Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 16:46:20 (5367)

1997-04-17 16:46:20# 121. lþ. 105.1 fundur 288#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[16:46]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. þessi svör. Ég geri mér alveg grein fyrir því að reglur Evrópusambandsins bjóða ekki upp á það eins og þær eru í dag að við getum sótt um fulla aðild. En eins og ég sagði áðan, og því miður missti hæstv. ráðherra af því sem ég sagði þá, eru mörg ríki innan Vestur-Evrópusambandsins sem hafa lýst því yfir að þau styðji það að Íslendingar og aðrar þjóðir sem eru með aukaaðild gerðust fullgildir aðilar. Það þarf að sjálfsögðu að vinna að því og það þarf að koma trúlega viljayfirlýsing um það frá íslenskum stjórnvöldum að eftir því sé sóst.

Ég hef upplýsingar um það að Norðmenn hafi sóst eftir því sérstaklega að geta gerst aðilar fyrir utan það að Tyrkir hafa marglýst því yfir. En ég kannast ekki við að nein sérstök ósk í því sambandi hafi komið frá íslenskum stjórnvöldum þannig að ég hefði gjarnan viljað að það væri einhver vinna sett af stað hvað þetta varðar.

Varðandi þá afstöðu sem við tókum þegar snúist var gegn NATO í fyrstu nefndinni, þá er ég að sjálfsögðu sammála því áliti hæstv. utanrrh. að almennt séu menn á móti kjarnorkuvopnum. En kjarnorkuvopn eru grundvallarvarnarvopn NATO-ríkjanna sem þeirra styrkur og fælingarmáttur byggist fyrst og fremst á og ef við stöndum ekki saman að því að halda utan um þann fælingarmátt sem felst í styrk NATO er NATO einskis virði. Þess vegna hefði ég talið og fannst á þeim tíma að við hefðum átt að standa með NATO-ríkjunum að þessu leyti, enda eru þar saman komin ríki sem voru að sameinast fyrst og fremst um NATO-styrkinn.

Ég geri mér líka grein fyrir því, hæstv. utanrrh., að að sjálfsögðu stöndum við ekki í einu og öllu með Bandaríkjamönnum en ég átti þess kost að sitja þing Sameinuðu þjóðanna á sl. hausti og fannst mjög athyglisvert hvað Bandaríkjamenn stóðu einir í sinni varnarbaráttu að mér fannst gagnvart þjóðum sem hafa ekki virt lýðræðisréttindi að neinu leyti neins staðar í heiminum.