Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 16:44:18 (5366)

1997-04-17 16:44:18# 121. lþ. 105.1 fundur 288#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[16:44]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst að því er varðar fulla aðild að Vestur-Evrópusambandinu. Það liggur ljóst fyrir að við getum því aðeins orðið aðilar að Vestur-Evrópusambandinu samkvæmt reglum þess að við gerumst fullgildir aðilar að Evrópusambandinu. Það er engin önnur leið til og þar af leiðandi er það ekki á dagskrá. Þessu svaraði ég hv. þm. á sl. ári.

Það er engin stefnubreyting af hálfu Íslands að því er varðar samstarfið innan NATO. Við erum jafnframt í samstarfi innan Norðurlandanna og við utanríkisráðherrar Norðurlandanna ræddum þetta mál ítarlega og sátum hjá á ákveðnum forsendum, sem ég veit að hv. þm. er kunnugt um, með ákveðinni greinargerð. Ég tel að við höfum á engan hátt rofið samstöðu NATO-ríkjanna með þessum hætti, en við vildum með þessu leggja áherslu á sérstöðu Norðurlandanna og þá staðreynd að Norðurlöndin eru andvíg kjarnorkuvopnum og berjast fyrir útrýmingu þeirra án þess að Norðurlöndin vilji á nokkurn hátt hverfa frá skuldbindingum sínum gagnvart Atlantshafsbandalaginu. Það hefur engin stefnubreyting orðið í þessum efnum en við metum mál að sjálfsögðu með sjálfstæðum hætti og fylgjum ekki Bandaríkjunum í einu og öllu í öllum málum. Það getum við ekki sem sjálfstæð þjóð. T.d. erum við ekki sammála Bandaríkjunum í einu og öllu að því er varðar málefni Kúbu þó að við séum sammála Bandaríkjamönnum í mjög mörgum efnum.