Þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 17:57:05 (5381)

1997-04-17 17:57:05# 121. lþ. 105.5 fundur 411. mál: #A þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu# þál., JBH
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[17:57]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Ég hefði vænst þess að hv. þm. Árni R. Árnason, formaður stjórnskipaðrar nefndar um þessi mál, léti til sín heyra í þessum umræðum. Hann hefur látið mikið til sín taka í þessu máli í fjölmiðlum, a.m.k. meðan nefndin var að störfum eða um það leyti sem hún var að ljúka störfum. Mér skilst að nefndin hafi lokið störfum, þ.e. skilað niðurstöðum sínum til hæstv. sjútvrh. og ég tel þegar mál af þessu tagi er tekið til umræðu í hv. Alþingi væri eðlilegt að sú vinna sem sú nefnd hefur lagt í sitt nefndarálit, væntanlega stefnumarkandi, væri hér skýrð og að hæstv. sjútvrh. gæti jafnframt, ef þetta er eitthvert trúnaðarmál milli nefndar og ráðherra, skýrt þá frá niðurstöðum og lagt mat á það hvort nefndin hefði eitthvað nýtt fram að færa.

Það er ekki mikill ágreiningur uppi í íslensku þjóðfélagi um auðlindastefnuna sem slíka. Við áskiljum okkur að sjálfsögðu rétt til að nýta allar auðlindir hafsins. Við lýsum okkur reiðubúin til að gera það að siðaðra manna hætti þannig að ekki verði ofboðið veiðiþoli auðlinda eða dýrastofna og við erum áreiðanlega reiðubúin til að fallast á að stunda veiðar með þeim aðferðum sem gera ströngustu kröfur út frá líffræðilegu eða siðferðilegu sjónarmiði um veiðimátann. Það er ekki mikill ágreiningur um þetta. Ágreiningurinn hefur verið um leiðirnar að þeim markmiðum.

Nú eru liðin sex ár frá því að sú ákvörðun var tekin að við segðum okkur úr Alþjóðahvalveiðiráðinu. Það var gert með þeim rökum að hlutlæg sjónarmið og niðurstöður vísindamanna, þar á meðal í vísindanefndinni, næðu ekki fram að ganga og pólitískum bellibrögðum væri beitt í ráðinu sem slíku, ráðið væri ekki lengur starfandi í anda grundvallarsamþykkta sinna, það væri orðið að verndarsamtökum í staðinn fyrir að vera samtök hvalveiðiþjóða um skynsamlega nýtingu og svokallaða sjálfbæra nýtingu þessara auðlinda. Þessi gagnrýni var út af fyrir sig rétt en í staðinn átti að koma samstarf örfárra hvalveiðiþjóða, stofnun sérstakra samtaka og í krafti þeirra átti að efla samstöðu þeirra þjóða sem vildu hefja veiðar. Síðan hafa verið vaktar upp vonir sem nú í ljósi sex ára biðstöðu hafa reynst vera falskar vonir um það að á hverju ári eða frá ári til árs eða á næsta ári verði þessar veiðar hafnar. Nú er alveg ljóst að þetta var misráðið. Þetta hefur ekki skilað neinum árangri og það sem verra er, þetta hefur orðið til að vekja upp þessar fölsku vonir og jafnvel sár vonbrigði. Málið er farið að bögglast fyrir brjósti stjórnvalda og þess vegna er alveg sérstök ástæða til að spyrja um niðurstöður þeirrar nefndar sem hefur fjallað um þetta mál og hefur væntanlega eitthvað fram að færa um það hvernig menn ætli að losna úr þeim ógöngum.

Það eru tiltölulega fáar þjóðir sem hafa verið í framvarðarsveitinni í erfiðri stöðu við að halda fram málstað nýtingarstefnunnar. Japanir hafa verið þar einna fremstir í flokki, Norðmenn og við eigum að sjálfsögðu heima í samstarfi þeirra. Norðmenn voru frá upphafi í þeirri sérstöðu að þeir áskildu sér með sérstökum fyrirvara meðan þeir voru í ráðinu andstöðu við hvalveiðibannið á sínum tíma og hæstv. sjútvrh. hefur ævinlega lagt á það áherslu að staða þeirra sé að því leyti önnur en okkar. Þá er spurningin sú hvort ekki væri æskilegt að samstaða gæti tekist um að við reyndum að koma okkur aftur í svipaða stöðu og þeir. Það er ljóst að bandalagsþjóðir okkar hafa sjálfar lært af okkur, ekki síst Japanir, að endurskoða þessa misráðnu ákvörðun frá 1991 og ganga aftur í Alþjóðahvalveiðaráðið með kostum þess og göllum af þeirri einföldu ástæðu að ef við ætlum að ná fram markmiðum okkar, þá verður það ekki gert utan ráðsins. Reynslan hefur staðfest það.

