem það er á vegum Alþingis, utanrrn. eða annarra. Það vill oft bregða við að menn gera lítið úr slíkum störfum og það gera þingmenn stundum sjálfir því að með því að gera lítið úr t.d. störfum ríkisstjórnar á erlendum vettvangi, þá eru menn í reynd að gera lítið úr eigin störfum á þeim sama vettvangi.

Ég held að öllum megi vera það ljóst í dag að það eru orðin mikil sannindi sem Kennedy forseti sagði fyrir 30 árum, að engin ein þjóð ræður örlögum sínum sjálf. Við erum háð öðrum þjóðum á einn eða annan hátt þó að auðvitað höfum við mest um það að segja sjálf hvernig okkur vegnar, en við getum það ekki nema í samstarfi við aðrar þjóðir. Ef við ætlum að koma okkar málum á framfæri og standa fyrir hagsmunamálum okkar og rétti, þá verðum við að gera það með alþjóðlegu samstarfi.

Það er ekki síður mikilvægt að þetta gerist milli þjóðþinganna og það skiptir lýðræðisþróun í heiminum afar miklu máli að þingmenn allra landa taki þátt í þessu starfi þannig að mér líkar vel að talað sé á þessum nótum því að ég hef bæði sinnt alþjóðlegu starfi sem þingmaður og ráðherra og það er ánægjulegt til þess að vita að það skuli vera, annað slagið a.m.k., talað um það af réttsýni eins og hv. þm. gerði hér.