Síðan er náttúrlega á það að líta að við hefjum ekki veiðar nema því aðeins að við getum tryggt að þær verði arðbærar. Ef við ætlum að fara að stofna til hvalveiða, þá hljótum við að hafa það að markmiði að hefja megi viðskipti með hvalaafurðir eins og aðrar afurðir og þá í krafti alþjóðlegra gildandi samninga um að ekki sé heimilt að beita viðskiptaþvingunum gegn slíkum viðskiptum ef þær fara löglega fram og eru ekki brot á alþjóðlegum skuldbindingum og alþjóðlegum samþykktum að því er varðar t.d. aðferðirnar o.s.frv.

Ljóst er að Alþjóðahvalveiðiráðið gerði á sínum tíma samþykkt um að leggja bann við viðskiptum með hvalaafurðir við þjóðir utan Alþjóðahvalveiðiráðsins. Á sínum tíma sem utanrrh. átti ég iðulega viðræður við fulltrúa japanskra stjórnvalda um þessi mál og þau drógu enga dul á að þeim væri gersamlega ókleift að eiga viðskipti við Íslendinga um hvalaafurðir meðan við stæðum utan Alþjóðahvalveiðiráðsins. Það var fullyrt með svo afdráttarlausum hætti af hálfu allra aðila, af hálfu sjávarútvegsráðuneytisins í Japan, af hálfu samtaka hvalveiðimanna, um leið og þeir gerðu grein fyrir því að þessir aðilar, sem eru sammála okkur um nýtingu auðlinda, áttu að mörgu leyti í vök að verjast innan japanska stjórnkerfisins. Vegna þess að sá þrýstingur og ofurþrýstingur sem bandarísk stjórnvöld beittu Japani, sérstaklega í gegnum hin ráðamiklu ráðuneyti iðnaðar, viðskipta og fjármála í Japan, með hótunum um að Japanir mundu bíða skaða af á Bandaríkjamarkaði með helstu afurðir sínar, sem er auðvitað iðnaðarvörur og hátæknivörur. Þeir gerðu okkur grein fyrir að þeir væru í þessari erfiðu stöðu og forsendan fyrir öllu saman væri að þær þjóðir sem vilja hefja hvalveiðar treystu samstöðu sína, störfuðu saman innan Alþjóðahvalveiðiráðsins, temdu sér þolinmæði í að vinna þetta mál vegna þess að öllum er ljóst að það vinnst ekki með skammtímaupphlaupum. Það vinnst á löngum tíma með því að vinna málinu stuðning jafnt og þétt og þar munar náttúrlega mest um atbeina Japana.

Mér sýnist að niðurstaða málsins sé einfaldlega sú að það sé ágreiningslaust í raun og veru og þetta sé sú leið sem við eigum að marka. Við eigum að fara að þeim ráðum sem hér er lagt til. Við eigum að sækja aftur um inngöngu í Alþjóðahvalveiðiráðið og gera það með fyrirvara um að við áskiljum okkur rétt til þess að hefja veiðar ef það er innan þess ramma sem alþjóðlegar skuldbindingar setja, þ.e. bæði samkvæmt niðurstöðum vísindamanna um að hvalveiðistofnum verði ekki ofboðið. Það eru engir hvalastofnar á lista yfir dýr í útrýmingarhættu við Ísland. Þvert á móti höfum við vísindaleg rök fyrir því að þeir eru sumir hverjir mjög í vexti. Með öðrum orðum, við eigum að gera þetta til að komast í sömu stöðu og Norðmenn. Þar með er ekki sagt að björninn sé unninn. Við höfum að vísu rutt úr vegi þeirri hindrun að okkur sé fyrirmunað að hefja þessi viðskipti, en við erum þá komnir í félagsskap þeirra þjóða sem ætla sér að vinna að ásættanlegri niðurstöðu í málinu og það er eina leiðin sem fær er. Eðlileg niðurstaða er því sú að hvetja þingið til að samþykkja þessa tillögu, enda vænti ég þess að hæstv. sjútvh. taki henni vel um leið og ég endurtek að ég tel eðlilegt við þessar umræður að skýrt verði frá niðurstöðum þeirrar nefndar sem ég nefndi í upphafi málsins og hvað hún hefur til málanna að leggja.